Hjól og fjall fer aftur af stað

Vaskir hjólamenn við Hafursey á Mýrdalssandi.
Vaskir hjólamenn við Hafursey á Mýrdalssandi.

Haustið 2020 settu Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir af stað verkefni á vegum Ferðafélags Íslands sem var kallað Hjól og fjall. Eins og heitið ber með sér fólst verkefnið í því að safna saman áhugasömum hjólurum og fara með þá í hjólatúra sem jafnframt fólu í sér stutta fjallgöngu.

„Við höfðum lengi notað svona túra sem æfingar fyrir okkur prívat til þess að halda okkur í formi. Það fólst yfirleitt í því að hjóla að heiman, upp að einhverju fjalli, ganga á það og hjóla svo heim aftur,“ segir Rósa Sigrún aðspurð.

„Litlu fjöllin í nágrenni Reykjavíkur eins og t.d. Úlfarsfell, Helgafell og Mosfell henta vel í svona túra. Þá er hjólað ca 25-35 km eftir atvikum og gengið ca 4-6 km. Hámarkið er svo að hjóla upp að Esju, ganga upp að Steini og hjóla heim aftur. Þá gerir maður ekki meira þann daginn.“

Rafhjól og „hjartaknúin“ í bland

Verkefnið fékk mjög góðar viðtökur og hefur verið á dagskrá þrisvar sinnum síðan og uppbyggingin að jafnaði svipuð. Þátttakendur eru beðnir að koma á fjallahjólum – svokölluðum „hardtail“-hjólum sem eru með dempara á framhjóli en ekki afturhjóli. Oft liggja leiðir hópsins eftir misgrófum malarvegum og um fáfarnar slóðir eða jafnvel einbreiða stíga sem erfitt er að hjóla nema með fullri aðgát. Hópurinn hefur samt alltaf verið blandaður í þeim skilningi að sumir eru á fulldempuðum fjallahjólum og einnig hafa rafhjólaeigendur verið meðal þátttakenda. Í hópnum er oft sagt að annars vegar séu rafknúin hjól og hins vegar hjartaknúin og hefur farið vel á með þessum ekki svo ólíku hópum því hvað hefur til síns ágætis nokkuð.

Hópur frá Ferðafélagi Íslands á Jökulhálsi á Snæfellsnesi.
Hópur frá Ferðafélagi Íslands á Jökulhálsi á Snæfellsnesi.

Hjólað út um allt

Hjól og fjall hefur víða farið í nágrenni Reykjavíkur og hjólað og gengið á eða í kringum mörg fjöll og farið margar þröngar götur og stíga. Oft hafa hjólarar samt lagt land undir fót og hjól og ferðast hér og þar um svæðið frá Snæfellsnesi austur að Vík í Mýrdal. Af sjálfu leiðir að þátttakendur þurfa að eiga góða hjólafestingu á bílinn eða hafa tök á að flytja hjólið inni í bílnum.

Verkefnin sem hópurinn hefur tekist á við hafa verið misjafnlega metnaðarfull eða erfið. Sem dæmi um erfiðar hjólaferðir mætti nefna 40 km hring á Markarfljótsaurum með göngu á Dímon, hringinn um Hafursey á Mýrdalssandi með tilraun til að ganga á fjallið og lengsta ferð hópsins var þegar hjólað var frá Arnarstapa umhverfis Snæfellsjökul en sá leiðangur innibar um 800 metra hækkun.

Í þessu verkefni takast hjólarar á við ýmis verkefni sem að jafnaði verða ekki á vegi þeirra sem hjóla til vinnu sinnar eftir malbikuðum stígum. Hjóla þarf yfir læki og jafnvel straumharðar ár og hafa þátttakendur marga fjöruna sopið í þeim efnum, t.d. í hjólatúr nálægt Löngufjörum á Snæfellsnesi þar sem sæta þarf sjávarföllum til þess að komast á leiðarenda á Litla-Hrauni þar sem Ásta Sigurðardóttir skáldkona og listamaður fæddist.

„Okkur hefur virst að þetta verkefni laði að sér fólk sem hefur gaman af hæfilegu slarki og áskorunum. Þótt þátttakendur komi iðulega blautir og grútskítugir í mark þá er brosið alltaf breitt því æsilegar hjólreiðar leiða einhvern gáska og gleði úr læðingi sem maður finnur ekki annars staðar,“ segir Páll Ásgeir, annar umsjónarmanna verkefnisins.

FÍ Hjól og fjall starfaði síðast á haustdögum 2021. Í vetur var fitjað upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á reglulegar hjólaæfingar eftir vinnu á þriðjudögum og hefur lítill hópur fólks hist í Elliðaárdal og Nauthólsvík og haldið sér í hjólaþjálfun. Í snjóþyngslum vetrarins reyndi oft á tíðum verulega á hjólafærni þátttakenda en æfing var samt aðeins einu sinni felld niður vegna veðurs frá janúar til þessa dags.

Markmið þessa verkefnis og umsjónarmanna þess var að nota hjólið til náttúruskoðunar. Í fyrsta lagi er gaman að hjóla í sjálfu sér, því fylgir hraði og spenningur sem mynda aðra stemningu en almennt tíðkast í gönguferðum.

Glaður hjólamaður á Vatnaleið á Hellisheiði
Glaður hjólamaður á Vatnaleið á Hellisheiði

Hjól og maður þurfa að vera eitt

Fá skáld hafa ort um reiðhjól og hjólreiðar en þjóðskáld Íslands, Þórarinn Eldjárn, hefur þó gert það. Kvæði hans Möwekvæði sem fjallar um samband manns og hjóls hefur verið haft yfir í hjólaferðum Páls Ásgeirs og Rósu Sigrúnar. Einnig hafa menn mikið dálæti á öðru kvæði Þórarins sem fjallar um hjólreiðar en þar segir frá óförum Jóhannesar Birkiland á reiðhjóli í miðborg Reykjavíkur. Þar segir:

„Lítt vanur reiðhjóli rauk ég eins og fleygur

með rasandi fart um Austurstrætið breitt.

Í höfði mínu og hjarta ríkti geigur

því hjól og maður þurfa að vera eitt.“

Náttúruskoðun á hjóli

Með reiðhjóli er auðvelt að fara langar vegalengdir og skoða margfalt stærra svæði en í gönguferðum. Á reiðhjóli er samt auðvelt að njóta samvista við náttúruna því hjól og maður eru úti í beinu sambandi við umhverfið, vindinn, fuglana og landslagið. Með því að leggja leiðina um áhugaverðar söguslóðir og viðhafa vandaða leiðsögn er hægt að búa til nýja upplifun fyrir útivistarfólk þar sem hjólreiðar og gönguferðir renna saman.

Nú þegar sól hækkar á lofti og sumar gengur formlega í garð ætlar Ferðafélag Íslands að bjóða upp á hjólaferðir undir heitinu: Hjól og fjall undir stjórn Páls Ásgeirs og Rósu Sigrúnar. Þessar ferðir verða öllum opnar og hægt að bóka sæti gegnum netið fáum dögum áður. Hægt er að fylgjast með á vef Ferðafélags Íslands – www.fi.is og ekki missir sá sem fyrstur fær.

Hjólamaður í erfiðum aðstæðum á Hólmsheiði.
Hjólamaður í erfiðum aðstæðum á Hólmsheiði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert