Laugavegsgangan var ekki ákveðin á lýðræðislegan hátt

Á fyrsta degi var hitinn lítið yfir frostmarki og töluverð …
Á fyrsta degi var hitinn lítið yfir frostmarki og töluverð vindkæling. En hópurinn var peppaður enda mikið af súkkulaði í bakpokanum. Ljósmynd/Aðsend

Dóra Magnúsdóttir, fræðslustjóri hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, gekk Laugaveginn ásamt fjölskyldu sinni í fyrrasumar. Hún segir það hafa verið töluverða áskorun að undirbúa unglingana sína þrjá, 12, 14 og 14 ára að fara í gönguna enda fannst þeim nákvæmlega ekkert heillandi við þá hugmynd að ganga 56 km á hálendinu með allt hafurtask á bakinu. Til samanburðar, og til að sýna fram á hversu galin þessi hugmynd var, voru þau rök reglulega dregin fram að akstursleiðin frá Reykjavík til Selfoss væri ekki einu sinni svo löng og ekki dytti nokkrum manni að ganga þá leið!

„Ég get lofað ykkur því að ákvörðun um að þramma þessa stórkostlegu gönguleið var ekki tekin á lýðræðislegan hátt. Það var ekki eins og ég hefði sagt: -Heyriði mig krakkar! Eigum við að ganga 56 km yfir hálendið? Svo munum við hækka okkur um 400 m. fyrsta daginn, ganga upp og niður brekkur og hóla, fara úr skóm og sokkum og vaða ár og líka … .. bíðiði bara róleg nú kemur það besta: þá ætlum við að fara með allt á bakinu, tjöld, dýnur, prímus og mat af því ætlum við að sofa í tjöldum. Flest annað göngufólk sem við hittum sefur í skálum og fær matinn sendan til sín, grillar á kvöldin og svona. En við ætlum að bleyta upp í þurrkuðum göngumat. Hvað segið krakkar, eru þið til í þetta?“

Sjáið tindinn, þarna fór ég, gæti pabbinn í hópnum verið …
Sjáið tindinn, þarna fór ég, gæti pabbinn í hópnum verið að segja þarna. Ljósmynd/Aðsend

Dóra segir að þau hjónin hafi plantað hugmyndinni um Laugaveg á lymskufullan hátt í höfðum saklausra ungmennanna. Til dæmis með því að nefna gönguferðina snemma á árinu, þannig að það hafi verið skýrt að ekki var um valkost að ræða, með því skipuleggja gönguna í byrjun árs svo sem með því að panta nýja svefnpoka og tjalddýnur af netinu fyrir Laugaveginn, með því að kaupa þurrmat tímanlega og gera lýðum ljóst að Laugavegurinn yrði genginn.

Það eru margar leiðir til að fara Laugaveginn. Það er sífellt vinsælla að hlaupa hann að stórum hluta og fara leiðina á tveimur dögum, svo er hægt að hjóla hann að miklu leyti, það er hægt að ganga án farangurs (í trússi) og það er hægt að ganga óháð/ur með gírinn á bakinu. Það er hægt að gista í skála eða tjaldi og jafnvel undir berum himni með réttu græjurnar. Dóra segir að frá því hún hafi gengið Laugaveginn fyrst, fyrir um það bil 30 árum, hafi gríðarlega margt breyst á þessari gönguleið sem hefur oft verið valin ein af fallegustu gönguleiðum heims. Hún segir að það hafi því verið ákveðin léttir að vita að landslagið eru nokkurn veginn eins, þó líði ár og öld. Fólki hefur í gegnum tíðina verið ráðlagt að ganga leiðina á þremur til fjórum dögum en nú færist í vöxt að ganga/skokka leiðina á styttri tíma. Nokkrir slíkir hópar fóru fram úr Dóru og fjölskyldu hennar. Hún segir að það hafi einnig færst í vöxt að ganga þessa leið með ung börn en yngsta barnið sem gekk Laugaveginn á sama tíma og Dóra var aðeins fimm ára.

Á kvöldgöngu fyrsta kvöldið í Landmannalaugum. Það þarf ekki að …
Á kvöldgöngu fyrsta kvöldið í Landmannalaugum. Það þarf ekki að ganga Laugarveginn til að heimsækja þessa mögnuðu náttúruperlu. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk metur að sjálfsögðu getu og þrek sinna barna sjálft en sem móðir og útivistarkona finnst mér það mætti gjarna bíða með að láta börn ganga þetta langt og lengi þar til þau eru orðin um það bil 10 – 11 ára. Ekki endilega vegna þess að yngri börn ráði ekki við gönguna líkamlega heldur vegna þess að þetta langar gönguleiðir henta ekki þroska ungra barna. En það er svo sem bara mín skoðun,“ segir Dóra. Hún segir að það hafi verið mikið um trússhópa, t.d. fjölskyldur og vini, sem finni aðila sem sér um að koma mat, svefnpoka og öðrum vistum til skálanna og svo er gengið með létt nesti. Sem er auðvitað alveg stórsniðugt en vissulega dýrari leið en að sjá um sig sjálf. Spurningin er bara hvaða leið hentar þér og þínum best? Dóra segir að þau hjónin hafi ákveðið að taka allt á bakið, bæði til að spara kostnað en líka til að vera engum háð.

Það er engu logið um náttúrufegurð gönguleiðarinnar um Laugaveg.
Það er engu logið um náttúrufegurð gönguleiðarinnar um Laugaveg. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta mál á dagskrá er að finna út úr því hvernig eigi að koma sér í Landmannalaugar. Það mál er svo sem auðleyst því Kynnisferðir reka Hálendisrútuna, sem er áætlun frá BSÍ yfir sumartímann, sérsniðin til að ferja göngugarpa að vinsælum gönguleiðum. Hálendisrútan hentar líka jeppaeigendum, sem gætu ekið inn í Landmannalaugar (eða Þórsmörk kjósi fólk að ganga til norðurs), því það gengur að sjálfsögðu ekki upp að aka þangað og skilja jeppann eftir og enda ferðalagið á öðrum stað. Yfir sumartímann er ein ferð á dag inn í Landmannalaugar og tvær inn í Þórsmörk þannig að þjónustan varðandi flutninga getur vart orðið betri og skilvirkari. Dóra segir að fólk sem hafi ekki komið á annan hvorn staðinn (svo sem sökum jeppaleysis) en treysti sér ekki að ganga ætt að velta þessum valkosti fyrir sig sér því Landmannalaugar og Þórsmörk séu með fallegustu stöðum landsins og vel hægt að njóta staðanna þó bara sé rölt um svæðin á eigin forsendum.

Það var ekki einfalt að sannfæra hina ofursvölu unglinga Dóru …
Það var ekki einfalt að sannfæra hina ofursvölu unglinga Dóru að ganga Laugaveginn. En svo var auðvitað mjög gaman þegar gangan var hafin. Ljósmynd/Aðsend

Svo er það spurningin um trúss vs. að bera eigið dót á bakinu. Kostirnir við trúss eru augljósir; það er miklu þægilegra að ganga með lítinn dagpoka með nesti heldur en að bera mat til 3ja til 4ra daga, föt, svefnpoka, prímus, tjald og dýnu. En trússið er ekki gefins frekar en annar lúxus í þessu lífi. Algengt verð er 10 þús. fyrir hvern einstakling per nótt. „Fyrir okkur sem vorum fimm á gönguför, hefði trússið eitt og sér, kostað okkur um 100 þús. kr. Helsti gallinn er því verðið og hugsanlega skortur á aðilum sem geta veitt trússþjónustu yfir vinsælasta tímabilið. Kosturinn við að taka allt í bakpoka er augljóslega sá að það er ódýrara, þú ert engum háð/ur og það er óneitanlega svolítið ævintýralegt. Ókosturinn er að sjálfsögðu þyngdin sem hægir svolítið á gönguköppum,“ segir Dóra.

Næsta sem þarf að ákveða er gisting. Kosturinn við að gista í skálum Ferðafélags Íslands er hversu notalegt það er að ganga beint inn í heitan skála eftir göngu dagsins, eiga öruggt pláss og geta hent sér á dýnu, eldað með eldhúsinu og spjallað við hina göngugarpana. Hinsvegar er það ekki alveg gefins, sérstaklega ekki fyrir stóra fjölskyldu. Þó er sjálfsagt að taka fram að verðlagningin er eðlileg miðað við hversu stuttan tíma á árinu er hægt er að taka gjald af þjónustunni og hve þjónustan er í raun öflug miðað við aðstæður. Einnig finnst sumum ekki þægilegt að sofa í svo miklu návígi við ókunnuga í skálum hálendisins. Annar ókostur er að það getur verið erfitt að hnika dagsetningum, svo sem er veðurspáin er ekki fýsileg því mest allt plássið er upppantað yfir hásumarið.

Hinn kosturinn er að taka með sér tjald. Kostirnir eru augljóslega frelsið sem það veitir; þ.e. þú getur gengið Laugaveginn nákvæmlega þegar þér hentar; þú ert ekki háður neinum dagsetningum. Svo er ódýrara að tjalda og þú ert í minna návígi við annað fólk. Gallarnir við tjaldgistingu eru helstir þeir að tjaldsvæðin á hálendinu, einkum í Landmannalaugum og í Hrafntinnuskeri, eru gróðursnauð og hátt upp í landinu. Ef það viðrar illa í 1000 m. hæð, þá geta aðstæður orðið býsna krefjandi fyrir tjaldbúa.

Þessi þekktasta gönguleið Íslands, sem oft hefur verið valin ein …
Þessi þekktasta gönguleið Íslands, sem oft hefur verið valin ein af fallegri gönguleiðum veraldar, býður göngufólki upp á fjölmörg náttúruundur. Ljósmynd/Aðsend

„Við hjónin ákváðum að taka blandaða leið með ungmennin okkar. Við tókum allt á bakið, bæði vegna kostnaðar en það skal líka viðurkennt að okkur fannst einhver sjarmi í því að vera sjálfum okkur nóg á hálendinu. Við vildum hinsvegar ekki ganga fram af ungviðinu fyrstu dagana, á erfiðustu (tjald)svæðunum og pöntuðum því pláss í skála í Landmannalaugum og í Hrafntinnuskeri. Við ákváðum að ganga ekki af stað strax eftir að komið var inn í Laugar enda höfðu börnin ekki kynnst þessari hálendisperlu. Við gengum upp á Bláhnúk fyrsta daginn og nutum útsýnisins, fórum í laugina og nutum þess að hefja þetta ferðalag í rólegheitunum og gista í skála FÍ inn í Laugum.“

Dóra segir að daginn eftir hafi alvaran hafist en samt bara í rólegheitunum því gönguleiðin frá Landmannalaugum upp að Hrafntinnuskeri er stutt, aðeins 12km en tæplega 500m hækkun. „Við sváfum út (eins og hægt var í skála), tókum okkur til í rólegheitunum og lögðum af stað um hádegisbil og vorum komin síðdegis í skálann. Það var í raun mjög heppilegt að bjóða krökkunum ekki upp á erfiðari fyrsta dag með byrðarnar. Næstu daga gengum við með hefðbundnum hætti en gistum í tjöldum restina af göngunni. Frá Hrafntinnuskeri að Hvannagili er 14 km og 490m lækkun, ekki löng dagleið en gangan niður Jökultungurnar tók svolítið á. Þessi dagleið er töluverð merkileg upplifun því þegar Jökultungurnar eru að baki (tæplega 400m lækkun) eru göngugarpar komnir niður af hálendinu og allt öðruvísi og mildara landslag tekur við. Næstu dagleiðir eru frá Hvannagili að Emstrum (14 km) og frá Emstrum suður yfir í Þórsmörk (15km).“ Dóra segir að það sé gaman að rifja upp að þó svo krakkarnir hennar hafi ekki verið sprúðlandi peppuð yfir göngum daganna hafi þau verið í góðu skapi og grínast mikið allan tímann. Litlir hlutir glöddu meira en þeir gera vanalega í hversdagslífinu, regluleg súkkulaðistopp, snakkið sem hægt var að kaupa í skálunum, happ yfir frábæru tjaldstæði, klósett úrræði náttúrunnar, fyndnar selfís og margt fleira. Við tókum oft snúning á hinum ameríska spjallleik „I spy“ sem hjá okkur heitir „Ég sé með litla krúttlega auganu mínu …“, en líka helling af Frúm í Hamborg sem við þróuðum yfir í frænku hennar í Lúxemborg en sú gefur alveg ótrúlega glataðar gjafir. Spiluðum yatsí og rommí á kvöldin og nutum einfalda lífsins.

Það var oft gaman á göngunni, en sjaldan var gleðin …
Það var oft gaman á göngunni, en sjaldan var gleðin jafn óbeisluð og þegar fjölskyldan tók við ferskum matarpoka sem sendur hafði verið með rútu. Ljósmynd/Aðsend

Dóra segir að stálpaðir krakkar og unglingar séu mögulega ekkert endilega spenntust af öllu að ganga Laugaveginn í sumarleyfi fjölskyldunnar ef sú tillaga er borin upp við kvöldverðarborðið sisvona. Þau eru ef til vill mörg hver spenntari fyrir utanlandsferðum eða einhverju einfaldara. En flestir hraustir krakkar ráða við gönguna líkamlega og samveran, átökin og stundum þrautseigjan þjappa fjölskyldum saman með bæði dýrmætum og ógleymanlegum hætti.

mbl.is