Reykjanesið er í uppáhaldi hjá Jónasi

Jónas Guðmundsson leiðsögumaður gaf nýlega út Göngubók um Reykjanesið.
Jónas Guðmundsson leiðsögumaður gaf nýlega út Göngubók um Reykjanesið.

Jónas Guðmundsson gaf nýlega frá sér bókina Gönguleiðir á Reykjanesi en áður hafði hann gefið frá sér bókina Gönguleiðir á Hálendinu. Hann segir Reykjanesið eitt best stikaða svæði á landinu og algengt sé að fólk á höfuðborgarsvæðinu líti fram hjá þessari náttúruparadís. 

Segja má að líf Jónasar snúist um útivist og ferðalög enda er hann leiðsögumaður, landvörður og ferðamálafræðingur. Aðspurður segir hann endurnærandi fyrir líkama og sál að stunda útivist. Hann segir líka sífellt vera að uppgötva eitthvað nýtt í útivist. „Og þá sérstaklega ef maður er nógu vel vakandi til að sjá hið smáa eins og hið stóra, horfa niður fyrir fæturna á sér á alla náttúruna í náttúrunni. En það sameinast líka svo margt í útivistinni, félagsskapurinn, ferðalagið og hreyfingin,“ segir Jónas. 

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Þessa stundina er Reykjanesið svolítið í uppáhaldi en í raun á ég marga staði, allt of marga en Fjallabakssvæðið og þar umhverfis er svæði sem ég kem aftur og aftur á og finn þörf til að heimsækja á hverju sumri og jafnvel oftar. Ég hjólaði líka um Langanes síðasta sumar með konunni og fékk þannig nýja hlið á það svæði. Margir staðir eru líka þannig að nauðsynlegt er að heimsækja þá bæði að vetri og sumri því upplifunin getur verið eins og þú sért ekki á sama staðnum.“

Jónas fjallar meðal annars um gönguleiðina Dalaleið í bókinni Gönguleiðir …
Jónas fjallar meðal annars um gönguleiðina Dalaleið í bókinni Gönguleiðir á Reykjanesi.

Hvað þarf að hafa í huga þegar ferðast er um hálendi Ísland?

„Fyrst og fremst þarf að horfa á veður og aðstæður og hafa fatnað og búnað með og auðvitað þá reynslu sem þarf til að ferðast þar um. Vera með fjarskiptatæki, símann og meira til, öll þrjú lög fatnaðar og ekki má gleyma ljúffengu nesti.“

Er Reykjanesið vanmetinn staður? 

„Máltækið leitaðu ekki langt yfir skammt á oft við því okkur er stundum svolítið tamt að fara í ferðalag norður, vestur eða austur en ekki þessa örstuttu vegalengd á Reykjanesið. Þarna er auðvitað mikil ferðaþjónusta og afþreying og líklega eitt mest stikaðasta göngusvæði landsins. Hægt væri að gefa út tvær til þrjár bækur til með gönguleiðum á Reykjanesi svo mikið er af góðum leiðum þarna. Þannig að já að ákveðnu leyti má kannski segja að við höfuðborgarbúar að minnsta kosti vanmetum Reykjanesið. En einn hvatinn af skrifum bókarinnar Gönguleiðir á Reykjanesi var að í kjölfar eldgossins heyrði ég marga segja að það væri nú lítið mál að rúlla á Reykjanes og fólk hefði hreinlega ekki áttað sig á hversu stutt þetta væri og þarna mætti nú vel ganga eitthvað.“

Áttu þér uppáhaldsgönguleið á hálendinu?

„Þetta er eins og ég ætti að velja á milli dætra minna en gönguleiðin frá Sveinstindi niður í Hólaskjól sem ég hef labbað nokkrum sinnum, meðal annars með dætrum mínum fer tvímælalaust í efstu sætin. Þar má finna einstaka gullmola og fjöldinn sem þar gengur er ekki mikill svo að mestu er maður einn með sjálfum sér á þeirri gönguleið.“

Skælingar, lónið við Uxtatind. Jónas segir staðinn stórkostlegan.
Skælingar, lónið við Uxtatind. Jónas segir staðinn stórkostlegan.

En á Reykjanesi?

„Ég hef mikið gengið á Reykjanesi síðustu áratugina en síðasta sumar fór ég allar leiðirnar í bókinni aftur og nokkrar til. Dalaleið er ein af skemmtilegri dagleiðum landsins þó hún sé í lengri kantinum en hún hefst við Kaldarásel og endar sunnan Kleifarvatns. Mögnuð leið hreinlega og ekki síðri er til dæmis Ketilsstígur upp frá hverasvæðinu við Krýsuvík, stutt leið sem skartar ótrúlega fallegri og fjölbreyttri náttúru.“

Ketilstígur.
Ketilstígur.

Hvaða ferð er eftirminnilegasta gönguferð sem þú hefur farið í?

„Þær eru margar og enn og aftur erfitt að gera upp á milli. Núna um helgina fór ég með konunni í gönguskíðaferð á Fjallbak, gistum í tjaldi í Dómadal og fengum einstaklega fallegt veður. Önnur eftirminnileg ferð er þegar ég gekk með dætrunum og fleirum Laugaveginn. Hafði gengið hann oft áður en í ferð með börnum opnast alltaf augun fyrir öðrum sjónarhornum. Held það sé hreinlega bráðhollt fyrir okkur fullorðna útivistarfólkið að draga börnin með af og til og sjá náttúruna með þeirra augum.“

Jónas á gönguskíðum.
Jónas á gönguskíðum.

Er einhver gönguleið sem þú mælir með fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í útivist?

„Af lengri leiðum má kannski helst nefna leiðir sem eru vel stikaðar og með góðri þjónustu eins og Laugaveg en eins má fara í gönguhópa í einhvern tíma og fá þannig reynslu og sjálfstraust til að feta eigin leiðir sem ég mæli svo sannarlega með. Flestar leiðir á Reykjanesi til dæmis eru vel stikaðar og því er það svæðið kjörið fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref og reyndar alla hina líka.“

Álftavatn.
Álftavatn.

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég ætla að hjóla í Evrópu með Bylgju, konunni minni en einnig verður gengið hér heima til dæmis um Lónsöræfi og Núpsstaðaskóg og það er ekkert sumar án þess að ekki sé farin ferð um Fjallabak, helst fleiri en ein og fleiri en fimm,“ segir Jónas að lokum. 

Jónas ætlar að hjóla í sumar með Bylgju konunni sinni.
Jónas ætlar að hjóla í sumar með Bylgju konunni sinni.
mbl.is