Fer aldrei neitt nema með bikiní í töskunni

Ásdís Rósa Ásgeirsdóttir tekur bikiníið alltaf með.
Ásdís Rósa Ásgeirsdóttir tekur bikiníið alltaf með.

Ásdís Rósa Ásgeirsdóttir lögfræðingur starfar sem löggiltur fasteignasali. Hún elskar Vestmannaeyjar og ætlar sér að verja tíma þar í sumar. Hún ætlar einnig að skoða aðra landshluta ásamt því að fara erlendis. 

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég ætla að ferðast bæði innanlands og utan. Ég starfa einnig sem farastjóri og ég byrja sumarið á því að fara með útskriftarnema til Mexíkó í mikla ævintýraferð. Ég hef virkilega gaman að því að takast á við skemmtilegar áskoranir og upplifa eitthvað nýtt. Að því loknu mun ég ferðast um landið. Ég fer til Vestmannaeyja og mun fara til Akureyrar með viðkomu á skemmtilegum stöðum á leiðinni. Ég enda svo sumarið í Barcelona með góðum konum,“ segir Ásdís sem verður á faraldsfæti í sumar.

Hún nýtur sín í náttúrunni á sumrin.
Hún nýtur sín í náttúrunni á sumrin.

Ásdís segir Vestmannaeyjar vera sinn uppáhaldsstað yfir sumartímann. Þar þykir henni gott að vera enda er hún einstaklega dugleg að heimsækja eyjuna.

„Gleðin, sérstök birta og gott fólk er þar efst á lista. Þar býr lífsglatt fólk sem er alltaf til í hvað sem er. Eyjan hefur aðdráttarafl sem dregur til sín skemmtilegt fólk,“ segir Ásdís. 

Ásdís hefur einnig gaman að því að fara í útilegur en kýs þó frekar að gista í tjaldvagni heldur en hefðbundu útilegutjaldi. Henni finnst alltaf gaman í útilegum og á það til að þenja raddböndin vel og mikið á ferðalögum sínum.

„Ég syng mikið í útilegum. Þó svo að ég haldi kannski ekki alltaf lagi,“ segir Ásdís kímin. 

Hvað tekur þú alltaf með í ferðalagið?

„Ég tek alltaf með mér bikiní og nammi. Það er alveg sama hvert ég er að fara. Ég er alltaf tilbúin í hvað sem er. Ég skelli mér oft í sjósund svo bikiníið er mikið notað,“ segir Ásdís en sundfatnaðurinn er staðalbúnaður á ferðalögum hennar. 

Ásdís elskar að vera í bikiní alveg sama hvernig viðrar.
Ásdís elskar að vera í bikiní alveg sama hvernig viðrar.

Hvar er besta sundlaugin á landinu?

„Sundlaugin á Húsafelli. Það er sveitalaug sem er bara eitthvað svo notaleg,“ segir hún.

Hvað gerir aksturinn skemmtilegri?

„Þegar ég er með ferðafélaga með mér þá kjafta ég og borða nammi. Þegar ég keyri ein þá hlusta ég á hlaðvörp,“ segir Ásdís sem á vanalega ekki í vandræðum með að stytta sér stundir.

Líkt og áður hefur komið fram ber Ásdís sérstakar tilfinningar til Vestmannaeyja. Það kemur því ekki á óvart að uppáhaldsútihátíðin hennar er Þjóðhátíð í eyjum.

„Það er engin útihátíð sem jafnast á við Þjóðhátíð. Þeir sem halda að Þjóðhátíð sé bara fyrir unglinga eru á villigötum. Hvítu tjöldin eru best. Ég hlakka mikið til að fara á Þjóðhátíð í ár. Ég hef að vísu verið í eyjum síðustu tvær Verslunarmannahelgar þó formleg hátíðarhöld hafi ekki verið á dagskrá. Þá fundu allir sér eitthvað til dundurs í smærri hópum,“ segir Ásdís, full tilhlökkunar. 

Herjólfsdalur lýstur upp í flugeldasýningu.
Herjólfsdalur lýstur upp í flugeldasýningu. Ófeigur Lýðsson
mbl.is