Eiginkonan tjaslaði puttunum saman

Þráinn Kolbeinsson ljósmyndari var lengi að uppgötva Austurlandið en þegar það loksins gerðist varð ekki aftur snúið. Þótt Þráinn sé heimakær segir hann fátt toppa ferðalög með fjölskyldunni. Hann er vinsæll atvinnuljósmyndari sem hefur unnið fyrir National Geographic, Icelandair, Nissan og 66°Norður svo eitthvað sé nefnt. Hann eyðir töluverðum tíma á ferðalagi um landið, bæði vegna vinnu en einnig til að njóta með fjölskyldu sinni og vinum. Eiginkona hans er Berglind Anna Magnúsdóttir og saman eiga þau tvö börn; hann Þröst sem er þriggja ára og Sóleyju eins árs.

Ferðalög fjölskyldunnar eru bæði innanlands en einnig utan landsteinanna og er fjölskyldan um þessar mundir að skipuleggja vel þegið fjölskyldufrí við Garda-vatnið á Ítalíu.

Hvað getur þú sagt okkur um áhuga þinn á Austurlandi?

„Austurland er sá landshluti sem líklega varð hvað mest útundan hjá mér í langan tíma. Á sama tíma er hann án efa sá landshluti sem náði mér strax frá fyrstu ferðinni þangað.

Það eru bara nokkur ár síðan ég ferðaðist almennilega um Austurlandið en þá var það hluti af hringvegar-ævintýri með fjölskyldunni. Eftir það nýti ég hvert tækifæri sem ég get sem afsökun til að fara austur, hvort sem það er vinnutengt eða ekki.

Þetta er landsvæði sem gefur endalaust og býður upp á alls konar skemmtun allan ársins hring.“

Þótt Þráni líði alltaf vel heima hjá sér þá er það að ferðast það skemmtilegasta sem hann gerir.

„Lífið er einhvern veginn einfaldara á ferðalagi. Þú ert bara með það sem þú ert með. Öllu öðru er „reddað“ þegar þarf. Flest verkefna minna í vinnunni tengjast náttúrunni og útivist á einhvern hátt. Svo er það breytilegt hvar á landinu ég er og hvenær ársins verkefnin eru unnin. Það fylgir því oft vinnunni að ferðast á milli ákveðinna staða fyrir ákveðið landslag eða veður.

Hver landshluti hefur sína einstöku sögu og karakter. Það eru mikil forréttindi að fá að upplifa og kynnast landinu sínu á meðan maður er í vinnunni. Oft á stöðum sem manni hefði seint dottið í hug að heimsækja ef ekki hefði verið fyrir vinnuna.“

Hvernig væri draumaferðalagið á Austurlandi?

„Mér finnst yfirleitt best að plana eins lítið og mögulegt er áður en lagt er af stað. Það er hægt að hafa ákveðna beinagrind og lista yfir það sem mann langar að gera en svo þarf að spila hlutina eftir eyranu; flýta sér hægt og ekki hika við að stoppa hér og þar. Taka óvæntar beygjur og prófa nýjar gönguleiðir. Þær þurfa ekki að vera langar enda hægt að upplifa margt á hálftíma. Það sem getur gert ferðalög um Austurland nokkuð þægileg er að nota Egilsstaði sem ákveðinn miðpunkt og þræða svo restina af landshlutanum og firðina eins og maður vill.

Ef við gerum ráð fyrir að ferðalagið byrji fyrir sunnan þá myndi ég líklega taka örlítinn útúrdúr upp Öxi. Þar er magnað útsýni báðar leiðir og fallegir fossar, Hænubrekkufoss og Foldafoss, á fyrsta korterinu eða svo. Þetta er góður staður til að brjóta aðeins upp keyrsluna og borða nesti. Næsta stopp myndi vera á Stöðvafirði þar sem ég myndi vilja ganga upp að Súlum. Þar myndi sólsetur ekki skemma fyrir neinum. Bæirnir á Austurlandi eru allir mjög skemmtilegir og geta verið góðir til að viðra börnin ef þau eru orðin þreytt á keyrslunni. Beituskúrinn í Neskaupstað er dæmi um skemmtilegt stopp þar sem allir verða saddir og sáttir.“

Myndi taka afslöppun í Vök

Á Egilsstöðum er svo þrírétta upplifun sem erfitt er að toppa að mati Þráins.

„Pítsa á Aski í forrétt, helst Járnkallinn. Svo myndi ég fara og kaupa ís í Skálanum í aðalrétt og loks væri tekin afslöppun í Vök og hopp í Urriðavatn í eftirrétt. Mér finnst alltaf mjög skemmtilegt að stoppa í Hallormsstaðarskógi og fleyta kerlingar á Lagarfljóti,“ segir hann.

Fyrir þá sem vilja fara í skemmtilegar skipulagðar ferðir býður Óbyggðasetrið í Fljótsdal upp á margar fjölbreyttar upplifanir.

„Ég myndi svo vilja enda ferðalagið á heimsóknum í þremur af mínum uppáhaldsfjörðum á Austurlandi; Mjóafirði, Seyðisfirði og Borgarfirði eystri. Þeir eru jafn ólíkir og þeir eru fallegir og gaman er að gista í þeim öllum. Mjóifjörður er minnst byggður af þeim en þar kemst maður í alvöru ró og næði. Þar fæ ég á tilfinninguna að svona hafi lífið verið á Íslandi fyrir mörgum áratugum. Seyðisfjörður er með fallegri bæjarstæðum landsins og með ótrúlega heillandi andrúmsloft. Yfirleitt reyni ég svo að enda Austurlandsferðirnar mínar á Borgarfirði eystri. Helst í pottunum í Blábjörgum. Þaðan eru margar af skemmtilegustu gönguferðum sem Ísland hefur upp á að bjóða en ég á enn þá eftir að fara í stóran part af þeim,“ segir Þráinn.

Það eru margir mjög skemmtilegir veitingastaðir á Austurlandi að hans mati.

„Þeir sem standa upp úr hjá mér eru Askur á Egilsstöðum, Frystiklefinn á Borgarfirði eystri og Klausturkaffi í Fljótsdal. Svo langar mig að veita Brekkunni á Stöðvarfirði sérstaka heiðurstilnefningu en þar getur maður fengið ljómandi góðan og strangheiðarlegan heimilis- og sjoppumat á meðan eigendurnir spjalla við mann um allt milli himins og jarðar. Þá er gott að hafa eigin ættfræði á hreinu.

Ég hlakka samt til að ferðast meira um firðina og prófa veitingastaði sem ég hef ekki prófað áður,“ segir hann.

Hvar er best að gista?

„Oft hef ég gist í tjaldi eða pallhýsi en af þeim gistingum sem ég hef prófað þá standa helst upp úr Blábjörg á Borgarfirði eystri, Sólbrekka (e. Holiday Homes) í Mjóafirði og Mjóeyri í Eskifirði. Allt skemmtileg og persónuleg gisting í einstakri náttúru.“

Þráni finnst alltaf skemmtilegt að gista á nýjum stöðum og Austurland er frábært að því leyti að það eru svo margir mismunandi staðir í boði.

Áttu skemmtilega sögu af þér á ferðalagi um Austurland?

„Ég veit ekki hversu skemmtileg þessi saga er en einhverra hluta vegna kom hún fyrst upp í hugann. Fyrir nokkrum árum fór ég með vini mínum og mági, Hjalta mikla Magnússyni, niður Lagarfljót og alla leið út á haf á kajak.

Daginn áður en við lögðum af stað var ég að njóta með fjölskyldunni í Mjóafirði. Við vorum við Klifbrekkufossa og ákvað ég að taka stutt drónaflug rétt áður en sólin settist. Það fór ekki betur en svo að þegar ég ætla að lenda drónanum í lófanum á mér þá hætta skynjararnir að virka og hann flýgur harkalega í höndina á mér. Við lætin opna spaðarnir tvo myndarlega skurði; annan á vísifingri og hinn á litla fingri.

Konan mín er læknir svo ég var í góðum höndum en við þurftum að koma okkur aftur í bílinn og bruna á eina staðinn sem okkur datt í hug að gæti verið með sjúkrakassa, ferðaþjónustuna Sólbrekku. Þar tjaslaði hún puttunum saman og gerði þá kajakhæfa fyrir næstu fimm til sex dagana,“ segir hann.

Þegar Þráinn er spurður hvað hann myndi aldrei gera á Austurlandi svarar hann snöggur upp á lagið: „Ég myndi aldrei sleppa því að fá mér vöfflu með rjóma og sultu í Sólbrekku í Mjóafirði, en það er eiginlega nauðsynlegt að gleyma ekki að hoppa í sjóinn af bryggjunni þar ef veðrið er gott og leika við hundinn Villa. Hann elskar ekkert meira en að elta steina.

Annars gildir auðvitað það sama þarna og annars staðar á Íslandi: Maður hugsar vel um náttúruna og skilur hana eftir eins og maður kom að henni,“ segir hann.

Erum gerð fyrir útivist

Þráinn upplifir mjög mikinn áhuga á Íslandi í gegnum samfélagsmiðla þar sem 60 þúsund manns fylgja honum meðal annars á Instagram. Þessi áhugi er ekki bara á náttúrunni heldur einnig á menningu okkar og sögu.

„Ég fæ oft mjög skemmtileg viðbrögð þegar ég gef smá innsýn inn í lífið hérna og einhverjar venjur. Bara það að smábörn sofi meira og minna úti, jafnvel yfir veturinn, finnst fólki ótrúlegt og að margir byrji alla daga á skoti af fiskifitu. Maður gleymir því stundum hvað Ísland er einstakt að mörgu leyti og með sérstaka sögu samanborið við mörg önnur lönd.“

Þráinn er þó misjafnlega duglegur á samfélagsmiðlum og fer það eftir því hversu mikið er að gera hjá honum hverju sinni.

„En ég reyni að hafa þetta einhvers konar bland í poka. Ævintýri, daglegt líf og innsýn í verkefni – þá tökur og myndvinnslu og fleira.“

Hvaða kraft færðu úr náttúrunni?

„Það er erfitt að segja, en ég veit að mér finnst ég sjaldan jafn lifandi og þegar ég er úti í vondu veðri í einhverju brasi. Það er eins og það kvikni á einhverjum frumstæðum genum. Athyglin verður þrengri og öll vit skarpari. Ég verð orkumeiri og allt slen lekur úr manni. Hugarróin og sáttin sem ég upplifi eftir að hafa verið úti að brasa er alltaf jafn góð.

Við getum orðað það þannig að ég hef aldrei séð eftir því að eyða of miklum tíma úti. Það er ekki til neitt lyf sem gefur manni sömu tilfinningu og vellíðan og engin leið að stytta sér leið að henni. Við erum gerð til að eyða tíma úti í náttúrunni,“ segir hann.

Hvað með sundlaugar og náttúrulaugar á Austurlandi? „Náttúrulaugar eru alltaf jafn skemmtilegar. Við þurfum yfirleitt að hafa aðeins fyrir því að komast í þær og smá bras gerir verðlaunin alltaf þeim mun betri. Það er fátt betra en að mæta loksins að náttúrulaug eftir smá göngu. Veðrið hættir að skipta máli og þú veist að næsti klukkutími verður góður.

Uppáhaldsnáttúrulaugin mín á Austurlandi er Laugavellir. Hún er stutt frá Kárahnjúkum. Þar eru líka leifar af gömlum bústað sem er gaman að skoða. Þetta er vel valinn staður að búa á ef þú spyrð mig.

Á hinn bóginn, fyrir þá sem vilja aðeins minna bras, meiri lúxus og kokteilbar, þá finnst mér náttúruböðin Vök fullkominn millivegur. Þótt þau séu vissulega manngerð þá er maður í rauninni úti í náttúrunni, alveg við Urriðavatn sem er hressandi að dýfa sér út í ef maður vill smá kælingu. Það er virkilega skemmtileg upplifun!“

Leiðist yfirleitt ekki

Hvað með fatnað og á hvernig bíl er best að vera á ferðalögum um Austurland?

„Það fer algjörlega eftir árstíð en mér finnst yfirleitt best að fara í ferðalag við öllu búinn ef það er pláss til þess. Góðir skór, ullarnærföt, venjuleg föt, léttir jakkar með dún og/eða flísi og svo regnföt er gott að taka með. Á veturna treður maður auðvitað stóru úlpunum með. Svo má maður samt heldur ekki gleyma að þótt við búum á Íslandi fáum við stundum ótrúlega gott veður og það er glatað að vera einhvers staðar að kafna í gallabuxum og flíspeysu í steikjandi hita. Svo ekki gleyma stuttbuxum og nærbolum og sólgleraugum,“ segir hann.

Af óvenjulega skemmtilegum gististöðum bendir Þráinn á Óbyggðasetrið í Fljótsdal.

„Þar kemst maður eins nálægt því og hægt er að ferðast aftur í tímann. Þar eru öll nútímaþægindi sem maður þarf – nema í gamaldags búningi. Þar eru alvörufornmunir á Austurlandi, frábær gufa, góður matur og fallegt útsýni. Það er erfitt að toppa það.“

Annar óvenjulegur gististaður á Asturlandi myndi vera eyja sem þeir vinirnir nefndu Saurey. „Við nefndum hana einnig Nýju-Grindavík en hún er á miðju Lagarfljóti og er nafnlaus. Þar eru tvö tré, lítið rjóður og nóg af fuglaskít fyrir þá sem eru fyrir svoleiðis. Skemmtileg upplifun en kannski ekki fyrir alla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert