Alltaf í ævintýraleit en akkerið á Íslandi

Ása Marin rithöfundur á ferðalagi í Víetnam. Hér er hún …
Ása Marin rithöfundur á ferðalagi í Víetnam. Hér er hún í bænum Hoi An með heimakonu. Ljósmynd/Aðsend

Rithöfundurinn Ása Marin fékk ferðabakteríuna í vöggugjöf en hún á foreldra sem voru duglegir að ferðast. Sjálf hefur hún haldið því áfram og það sem meira er fléttað ferðalög á framandi slóðir inn í skáldsögur sínar. Nýjasta bókin hennar Elsku sólir gerist til að mynda í Andalúsíu. 

Ása Marin var fimm ára þegar hún fór í fyrsta sinn til útlanda með foreldrum sínum en þá var förinni einmitt heitið til Spánar. Foreldrar hennar fóru líka í lengri ferðir. „Þau fóru líka tvö ein til framandi landa eins og Japan og Púertó Ríkó, sem varð til þess að opna augun mín fyrir því að heimurinn allur var bara einni til tveimur flugferðum frá Íslandi,“ segir Ása um ferðaáhugann. 

Fékk hugljómun á Jakobsveginum

„Ferðabakterían var líka stór hluti þess að ég lærði spænsku í Malaga og Granada og fékk í framhaldi vinnu sem fararstjóri á Benidorm um aldamótin. Síðan þá hef ég tekið að mér ófáar ferðir meðal annars til Spánar, Portúgal og eyja í Karíbahafi og næ þar að nýta menntun mína sem kennari og áhugann á því að ferðast og kynnast annarri menningu og lifnaðarháttum. Núna er bakterían það skæð að ég fæ innilokunarkennd ef vegabréfið mitt er að renna út eða ef ég á enga ferð bókaða. Því það er stór hluti af ferðalaginu að hlakka til og kynna sér áfangastaðina.“

Ása Marin fékk þá hugmynd að skrifa skáldaðar ferðasögur þegar hún var að ganga Jakobsveginn. „Við vorum nokkrar sem gengum saman fyrstu fimm dagleiðirnar á svokölluðu frönsku leiðinni, sem er fjölfarnasta leiðin til Santiago de Compostela. Það þekkja það líklega flestir sem hafa gengið stíginn hversu skemmtileg stemning er á honum og mig langaði að skrifa sögu sem næði að fanga hana. Ég vildi þó ekki að þetta yrði ferðadagbókin mín heldur skrifaði ég skáldsögu og lét hana gerast á stígnum. Handritið að Vegi vindsins, buen camino var nánast tilbúið þegar ég, ári seinna, komst aftur á Jakobsveginn og gekk í um fjórar vikur þar til ég kom til Santiago de Compostela. En í göngunni þá bætti ég inn í handritið staðarlýsingum til að gera sögusviðinu betri skil,“ segir Ása Marin. 

Ása Marin fékk sömu löngun til að skrifa skáldsögu þegar hún var stödd í Hanoí í Víetnam nokkrum árum síðar. „Þannig varð Yfir hálfan hnöttinn til og ég skrifaði hana í fyrstu bylgju Covid, með ferðaþrána kraumandi í blóðinu. Bókunum var báðum vel tekið sem var hvati að halda áfram að skrifa og nýjasta bókin er Elsku sólir sem gerist í Andalúsíu, sem er uppáhaldshéraðið mitt á Spáni.“

Það eru fallegir bæir í Andalúsíu. Myndin er frá þorpinu …
Það eru fallegir bæir í Andalúsíu. Myndin er frá þorpinu Zahara de la Sierra. Ljósmynd/Aðsend

Líður eins og heima hjá sér í Andalúsíu

Ása Marin féll fyrir mannlífinu í Andalúsíu þegar hún fór í spænskuskóla. Hún segir hlýtt viðmót heimamanna, maturinn og hitinn heilla sig. Hún finnur einnig hvernig hún slakar ósjálfrátt á þegar hún lendir í Malaga.

„Ég fór til Malaga tvö sumur og gisti hjá spænskri fjölskyldu á meðan ég lærði spænsku í tungumálaskóla. Þessi sumur kynntist ég mörgum heimamönnum og í gegnum þá fékk ég smjörþefinn af því hversu góðir þeir eru í því annars vegar að slaka á, fá sér góðar siestur, og hins vegar að skemmta sér, henda í hressilegar fiestur. Þeir eru einfaldlega svo góðir í því að lifa lífinu. Njóta þess að elda paella á ströndinni á sunnudögum, bresta jafnvel í söng og flamengóklapp í strætisvögnunum og mæta svo blóðheitir á fótboltavöllinn, fórna ýmist höndum líkt og í mexíkóskri sápuóperu eða fagna líkt og liðið þeirra hafi unnið heimsmeistaratitilinn.“

Genalguacil listaþorpið í Andalúsíu.
Genalguacil listaþorpið í Andalúsíu. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað í Andalúsíu? 

„Strendurnar og borgirnar eru kannski það sem Íslendingar þekkja hvað best. Auk þeirra þá kann ég sérstaklega að meta hvítu kalksteinsþorpin sem kúra í uppsveitum Malaga og Cadiz. Ronda er fjallabær sem er vinsæll ferðamannastaður fyrri hluta dags. En seinni partinn fara dagsferðar-ferðamennirnir heim og þorpið fær á sig dásamlega ró sem ég sogast að.

Listaþorpið Genalguacil er annað uppáhaldsþorp sem hægt er að heimsækja á bílaleigubíl frá Costa del Sol. Það er eitt af hvítu þorpunum og hefur þá sérstöðu að fjöldi útilistaverka prýða bæinn. Á hverju ári er listahátíð og nýtt útilistaverk er sett upp. Þorpið er ekki fjölsótt af ferðamönnum og gæti þannig flokkast sem leynistaður,“ segir Ása Marin. 

Ása Marin segist fara til Andalúsíu þegar hún þarf að hlaða rafhlöðurnar, efla andann og safna kröftum. „Kannski af því að ég þekki svæðið vel og því er minna nýjungaáreiti sem herjar á mig í fríinu. En stundum kallar það meira á mig að fara á nýjar slóðir, sjá aðra menningarheima og stækka þannig minn eigin sjóndeildarhring, þá fer ég til lands eða staðar sem ég hef aldrei heimsótt áður.“

Værir þú til í að pakka saman á Íslandi og flytja til Spánar?

„Mér finnst gott að hafa akkerið mitt á Íslandi. Þrátt fyrir að mér líði ofboðslega vel í Andalúsíu og á ferðalögum almennt, þá verður Ísland alltaf landið mitt. Hér er friður og öryggi sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut. Hér er fólkið mitt og vinir sem ég vil ekki missa af. Það góða samt við akkeri er að það má vinda því upp og láta sig hverfa í stutta stund vitandi að það verður gott að sigla aftur í heimahöfn.“

Varð ekki fyrir vonbrigðum í Víetnam

Eins og áður sagði skrifaði Ása Marin einnig bók í kjölfar þess að hún fór í ferðalag til Víetnam. 

„Mig hafði langað í nokkur ár að sjá Ha Long-flóann eftir að hafa séð gríðarlega fallegar myndir teknar þar. Þannig að flóinn var í raun segullinn sem dró mig til landsins og var hann á mínum „bucketlista“,“ segir Ása Marin. 

Í höfuðborginni Hanoí í Víetnam.
Í höfuðborginni Hanoí í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

Hvað stóð upp úr í ferðinni?

„Ha Long-flóinn stóðst væntingar, náttúran var guðdómleg og staðurinn sveipaður dulúð. Eins og á mörgum vinsælum stöðum þurfti maður þó að einbeita sér að því að horfa framhjá ferðamannafjöldanum. En við gistum í fljótabáti eina nótt og var dvölin á flóanum einn af hápunktum ferðarinnar.

Eins var okkur boðið í hádegismat heim til heimamanna í Hue og var mjög skemmtilegt og fróðlegt að koma inn á heimili fólksins. Gleði heimamanna stóð líka upp úr. Mögulega vegna þess að sú mynd sem máluð er af landinu í vestrænum kvikmyndum fékk mig til að trúa því að þjóðarsálin væri þyngri. Ég var fljót að sjá að sú ímynd stafaði einfaldlega af fáfræði og Víetnamar eru yndislegir heim að sækja.“

Hvernig er maturinn í Víetnam?

„Ég á það til að vera smá matvönd og þarf oft að taka sjálfa mig í gegn til að vera opin fyrir því að smakka hluti. Maturinn í Víetnam var með þeim betri sem ég hef borðað á ferðalögum. Þeir blanda saman sterkum kryddum, sætu, salti og súru bragði þannig að bragðlaukarnir víbra í hverjum bita. Víetnam var einu sinni frönsk nýlenda og nýta heimamenn ýmislegt úr franskri matargerð og blanda því við þá austurlensku þannig að úr verður stórkostleg veisla.“

Á Ha Long-flóanum í Víetnam.
Á Ha Long-flóanum í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú komið til fleiri staða í Asíu?

„Í sömu ferð og ég heimsótti Víetnam fór ég til Kambódíu. Þar varði ég þremur dögum til að skoða stórkostlegu hofin í Angkor og svo tveimur dögum til að kynnast höfuðborginni Phnom Penh. Fyrir nokkrum árum fór ég líka í ellefu daga ferð um Kína, frá höfuðborginni Beijing til Hong Kong með viðkomu meðal annars í Xian.“

Dreymir um Suður-Ameríku

Hvert dreymir þig um að fara? 

„Listinn er langur enda svo margt úti í heimi sem ég á enn eftir að skoða. Mig langar mjög mikið að þræða Suður-Ameríku þar sem ég á þá heimsálfu alveg eftir, fara á Inkaslóðir í Perú, sjá saltsléttuna í Bólivíu og upplifa fótboltaleik á heimavelli Boca Juniors í Buenos Aires. Mig langar að hoppa á milli grískra eyja, þræða borgir Króatíu og heimsækja marga staði Silkileiðarinnar. Og svo á ég þann miðaldra-karladraum að þvera Bandaríkin eftir Þjóðvegi 66, en þar sem mér finnst ekki gaman að keyra þá yrði ég að finna mér bílstjóra.“

Ása Marín á ánni Mekong.
Ása Marín á ánni Mekong. Ljósmynd/Aðsend

Ertu búin að skipuleggja sumarfríið?

„Ég er með tvær vinnuferðir bókaðar í ár. Eina í vor til Lissabon og aðra í haust á söguslóðir Elsku sólir til Andalúsíu. Í samvinnu við Heimsferðir settum við saman tíu nátta hringferð þar sem þrjár borgir og nokkur hvít kalksteinsþorp verða heimsótt. Ég er enn að ákveða hvert ég fer svo í frí í haust en í vetur mun ég fara til London í brúðkaup til vinkonu minnar sem ég kynntist í skólanum í Malaga. Sumarfríið mitt er yfirleitt alltaf tekið út á öðrum tíma en sjálfu sumrinu því þá er svo dásamlegt að vera heima á Íslandi umvafin næturbirtunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert