Bannað að pissa í spænskan sjó

Allir þurfa að sýna sínar bestu hliðar á Spáni og …
Allir þurfa að sýna sínar bestu hliðar á Spáni og virða allar reglur. AFP

Ferðamenn geta verið af öllum toga og ljóst er að Spánverjar hafa kynnst þeim öllum enda er Spánn einn vinsælasti sumaráfangastaður heims. Þeir hafa því þurft að leita allra leiða til þess að hafa hemil á lýðnum og sett ýmsar reglur sem gott er að vita af. Daily Mail tók saman allar helstu reglurnar.

Ekki pissa í sjóinn

Nýjasta fréttin frá Spáni er sú að Galicia-hérað hefur bannað fólki að pissa í sjóinn og varðar það himinhárri sekt, verði ferðamenn uppvísir að slíku athæfi.

Ekki vera á brókinni í bænum

Margar strandborgir á Spáni leyfa fólki ekki að spóka sig um á sundfötunum úti á götu. Það er best að hafa eitthvað yfir sér ef maður er nýkominn af ströndinni.

Bannað að reykja á ströndinni

Á mörgum ströndum Spánar er óheimilt að reykja. Það þykir sóðalegt. Laumist einhver í sígó gæti sá hinn sami átt von á dágóðri sekt. Þeim ströndum, þar sem reykingar hafa verið bannaðar, fer ört fjölgandi.

Ekki taka frá pláss

Lengi vel hefur það tíðkast að fólk vakni snemma til þess að taka frá pláss á ströndinni. Skilji eftir handklæði og annað smálegt og láti sig svo hverfa aftur. Þetta er ekki vel liðið og hafa sumir bæir ákveðið að sekta þá sem þetta stunda og farga eigunum sem skildar eru eftir.

Ekki nota sjampó á ströndinni

Sumir nýta tímann og þvo sér rækilega í útisturtunum á ströndinni en gott er að hafa í huga að það er stranglega bannað að nota sjampó eða sápu þar. Það er vegna umhverfissjónarmiða. Það þykir ekki umhverfisvænt að leyfa sjampói að renna óhindrað út í náttúruna.

Bannað að sofa á ströndinni

Það er rómantískt að enda kvöldið á ströndinni og sofa þar alla nóttina en það er samt bannað. Allir eiga að fara til síns heima á kvöldin og sofa þar. 

Ekki vera nakinn

Margir ferðamenn halda víst að fyrst þeir eru í Evrópu, þá megi þeir vera allsberir á ströndinni. Svo er ekki. Það má bara vera nakinn á strönd, þar sem nekt er sérstaklega leyfð. 

Bannað að grilla á ströndinni

Það er vinsæl iðja ferðamanna að slá upp litlu ferðagrilli á baðströndum. Slíkt er hins vegar ekki leyft á mörgum svæðum eins og til dæmis Salobrena þar sem himinhá sekt liggur við slíku broti. Á öðrum ströndum þarf iðulega að útvega sér tilskilin leyfi.

Hámark sex drykkir á dag

Ibiza og Mallorca hafa ákveðið að setja sex drykkja hámark á hótelgesti sem eru í fullu fæði. Þrír í hádeginu og þrír með kvöldmatnum. Ef þú vilt meira þá þarftu að borga fyrir það. Þá hefur búðum á þessu svæði verið bannað að selja áfengi frá klukkan 21:30 til 08:00. Bretar eru í þessu samhengi sagðir ansi kræfir ferðamenn sem drekki linnulítið og partíglaðir með afbrigðum. Þeir í spænska ferðageiranum vilja gera allt til að sporna við þeirri ímynd að Spánn sé athvarf fyrir stanslausa drykkju og taumlaust partíhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert