9 æsispennandi staðir á Austurlandi

Stórurð er fögur.
Stórurð er fögur.

Þeir sem ætla að heimsækja Austurland í sumar hafa úr nægri dægradvöl að velja. Hér eru nokkrir staðir til að heimsækja en listinn er þó engan veginn tæmandi.

Hallormsstaðaskógur

Hallormsstaðaskógur er stærstur skóga á Íslandi. Hann er að mestu náttúrulegur birkiskógur en gerðar hafa verið tilraunir með innfluttar trátegundir allt frá árinu 1905. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með tjaldsvæðum og merktum gönguleiðum. Hann er friðaður og er fyrsti þjóðskógur Íslands.

Regnbogagatan

Regnbogagatan á Seyðisfirði er á meðal mest mynduðu kennileita á Austurlandi. Verkefnið var upprunalega tímabundin viðgerð á götunni sem átti að endast eitt sumar. Verkefnið sló hins vegar algjörlega í gegn, enda einstaklega skemmtilegt uppátæki hjá bæjarbúum sem hjálpuðust að við að mála götuna jafn fallega og raun ber vitni. Nú er gatan máluð á hverju vori og er hún einn vinsælasti ljósmyndaáfangastaður landsins. Við enda regnbogagötunnar stendur svo Bláa kirkjan sem er einstaklega falleg bygging.

Ljósmynd/Ása Steinars

Vök Baths

Vök Baths eru heitar náttúrulaugar við Urriðavatn, í 5 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum. Laugarnar eru fullkominn áningarstaður allra þeirra sem vilja upplifa beina snertingu við náttúruna og næra um leið líkama og sál. Á Austurlandi eru fá jarðhitasvæði og því eru heitar náttúrulaugar spennandi nýjung fyrir íbúa og þá sem sækja Austurland heim.

Stuðlagil

mbl.is/Sigurður Bogi

Á Jökuldal á Fljótsdalshéraði má finna náttúruperlu sem kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, eða Jöklu, minnkaði. Þessi perla er sá hluti Jökulsárgljúfurs sem nefnist Stuðlagil. Nafnið er dregið af því að þar er að finna eina stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á Íslandi.

Djúpavogskörin

Djúpavogskörin eru skemmilegur baðstaður rétt sunnan við Djúpavog. Heitt vatn streymir upp úr borholu sem var boruð fyrir nokkrum árum og heimamenn settu þar upp tvö kör til þess að nýta heita vatnið og njóta útsýnisins yfir fjörðinn. Hitinn í öðru karinu er um 42°C en úr því rennur í hitt karið og það er um 40°C.

Laugarfell

Laugarfell er á austanverðu hálendi Íslands, rétt norðan við fjallið Snæfell. Kárahnjúkavegur liggur nánast að Laugarfelli en afleggjarinn frá veginum að skálanum er tveir kílómetrar og er það eini hluti vegarins sem ekki er lagður bundnu slitlagi. Að sumri til er vel fært að Laugarfelli fyrir allar tegundir ökutækja.

Laugarfell er með gistirými fyrir 28 manns. Tvær heitar náttúrulegar laugar eru við Laugarfell og eru þær samkvæmt gömlum heimildum þekktar fyrir lækningamátt sinn.

Petra Sveinsdóttir á Stöðvarfirði er hvað þekktust fyrir steinasafn sitt. …
Petra Sveinsdóttir á Stöðvarfirði er hvað þekktust fyrir steinasafn sitt. Hér er Petra Sveinsdóttir í steinagarði sínum ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, og Dorrit Moussaief. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Steinasafn Petru

Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir hafði áhuga á fallegum steinum alla ævi, en byrjaði að safna þeim fyrir alvöru 1946. Steinarnir hennar eru langflestir úr Stöðvarfirði og af Austurlandi því Petra leitaði ekki mikið að steinum í öðrum landsfjórðungum. Árið 1974 ákvað Petra að opna heimili sitt fyrir öllum þeim sem vildu skoða steinana hennar. Fjölmargir sækja safnið heim á hverju ári og er Steinasafn Petru einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi.

Sundlaug Eskifjarðar

Í sundlauginni á Eskifirði er aðstaðan góð fyrir skemmtilega og nærandi sundferð en þessi 25 metra útilaug er með heitum pottum, gufubaði, barnavaðlaug og þremur rennibrautum. Þá er fjallasýnin tilkomumikil, en beggja vegna rísa tíguleg fjöll Eskifjarðar. Sundlaug Eskifjarðar er staðsett við innkeyrsluna í bæinn. Hún opnaði árið 2006 og er sú nýjasta af fjórum sundlaugum Fjarðabyggðar.

Hengifoss

Hengifoss er í norðanverðum Fljótsdal á móts við innri enda Lagarfljóts. Hann er næsthæsti foss landsins. Mælist 128 m frá fossbrún og að botni hins stórfenglega gljúfurs. Bergveggirnir í gljúfrinu sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar, þegar Ísland var að myndast. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga frá bílastæði að fossinum. Á leiðinni er annar magnaður foss sem heitir Litlanesfoss. Sá er krýndur stuðlabergi sem er með því hærra á landinu og einstaklega myndrænt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert