Sækir hugarró í að klifra 1.000 metra háa veggi

Bjartur Týr Ólafsson fjallaleiðsögumaður.
Bjartur Týr Ólafsson fjallaleiðsögumaður.

Bjartur Týr Ólafsson er 28 ára gamall Vestmannaeyingur sem elskar að klifra og leika sér á fjöllum. Hann vinnur sem fjallaleiðsögumaður og ver nær öllum stundum á fjöllum fótgangandi, klifrandi eða á skíðum. Honum finnst hann ótrúlega heppinn að geta blandað saman atvinnunni og áhugamáli sínu.

„Klifur og fjallamennska er ótrúlega fjölbreytt íþrótt. Sumum finnst gaman að klifra innanhús á veggjum sem eru ekki hærri en þrír til fjórir metrar. Öðrum þykir gaman að klifra yfir þúsund metra háa veggi og taka sér nokkra daga til þess. Munurinn er ekki ósvipaður og á því að stunda spretthlaup eða maraþon,“ segir Bjartur.

Ísklifrið stendur honum næst

Hann flokkar sig sem alhliða klifrara en viðurkennir að hann, sem aðrir, eigi sínar sterku hliðar.

„Ég hef rosalega gaman af bæði ísklifri og klettaklifri en hugsa þó að ísklifrið standi mér nær. Ég er líklega einn af fáum sem fæ fiðring þegar ég sé hitatölurnar verða bláar á haustin. Ég veit fátt skemmtilegra en að klifra upp fossa í klakaböndum. Skemmtilegast í þessu öllu er samt að klifra langar leiðir upp á falleg fjöll, það er kallað alpínismi. Þar sameinast styrkur klifrarans, úthald langhlauparans og útsjónarsemi skákmannsins.

Markmiðið í þessari íþrótt er að klifra langar, erfiðar og fallegar leiðir. Um getur verið að ræða ísklifur, klettaklifur eða jafnvel hvort tveggja,“ segir Bjartur.

Hvernig kviknaði áhuginn á íþróttinni?

„Hann kviknaði á unga aldri í tengslum við úteyjarlífið og sprangið heima í Vestmannaeyjum. Ég var ekki nema tíu ára þegar pabbi fór með mig út í Suðurey í lundaveiði og þess háttar. Áhuginn fyrir útivist var til staðar. Á unglingsárunum fór ég að taka virkan þátt í björgunarsveitastarfinu í Eyjum.

Árið 2012 fórum við, nokkrir peyjar saman, og gengum á Mont Blanc. Sú ferð breytti lífi mínu. Ég fór strax að leita leiða til að vinna við fjallaleiðsögn og fór í kjölfarið að klifra af meiri krafti en áður,“ segir hann.

Vöktu athygli erlendis

Margar leiðir sitja eftir sem erfiðar leiðir að mati Bjarts.

„Ísklifursleiðir eins og Þráin inn við Háafoss og Glymur voru mjög erfiðar. Ætli sú erfiðasta sé ekki ferð okkar Rorys Harrisons upp austurvegg Skarðatinda, sem við fórum í mars 2020. Þetta var frumferð. Enginn hafði sem sagt gert þetta áður. Við vorum búnir að skoða hana í mörg ár. Austurvegurinn hafði ekki verið klifinn í nær áratug og ekki margir sem höfðu klifrað hann. Við vorum vongóðir um að geta fundið nýja leið þangað upp. Það tók okkur tvær tilraunir og mikið skipulag og þrautseigju. Í seinni atrennunni klifruðum við hraðar en áður og náðum loks að finna leið upp eftir hrímuðum klettum við fjallstindinn. Þetta tók okkur um 19 klukkustundir.

Það var skemmtilegt að þessi leiðangur vakti athygli út fyrir landsteinana. Bandaríski alpaklúbburinn, AAJ, skrifaði grein um þetta í sín rit. Við fengum líka Significant Ascent tilnefningu frá Piolets d'Or sem eru eins konar Óskarsverðlaun klifurheimsins, veitt ár hvert til þeirra sem klífa erfiðustu klifurleiðir í heiminum,“ segir Bjartur.

Klifrið gefur honum fyrst og fremst ró og ákveðna núvitund.

„Þegar ég hangi utan á klettavegg eða klakabrynjuðum fossi þarf ég ekki að hugsa um daglegt amstur. Þú ert í einskonar búbblu, þar sem ekkert skiptir máli nema þínar ákvarðanir og klifurfélagans. Ég sæki í þessa hugarró. Klifrið gefur mér líka ótrúlega fallegan og góðan vinskap viðþá sem ég stunda það með. Maður nær sérstakri tengingu við klifurfélaga sína sem mér þykir virkilega vænt um,“ segir Bjartur.

Reynir að halda sér frá hættulegum aðstæðum

Verður þú aldrei hræddur?

„Stundum verð ég það en ég reyni að komast hjá hættulegum aðstæðum sem gætu gert mig hræddan. Það sem heillar mig við klifrið, og þá sérstaklega ísklifrið, er að þetta er hugarleikur sem snýst um að halda sér rólegum. Ég lærði það snemma að ef ég er hræddur klifra ég verr, hjartslátturinn eykst, vöðvarnir spennast og ég eyði óþarfa orku í óttann,“ segir Bjartur.

Spurður um skemmtilegasta klifur á Íslandi segir hann Öræfin eiga sérstakan stað í hjarta sér.

„Að koma inn í Glymsgil, þegar allt er frosið þar, er alveg magnað. Skemmtilegust eru hrikaleg fjöllin í Öræfum, suðurveggurinn á Hrútsfjallstindum er alveg magnaður og vesturveggurinn á Hvannadalshnjúk. Fjöllin eru stór og jöklarnir tilkomumiklir. “

Stendur upp úr að klifra á Grænlandi

Hvað með skemmtilegasta klifur erlendis?

„Ég er farinn að tengjast Chamonix í Frakklandi mjög vel, enda er ég búinn að vera mikið þar. Bærinn er hálfgert „mekka“ klifurs í Ölpunum og hægt að klifra þar alla ævi án þess að verða þreyttur á því. Það sem stendur samt upp úr var að klifra í Grænlandi. Ég klifraði í Kulusuk fyrir nokkrum árum og var gjörsamlega heillaður af náttúrunni. Bergið er gott til klifurs og það var mikið ævintýri að koma þangað. Ég vona innilega að ég komist aftur þangað í framtíðinni,“ segir Bjartur.

Um þessar mundir er hann að læra að verða fjallaleiðsögumaður á alþjóðavísu.

„Ég er í námi sem heitir IFMGA sem er bæði stíft og yfirgripsmikið. Það snýst um að byggja upp færni nemenda í leiðsögn á fjöllum, hvort sem ferðast er fótgangandi, klifrað eða verið á skíðum. Ég fór að hugsa um þetta nám þegar ég fór fyrst til Alpanna sem unglingur og sá fjallaleiðsögumennina þar. Draumurinn kviknaði þá. Það var langt og strangt ferli að komast inn í námið. Það þarf að uppfylla forkröfur sem felast í því að klifra og skíða erfiðar leiðir um allan heim. Þetta var hrikalega skemmtilegt ferli sem lauk með því að ég komst inn og eyði mestum tíma mínum í námið. Ég mun verja öllum sumrum í Ölpunum í þessu námi og reyna svo að klifra eitthvað skemmtilegt í frítímanum. Það er ekki hægt að kvarta þegar heimanámið snýst um að klifra skemmtileg fjöll með vinum sínum,“ segir Bjartur.

Finnst alltaf gaman að koma heim

Það er auðheyrt á Bjarti að honum þykir mjög vænt um Vestmannaeyjar.

„Ekki síst Þjóðhátíð. Mér finnst alltaf gaman að koma heim. Sprangan víðfræga í Eyjum er staður sem ég lék mér á sem krakki, stundum upp á hvern einasta dag frá morgni til kvölds. Hékk í kaðlinum og klifraði í klettunum. Þjóðhátíðin er svo hápunktur Vestmannaeyja á hverju ári. Þar miðast dagatalið ekki við janúar til desember heldur fyrir og eftir Þjóðhátíð. Ég var svo heppin að fá að taka svolítinn þátt í setningarathöfninni á föstudeginum og halda þar einni elstu hefð Þjóðhátíðar á lofti, bjargsiginu. Fyrst var getið um bjargsigið árið 1911, svo það er ávallt mikill heiður að fá að sýna það fyrir fullan Herjólfsdal af fólki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert