Fastur um borð í tvær klukkustundir

Atvikið átti sér stað um borð í vél Jet2 á …
Atvikið átti sér stað um borð í vél Jet2 á flugvellinum í Manchester. Ljósmynd/Wikipedia.org/54north

Karlmaður sem notast við hjólastól var skilinn eftir í flugvél á flugvellinum í Manchester á Bretlandseyjum. Ástæðan var sú að enginn hjólastóll fannst handa manninum, þrátt fyrir að hann hafi pantað hann fyrirfram. 

Atvikið átti sér stað í apríl á þessu ári. Í viðtali við Manchester Evening News segir maðurinn, sem heitir Ray King, að hann og eiginkona hans hafi þurft að bíða í tvær klukkustundir eftir að aðstoðin sem hann þurfti barst. 

King segir að starfsfólk flugfélagsins Jet2 hafi verið frábært og reynt að gera sitt besta til þess að reka á eftir aðstoðinni frá flugvellinum.

Að lokum hafi hann þurft að ganga frá borði sjálfur. „Þrátt fyrir að þurfa hjólastól til að komast um flugvöllinn, þá var ég skilinnn eftir við hurðina og mér sagt að það væri lyfta. Ef ekki hefði verið fyrir eiginkonu mína hefði ég verið umkomulaus,“ sagði King. 

Hann segir að þrátt fyrir að þau hafi pantað hjólastólinn og aðstoðina hafi þeim verið sagt að það væru bara engir hjólastólar lausir. „Þegar ég komst loksins frá borði þá var enginn hjólastóll til að komast að flugstöðinni. Þannig ég þurfti að ganga nokkur skref, setjast niður, síðan ganga meira og setjast aftur, allt með aðstoð konunnar minnar,“ sagði King.

Vélin sem King kom með tafðist um tvær klukkustundir vegna þess að hjálpin barst ekki í tæka tíð. „Ég ætla aldrei að fljúga aftur í gegnum flugvöllinn í Manchester.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert