Atvinnuflugmaðurinn Telma Rut Frímannsdóttir hafði verið flugfreyja hjá Wow Air í rúman mánuð þegar hún áttaði sig á því að hún gæti sjálf lært að fljúga flugvél. Hún skráði sig strax í flugnám hjá Keili og er í dag atvinnuflugmaður hjá Air Atlanta Icelandic.
Af hverju ákvaðst þú að fara í flugmanninn?
Það var eiginlega algjör tilviljun. Ég byrjaði semsagt sem flugfreyja hjá WowAir og eftir að hafa unnið þar i rúman mánuð áttaði ég mig á þvi að ég gæti flogið flugvélinni sjálf og skráði mig strax i flugnám hjá Keilir.
Hefur þig alltaf langað til að fljúga?
Nei þetta var ekki atvinnugrein sem ég hefði haldið að ég myndi enda í. Ég hélt alltaf að ég myndi vinna við eitthvað tengt íþróttum, þar sem ég er mikill íþróttaálfur og keppti í mörg ár fyrir hönd Íslands í karate.
Hvernig var flugmannsnámið?
„Bóklegi hlutinn var mjög krefjandi og henti ég mér einhvernvegin bara í djúpu laugina án þess að kynna mér eitt né neitt um hvernig námið væri. Um leið og ég byrjaði í náminu áttaði ég mig á því að ég myndi ekki komast í gegnum það nema fókusa alveg og gefa mig alla í það svo eg ákvað að flytja á Ásbrú til að forðast allar freistinga og truflanir frá vinum og fjölskyldu til að geta einbeitt mér 100% að náminu.“
Mér fannst verklegi hlutinn ekki mjög erfiður og var hann skemmtilegi hlutinn af náminu og aðalatriðið í þessu öllu. Að sjá allt úr lofti er svo allt öðruvísi og upplifunin alltaf jafn skemmtileg þó ég hafi flogið yfir sama punktinn mörgum sinnum þá er hann einhvernveginn aldrei eins, þetta er svo mikið frelsi og maður gleymir öllu stressi.“
Stefnir þú að því að bæta við þig fleiri réttindum?
„Já, ég hef farið í nokkur listflug og stefni á að fá listflugsréttindi, finnst það ekkert smá gaman.“
Hver eru markmið þín í flugbransanum?
„Markmiðin eru auðvitað að vinna mig upp og verða flugstjóri einn daginn!“
Nú starfar þú í heldur karllægum geira þó alltaf séu fleiri konur að bætast við. Finnur þú mikið fyrir því að þetta sé „hefðbundið karlastarf“?
„Ég fann smá fyrir því þegar ég var að byrja í náminu en pældi lítið í því, því ég fékk mikinn stuðning frá fjölskyldunni og ég fann strax að þetta var eitthvað sem ég vildi gera!
Ef einhverjar konur eru þarna úti sem eru hræddar við að sækja um vegna þess að þetta er „karlastarf“ þá ætla ég að segja ykkur að hætta að hugsa um það ef þú hefur áhuga á flugi þá bara láta vaða og ekki hugsa út í hvað örðum finnst, við gerum þetta fyrir okkur!“
Hvað er það skemmtilegasta við starf þitt sem flugmaður?
„Við starf mitt núna er það að ég er að ferðast til svo margra mismunandi landa sem er algjört ævintýri og maður fær að sjá svo mikið af heiminum og líka auðvitað að ég er að fljúga flugvél sem við köllum Queen of the Skye's eða oft á íslensku Bumbunni sem er Boeing 747.“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Svona búandi á Íslandi þar sem er oft lítil sól finnst mér skemmtilegast að ferðast til sólarlanda eða aðeins heitari landa. En myndi ekki segja nei við borgarferð.“