Veita innsýn í eitt glæsilegasta hótel landsins

The Retreat hótel Bláa lónsins er eitt glæsilegasta hótel landsins.
The Retreat hótel Bláa lónsins er eitt glæsilegasta hótel landsins. Ljósmynd/Aðsend

Bláa Lónið tekur þátt í HönnunarMars í ár með sýningunni Sögur af sköpun – tilvera hönnunar á The Retreat hóteli Bláa lónsins. Sýningin stendur til 8. maí á Hafnartorgi. The Retreat hótelið við Bláa Lónið opnaði árið 2018. Það hefur á skömmum tíma hlotið á fjórða tug alþjóðlegra sem og innlendra verðlauna og viðurkenninga fyrir hönnun sína. 

Á sýningunni verður hulunni svipt af tengingu náttúru og mannlífs við hönnun hótelsins og verða sögur, sem hafa ekki áður komið fram, sagðar af þessu innra landslagi. Sýningin er hönnuð af Design Group Italia. Hótelið The Retreat er byggt inn í aldagömul jarðlög og umkringt jarðsjó Bláa Lónsins. Við hönnun hótelsins var frá upphafi lagt mikið upp úr samspili náttúru, vísinda og hönnunar.

Ljósmynd/Aðsend

Hrólfur Karl Cela, arkitekt hjá Basalt arkitektum, og Sigurður Þorsteinsson, hönnuður hjá Design Group Italia, unnu að sköpun Retreat hótelsins. Þeir verða með með fyrirlestur sunnudaginn 8. maí klukkan tvö sem ber yfirskriftina Hvernig er náttúra sköpunar að breytast?. Fyrirlesturinn fer fram í sýningarrými Bláa lónsins á Hafnartorgi. Í spjallinu fjalla þeir um vegferðina og óvænt áhrif náttúrunnar á verkefnið. Náin samvinna upplifunarhönnunar og arkitektúrs verður til umfjöllunar sem og hvernig náttúran varð leiðarstefið í gegnum allt ferlið.

Bláa Lónið og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, sem stendur að HönnunarMars hátíðinni árlega, hafa undirritað samstarfssamning til þriggja ára. Bláa Lónið verður bakhjarl HönnunarMars og mun einnig koma að ýmsum samstarfsviðburðum er tengjast nýsköpun og samfélagslegum verkefnum á næstu árum.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Loka