Sjónræn upplifun í hjólatúrnum

Sigrún Sandra mælir með að hjóla um miðborgina að skoða …
Sigrún Sandra mælir með að hjóla um miðborgina að skoða öll fallegu vegglistaverkin sem þar er að finna. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Sigrún Sandra Ólafsdóttir, meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, var að klára vorönnina í háskólanum þar sem próf og verkefnaskil hafa átt tíman hennar allan. Áður starfaði Sigrún Sandra á skrifstofu borgarstjóra í um árabil og öðlaðist þar dýrmæta reynslu að eigin sögn. 

„Eftir sjö ár í Ráðhúsinu fann ég að mig var farið að langa til að bæta við mig þekkingu, að næra mig og stækka sjóndeildarhringinn. Ég rak myndlistargallerí áður en ég tók til starfa í stjórnsýslunni og saknaði ég skapandi geirans mikið. Mastersnámið er svo gefandi og skemmtilegt að ég held ég geti bara ekki hætt, það eru endalaus áhugaverð námskeið í boði.

Þessi önn hefur verið blanda af fjarkennslu og staðkennslu vegna veirunnar en ég kann best við að mæta í tíma. Mér finnst allir svo ánægðir með að hittast og geta spjallað í eigin persónu. Í mastersnáminu læri ég ekki síður af samnemendum mínum því við komum úr ólíkum áttum og hver og einn deilir sinni þekkingu.“

Hver eru uppáhaldssöfnin þín?

„Ég gæti talið upp endalausan lista af skemmtilegum söfnum og sýningarstöðum sem ég hef dálæti á en það fyrsta sem mér dettur í hug einmitt núna er Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholtinu hér í Reykjavík. Ég vann nýverið að verkefni inni í safninu með samnemendum í Háskóla Íslands, ásamt meistaranemum í myndlist við Listaháskóla Íslands. Þá fengum við að kynnast safninu vel og það er algjör perla. Þetta er fyrsta safnið sem var opnað almenningi á Íslandi og það á sér mjög áhugaverða sögu. Höggmyndagarðurinn fyrir aftan safnið er líka dásamleg vin í miðborginni. Húsbyggingin sjálf er afar merkileg en skiljanlega erfið upp á aðgengi og nútímakröfur listasafna. Það liggja fyrir áform um að reisa viðbyggingu við safnið sem myndi bæta alla aðstöðu og aðgengi verulega. Á næsta ári verður safnið 100 ára og mér þætti mjög við hæfi að gengið yrði í uppbyggingu við safnið á þeim tímamótum. Það eru svo mikil tækifæri fólgin í ómetanlegri staðsetningu safnsins,“ segir Sigrún Sandra og bætir við að þeir sem vilja fara í bíltúr út fyrir borgina þá mælir hún með heimsókn til Hveragerðis. 

Það ganga án efa margir um Njálsgötuna, án þess að …
Það ganga án efa margir um Njálsgötuna, án þess að líta upp og skoða öll áhugaverðu vegglistaverkin sem þar er að finna. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

„Ég get hiklaust mælt með sýningum sem standa yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði um þessar mundir. Þar eru fjórar sýningar, hver annarri skemmtilegri. Þar eru Magnús Helgason og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, sem dæmi með sitt hvora sýninguna, en ég vann með þeim í galleríinu mínu og kannast því við snilld þeirra. Þarna eru þau að vinna svo frábærlega inn í sýningarrýmin, með sem dæmi hreyfanlegum verkum og mikilli leikgleði. Þessar sýningar eru barnvænar og hressandi en þeim lýkur 22. maí svo ég mæli með að fólk fari í ísbíltúr og sýningarheimsókn austur fyrir fjall sem fyrst.“

Svo þarf ekki alltaf að fara inn á safn til þess að njóta lista og sköpunar að hennar mati. 

„ Ég er búsett í miðbænum og elska alla fallegu veggjalistina sem blómstrar á húsveggjum borgarinnar. Ég er ekki að tala um veggjakrotið hins vegar, heldur stóru veggmyndirnar sem finna má út um alla fögru Reykjavík. Þær eru bæði gerðar af þekktum sem minna þekktum listamönnum. Það er hægt að finna alveg frábært kort á netinu, sem var unnið af Reykjavíkurborg þar sem búið er að safna staðsetningum rúmlega 50 vegglistaverka út um alla borg. Ég á eftirlætis vegglistaverk sem er staðsett úti á Granda á Eyjarslóð 1 og sýnir stúlku sem er fljúgandi á risa mölflugu. Þetta verk er eftir Telmomiel og Mercury Rev. Til þess að finna kortið má nota leitarorðin „Veggjalist í Reykjavík“ og þannig komast á sporið. Það gæti verið skemmtilegur hjólatúr í vor að þræða slóð vel valinna veggjalistaverka. Allt frá Efra-Breiðholti út á Granda.“

Menning og list hefur fylgt Sigrúnu Söndru eftir alla tíð og er hún ein þeirra sem er nánast alin upp í Þjóðleikhúsinu þar sem hún æfði klassískan ballett frá níu ára aldri. 

„Það var ómetanlegt að fá að taka þátt í uppfærslum í Þjóðleikhúsinu sem barn. Ég var í Listdansskóla Þjóðleikhússins og þá fengu nemendur oft að taka þátt í sýningum. Þetta var eins og ævintýri að taka þátt í og ég lærði svo margt. Aga sem dæmi, samvinnu og þolinmæði. Ég held að tilfinning fyrir rými og sjónrænu flæði hafi líka síast inn hjá mér ómeðvitað þarna.“

Við getum lært ýmislegt nýtt um okkur sjálf í gegnum …
Við getum lært ýmislegt nýtt um okkur sjálf í gegnum listina. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Hvað gefur menning og list lífinu?

„Menning í listrænum skilningi og list er hluti af lífinu og er allt í kringum okkur. Listin er spegill á okkur sjálf og samfélag okkar. Listamenn sýna okkur sífellt ný sjónarhorn og vekja upp mikilvægar spurningar sem ekki verður umflúið að takast á við. Listamenn þora að glíma við pólitísk viðfangsefni svo sem umhverfismál og mannréttindamál til dæmis og eru því mikilvægt hreyfiafl í samfélaginu. Oft felast í listinni mikilvæg skilaboð eða innblástur og við getum stöðugt lært af henni. Jafnvel eitthvað nýtt um okkur sjálf.“

mbl.is