Gerði ekki neitt í tvo mánuði í Feneyjum

Feneyjar er áfangastaður sem margir dreyma um að heimsækja.
Feneyjar er áfangastaður sem margir dreyma um að heimsækja. AFP

Marie Le Conte tók sér frí frá amstri hversdagsins og varði tveimur mánuðum í Feneyjum að gera ekki neitt. Hún var búin að safna sér dágóðri upphæð og Feneyjar urðu fyrir valinu því hún átti örfáa vini þar auk þess sem borgin hafði alltaf heillað hana.

Hikandi með að láta vaða

„Ég var um tíma hikandi með að verja öllu spariféinu mínu í eitthvað jafntilgangslaust. En ég sé ekki eftir krónu. Í tvo mánuði bjó ég í íbúð þar sem ef ég opnaði gluggann þá heyrði ég í bátunum þjóta framhjá. Ég drakk freyðivín úr litlum krúttlegum glösum alla daga og leyfði fótunum að dangla yfir síkjunum. Ég keypti allt grænmeti af bát. Svona var líf mitt í heila tvo mánuði,“ segir Le Conte í pistli í The Sunday Times.

Fáránlegar Feneyjar

„Feneyjar eru svo skemmtilega fáránlegar. Þar eru engir bílar, engar auglýsingar á veggjum. Þú verður að ganga allra þinna ferða eða hoppa um borð í bát. Lítið hefur breyst í um 100 ár. Það sem kom á daginn við að búa þarna er að ekkert er í raun til fyrir venjulegt fólk eins og mig. Jú, maður eignast sitt hverfiskaffihús og svoleiðis en þarna er t.d. bíó en maður veit ekkert hvað er verið að sýna fyrr en maður kemur á staðinn og nær í vikuritið þeirra. Svo eru veitingastaðir sem opna og loka eftir hentugleika. Heimasíður staðanna hafa ekki verið uppfærðar í fleiri ár og erfitt að fá upplýsingar um sýningar og opnunartíma. Það er bæði heillandi og óþolandi í senn.“

Enginn í alvöru vinnu

„Enginn er í rauninni í „alvöru“ vinnu. Flestir flæða um hin ýmsu störf í veitingageiranum eða ferðaiðnaðinum. Ég sem hafði alltaf talið mig mjög „bóhem“ leið allt í einu eins og Margaret Thatcher!“

„Mér fannst ég alltaf vera fátæk þarna. Vissulega var ódýrt að vera alltaf fótgangandi og vínið var ódýrt. En allt annað var dýrt. Þeir vita að þeir búa á gullfallegum stað og komast upp með verðlagninguna. Það er hægt að borða á alfarið á veitingastöðum ef maður er þarna í viku en það fer að taka verulega í ef maður ílengist þar.“

„Síðan er það mótsögnin. Allir þarna kvarta yfir ferðamönnunum og þessum leiðinlegu Könum en enginn myndi vita hvað þeir ættu að gera án þeirra! Feneyjar myndu sökkva ef ferðamennirnir væru ekki til staðar. Innfæddir vita að Feneyjar eru ekki „alvöru“ staður og þar liggur einmitt fegurðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert