Erum öll eins í grunninn

Heiða Björg Ingólfsdóttir.
Heiða Björg Ingólfsdóttir. mbl.is/Hákon Pálsson

Margir velta því fyrir sér hvort ekki væri hressandi að fá einhverja tilbreytingu í lífið og tilveruna. Brjóta sér leið út úr hversdagsleikanum með einhverjum hætti.

Heiða Björg Ingólfsdóttir, leikskólakennari frá Fáskrúðsfirði, lét ekki slíkar vangaveltur nægja. Hún lagði drög að utanför í nokkur ár, lét slag standa í fyrra og er nýkomin heim eftir ferðalag í tæpt ár.

Heiða ræddi við Sunnudagsblaðið um ferðina sem tók óvænta stefnu fyrir áramót. Upphaflega ætlaði Heiða sér að flakka um Evrópu og var í Þýskalandi þegar hún fékk heimboð til Nígeríu.

„Vinur minn sem er kallaður Ben býr í Nígeríu. Hann vissi að ég væri á löngu ferðalagi og bauð mér að eyða jólunum með sér í Nígeríu. Ég var í München en við byrjuðum að tala um í október að ég myndi vera í Nígeríu um jólin. Það átti að vera nægur tími og ég fór að lesa um ferlið. Upplýsingarnar voru svolítið misvísandi. Ég taldi að fólk með íslenskt vegabréf myndi fá stimpil á flugvellinum en svo kom í ljós að það er bara fyrir forgangshópa. Ég þurfti á endanum að senda bæði pappíra og vegabréfið mitt til Írlands vegna þess að sendiráð Nígeríu í Dublin sér um vegabréfsáritanir fyrir Íslendinga. Fyrst fannst mér það ekki geta staðist, og fannst óþægilegt að senda vegabréfið í pósti, enda er vegabréfið eitt það dýrmætasta sem maður á. Auk þess var þetta skömmu fyrir jól og þá var ég sem sagt vegabréfslaus í München. Ef mér tækist ekki að komast til Nígeríu þá var plan b að fara heim til Íslands um jólin. Ég gat alla vega ekki hugsað mér að vera ein í München á jólunum.

Heiða Björg og gestgjafinn Ben.
Heiða Björg og gestgjafinn Ben. Ljósmynd/úr einkasafni

Þetta tók óratíma og ég fékk aldrei skýr svör. Þá hafði ég samband við utanríkisráðuneytið og í framhaldinu var ræðismaður Nígeríu á Íslandi settur í málið. Þegar hann fór að spyrjast fyrir var málið afgreitt og ég fékk vegabréfið til baka með stimplinum. Þegar farið er til Nígeríu þarf að framvísa alls kyns upplýsingum eins og yfirlýsingu frá viðskiptabankanum um að maður geti framfleytt sér í landinu. Þetta var orðið mjög stressandi svona rétt fyrir jól og maður er búinn að bóka rándýrt flug sem maður vill helst ekki breyta. Þökk sé kórónuveirunni reyndist auðvelt að breyta fluginu. Ég ætlaði að koma til Nígeríu viku fyrir jól en skilaði mér á Þorláksmessu. Á aðfangadagskvöld hringdi ég í foreldrana og tjáði þeim að ég væri í Nígeríu. Þeim stóð ekki alveg á sama en fundu að ég var í góðum höndum.“

Börnin í Bíafra

Margir Íslendingar kannast við borgarastyrjöldina sem geisaði í Nígeríu á sjöunda áratugnum. Igbo-þjóðflokkurinn lýsti yfir sjálfstæði Bíafra í austurhluta landsins en eftir borgarastyrjöldina sjálfa lést um ein milljón manna vegna sjúkdóma og hungurs.
Þegar Ingólfur faðir Heiðu var að alast upp á Fáskrúðsfirði var honum sagt að hugsa til barnanna í Bíafra. Um fjórum áratugum síðar var dóttir hans stödd á þessu svæði, sem er ekki beinlínis ferðamannastaður.

„Hugsaðu nú til barnanna í Bíafra var það sem pabbi fékk að heyra við matarborðið þegar hann var lítill strákur ef hann var ekki sáttur við það sem var á boðstólum. Og hvar var ég nú lent? Jú, akkúrat á meðal Bíafrafólksins. Þeim fannst alveg magnað að heyra að á litla Íslandi á þessum tíma hefði fólk yfirhöfuð vitað hvar Bíafra var. Hvað þá að Íslendingar hefðu verið með hugann við hörmungarnar í Bíafra. Þá var borgarastyrjöld á þessu svæði en í dag er allt með mun friðsamlegra móti þótt vissulega kraumi enn mikið undir í samfélagi Igbo-ættbálksins sem varð illa úti í þeirri baráttu,“ segir Heiða og nefnir að leikar eigi til að æsast í kosningum.

Viðtalið við Heiðu í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Heiða Björg Ingólfsdóttir á fjarlægum slóðum og í bakgrunni brosir …
Heiða Björg Ingólfsdóttir á fjarlægum slóðum og í bakgrunni brosir krókódíll til ljósmyndarans. Ljósmynd/úr einkasafni
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert