Áhrifavaldabílstjórinn frá London kemur á klakann

Tdriver ásamt Sunnevu Einarsdóttur, Birgittu Líf, Camillu Rut, Valdísi Jónu …
Tdriver ásamt Sunnevu Einarsdóttur, Birgittu Líf, Camillu Rut, Valdísi Jónu og Nökkva Fjalari. Samsett mynd.

Toks Odofin Chauffeur, betur þekktur sem Tdriver, starfar sem bílstjóri fræga fólksins í Lundúnum, höfuðborg Bretlands. Hann hefur sérstakt dálæti á Íslendingum og hefur vakið athygli á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann birtir myndir af sér með íslenskum samfélagsmiðlastjörnum sem hann keyrir um Lundúni.

Tdriver hefur keyrt áhrifavalda á borð við Sunnevu Einarsdóttur, Birgittu Líf Björnsdóttur, Tönju Ýr Ástþórsdóttur, Línu Birgittu Sigurðardóttur, Nökkva Fjalar Orrason, Camillu Rut Rúnarsdóttur og Ástrós Traustadóttur. Í vikunni mun Tdriver heimsækja Ísland í fyrsta sinn, en aðspurður segir hann ferðina vera vinnutengda. 

Tdriver er spenntur fyrir komu sinni til landsins. Hann segist vita heilmikið um Ísland. „Það er margt sem heillar mig við landið, meðal annars norðurljósin, bjartar sumarnætur og gullni hringurinn. Aðallega er ég þó spenntur að sjá alla íslensku vinina sem ég hef eignast,“ segir Tdriver. „Ég veit að Ísland er fallegt en fólkið er enn fallegra.“

Tdriver og Tanja Ýr.
Tdriver og Tanja Ýr.

Spenntur að fá sér Hlöllabát

Tdriver segir ferðina vera einskonar „vinnufrí“ þar sem hann ætlar bæði að njóta Íslands og vinna. „Ég hef fengið þau forréttindi að fá að keyra brúðina Veru Sif Rúnarsdóttur á brúðkaupsdaginn hennar,“ segir hann.

Hann ætlar þó líka að gefa sér tíma til að skoða landið og njóta. „Ég ætla að heimsækja Bláa Lónið, Sky Lagoon og Flyover Iceland.“ Tdriver segist þó vera sérstaklega spenntur fyrir að smakka skyndibitastaðinn Hlöllabáta. „Ég hef heyrt að fólk fái sér aðallega Hlöllabáta þegar það er drukkið, svo ég vil sjá hvort það sé eins gott edrú,“ segir hann. 

Tdriver segist vera spenntur að fá sér Hlöllabát.
Tdriver segist vera spenntur að fá sér Hlöllabát.

Tdriver byrjaði að keyra Íslendinga fyrir tilviljun þegar áhrifavaldurinn Lína Birgitta hitti hann í Lundúnum. „Það er fyndin saga í rauninni. Lína gekk að bílnum mínum þegar ég hafði lagt bílnum mínum fyrir utan hótel í Lundúnum. Hún sagði að henni líkaði við hversu hreinn bíllinn minn var og að ég væri alltaf með vatn og sælgæti í bílnum fyrir viðskiptavini mína. Hún bað mig svo um að sækja sig daginn eftir og fara með hana út á flugvöll,“ segir hann og bætir við „the rest is history.“ Hann segist ævinlega þakklátur vinkonu sinni Línu Birgittu fyrir að kynna sig fyrir Íslendingum. 

Áður en Tdriver fór að keyra með Íslendinga vissi hann lítið um Ísland. „Ef ég á að vera hreinskilinn þá vissi ég ekki mikið um landið. Samt finnst mér núna eins og ég viti svo mikið eftir að hafa upplifað Ísland í gegnum farþegana mína,“ segir hann. „Ég veit að maður þarf ekki að hita upp heita vatnið þar sem það er mikill jarðhiti á Íslandi. Það verður mjög töff að upplifa það.“

Tdriver segist elska vinnuna sína. „Ég elska að keyra áhrifavalda sem og venjulegt fólk. Fyrir mér snýst þetta ekki um titilinn þinn heldur hjartað þitt. Ég get með sanni sagt að ég hafi eignast íslenska vini fyrr lífstíð,“ segir hann. „Mér líður næstum eins og ég sé að koma heim þó ég hafi ekki komið til Íslands áður. Ég elska heimspeki og hugarfar Íslendinga, og þá sérstaklega viðhorfið „þetta reddast“.“

Liv Sunneva, Tdriver og Elenora Rós.
Liv Sunneva, Tdriver og Elenora Rós.
mbl.is