„Meira fyrir að fjárfesta og skapa minningar“

Jóna Dóra Hólmarsdóttir ferðast ódýrt.
Jóna Dóra Hólmarsdóttir ferðast ódýrt. Ljósmynd/Aðsend

Jóna Dóra Hólmarsdóttir, ráðgjafi hjá Dale Carnegie og fasteignasali, elskar að ferðast. Hún kýs upplifun fram yfir lúxus á ferðalögum. Hún segist vera nísk og ferðast því með litla tösku og borgar ekki fyrir óþarfa gistingu. 

„Ég fyllist þakklætis þegar ég fæ tækifæri til að upplifa annað en sömu rútínuna, sérstaklega núna þegar það er aftur meira frelsi til að ferðast. Innblástur og eldmóður eykst gríðarlega hjá mér þegar ég framkvæmi það sem mig langar til að gera. Ég elska að vera frjáls og er ég ansi heppin með vinnu sem gefur mér kost á að vinna hvar sem er í heiminum, svo lengi sem ég er nettengd,“ segir Jóna Dóra sem sér meðal annars um netnámskeið hjá Dale Carneigie. Hún er auk þess fasteignasali á Kýpur, keypti sína fyrstu fasteign þar árið 2017 og hefur verið þar með annan fótinn. 

Jónu Dóru finnst skemmtilegt að ferðast og upplifa nýja menningu.
Jónu Dóru finnst skemmtilegt að ferðast og upplifa nýja menningu. Ljósmynd/Aðsend

Ódýrustu miðarnir bestir

„Ég elska að ferðast með lítinn sem engan farangur. Ég er gríðarlega sparsöm, ef að peningarnir ávaxta sig ekki og gefa ekki hagnað, þá á ég það til að spyrja sjálfa mig, þarf ég þetta? Ég á til dæmis rosalega erfitt með að kaupa hluti eða föt. Ég er meira fyrir að fjárfesta og skapa minningar,“ segir Jóna Dóra þegar hún er spurð hvernig ferðalögum hún er hrifin af. 

„Svo ég vel að sjálfsögðu ódýrasta flugmiðann, tek engar töskur með nema það sem fylgir flugmiðanum, sef í lest, rútu eða í fluginu til að spara mér gistingu. Ég er týpan sem klæðist öllum fötunum sem ég mun taka með í ferðalagið. Heillandi, ég veit. Vonandi þroskast ég upp úr þessu fyrir fullorðinsárin.

Síðan varðandi ferðalagið sjálft, þá er ég lítið að plana fram í tímann hvað mig langar að sjá. Er rosalega opin persóna og á það til að enda bara á góðu spjalli við heimamanninn og þar af leiðandi upplifi ég landið oft frá öðru sjónarhorni en sem túristi. Það er gríðarlega skemmtilegt.“

Jóna Dóra á það til að sofa í flugvélum í …
Jóna Dóra á það til að sofa í flugvélum í stað þess að kaupa gistingu. Ljósmynd/Aðsend

Elskar að ferðast ein

Hvað er eftirminnalegasta ferð sem þú hefur farið í?

„Ég elska að ferðast ein en finnst auðvitað líka gaman að ferðast með öðrum. Ég fór ein til Las Vegas aðeins 19 ára á leið á viðskiptaráðstefnu, kynntist þar fullt af vinum og flutti í kjölfarið til Bandaríkjanna í smá tíma. En fyrsta utanlandsferðin situr fast í huga mínum. Ég var 12 ára og við fjölskyldan fórum til Tenerife. Þar syntum við með höfrungum, snorkluðum, fengum fléttur í hárið, sem var ævintýri út af fyrir sig og upplifðum jólin í fyrsta skiptið erlendis.“

Hvort kýstu ferðalög innanlands eða erlendis? 

„Ef ég hefði verið spurð fyrir kórónuveirutímabilið hefði ég alltaf sagt erlendis. En faraldurinn fékk mig til að sjá Ísland með öðrum augum. Ég fór að ferðast meira innanlands og fór að rifja upp gamlar minningar. Faðir minn keypti 48 manna rútu þegar ég var yngri og breytti henni í heimili á hjólum. Við ferðuðumst gríðarlega mikið um landið þá og fórum hringinn um landið allavega tvisvar sinnum á ári. Maður verður alltaf jafn hissa á hvað Ísland er fallegt land þegar farið er út fyrir borgina.“

Hundamamman Jóna Dóra.
Hundamamman Jóna Dóra. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað í öllum heiminum?

„Ég elska að fara heim á Sigló og fá að gista á Hótel Viðar. Þar tekur frændi minn vel á móti mér og færir manni bakkelsi alla morgna og svo auðvitað hlýjan sem Rut frænka gefur er á við Móður Teresu. Annars finnst mér íbúðin mín á Kýpur ansi hugguleg staðsetning til að slaka á og njóta,“ segir Jóna Dóra. 

Jóna Dóra getur unnið um allan heim og er ekki …
Jóna Dóra getur unnið um allan heim og er ekki hrædd við að vera ein á ferð. Ljósmynd/Aðsend

Dreymir um að keyra af stað

Jóna Dóra segist ekki hafa orðið fyrir vonbrigðum á ferðalögum enda segist hún hafa tamið sér að gera sér ekki of miklar væntingar og plön á ferðalögum. „Frekar njóta og taka því sem kemur,“ segir hún. 

„Það situr þó í mér ferð þegar ég keyrði vini mína frá Danmörku til Amsterdam þegar ég var 18 ára gömul. Þá vantaði bílstjóra þar sem þetta var djamm ferð og ég elska að ferðast, svo ég ætlaði að slá tvær flugur í einu höggi. Það sem ég hafði ekki pælt í er að ég hef aldrei drukkið, hvað þá reykt eða prufað fíkniefni þannig að þessi ferð var ekki fyrir mig. En ég reyndi að gera það besta úr aðstæðum og var glöð þegar ég komst heim.“

Jóna Dóra ferðaðist meira um Ísland í kórónuveirufaraldrinum.
Jóna Dóra ferðaðist meira um Ísland í kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Aðsend

Ertu búin að skipuleggja næstu ferðalög?

„Ég er nýkomin heim frá Danmörku úr heimsókn hjá foreldrum mínum og núna í apríl var ég á Kýpur. Þar sem ég á fjóra hunda, þá er það aðeins bras að finna hundapössun. En kærastinn er búinn að skipuleggja hringferð um Ísland í júlí þar sem við munum ferðast með alla hundana, skellum dýnu í bílinn – aftur af því að ég er svo nísk. Þetta verður algjör veisla.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig dreymir um að fá mér van, bíl sem hægt er að sofa í og keyra bara af stað. Balí og Taíland eru ofarlega á listanum. Eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður. Mig langar að eina taka heimsálfu í hverri reisu fyrir sig. Ég hef farið víða um Evrópu og Bandaríkin og búið á mismunandi stöðum en á margt eftir ósnert og óséð. Lífið er eitt risastórt ferðalag,“ segir Jóna Dóra. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is