Er vegabréfið þitt tilbúið í ferðalagið?

Vegabréf
Vegabréf mb.is/Hjörtur

Áður en farið er til útlanda er mikilvægt að vita hvort vegabréfið sé ekki örugglega enn í gildi. Þjóðskrá tók nýverið saman nokkur góð ráð til að hafa í huga áður en haldið er af landi brott.

Útrunnið vegabréf er alltaf ógilt vegabréf og það er ekki hægt að framlengja útrunnið vegabréf, þú þarft að sækja um nýtt. Það er heldur ekki hægt að „redda“ neinu þegar komið er upp á flugvöll. Þegar þú ferðast út fyrir EES þarf vegabréfið að gilda í a.m.k. 6 mánuði fram yfir áætlaða heimkomu.

Það er því gott að renna yfir stöðuna á vegabréfunum nokkrum vikum fyrir brottför.

Hvernig sækir þú um vegabréf? 

Sótt er um vegabréf hjá sýslumönnum. Þú þarft að taka gamla vegabréfið þitt með þér eða ökuskírteini. Þú verður að muna að greiða þér og kíkja í spegilinn áður en þú ferð úr húsi. Það er tekin mynd af þér sem verður í vegabréfinu í mörg ár. 

Ef þú ert að sækja um fyrir barn þurfa báðir forsjáraðilar að mæta á umsóknarstað ásamt barni þegar sótt er um vegabréfið. Ef annar forsjáraðilinn kemst ekki þarf að fylla út eyðublað með samþykki vegna útgáfu einstaklings undir 18 ára aldri. Þetta á þó aðeins við ef tveir einstaklingar deila forsjá. Ekki gleyma að taka barnið með, það þarf að taka mynd af barninu fyrir vegabréfið.

Hversu lengi þarf að bíða eftir vegabréfi?

Það tekur fjóra daga að framleiða vegabréfið. Hægt er að sækja um hraðafgreiðslu en greiða þarf aukalega fyrir það. Tilbúin vegabréf eru sótt hjá sýslumönnum eða Þjóðskrá í Reykjavík. Aðeins er hægt að sækja vegabréfin á afgreiðslutíma. Ef þú getur ekki sjálf(ur) sótt það, mátt þú veita öðrum umboð til þess að sækja það fyrir þig. 

Mikilvægast af öllu er að muna eftir því að taka vegabréfið með upp á flugvöll.

mbl.is