Synd að við ferðumst ekki meira um Ísland

Arnar Aðalsteinsson er mikill fjórhjólamaður.
Arnar Aðalsteinsson er mikill fjórhjólamaður.

Arnar Aðalsteinsson fjórhjólaáhugamaður nýtur þess að ferðast um Suðurlandið á fjórhjóli með vinum sínum og fjölskyldu. Hann segir það allt öðruvísi upplifun en að ferðast um á bíl. 

Ef marka má Arnar Aðalsteinsson er magnað að ferðast um Ísland á fjórhjóli. Um þessar mundir er hann að undirbúa sumarleyfið sitt, en hann ætlar að keyra út á land með fjórhjólið sitt í eftirdragi.

„Fjórhjólið er í raun angi af almennri bíla- og tækjadellu sem ég er með. Við Guðmundur bróðir höfum farið saman í gegnum ýmsar tækjadellur í gegnum árin sem við fengum í arf frá pabba okkar. Þannig byrjaði ég í jeppamennsku á sínum tíma og svo á vélsleða og nú er ég á fullu í fjórhjólasportinu,“ segir Arnar.

Arnar var sextán ára að aldri þegar hann prófaði fjórhjól fyrst. Þá var árið 1987.

„Það var svo ekki fyrr en árið 2018 sem ég eignaðist mitt fyrsta hjól sem hefur verið brúkað talsvert mikið síðan. Konan mín er líka með sitt eigið hjól og við fjölskyldan hjólum svolítið saman.“

Þótt hann sé hrifinn af Suðurlandinu segir hann alla fjórðunga landsins heilla þegar fjórhjól eru annars vegar.

„Það er alls staðar gaman að ferðast um á fjórhjóli og í raun má skipta hjólamennskunni í tvenns konar keyrslu; sumar- og vetrarkeyrslu. Þannig er sumarkeyrsla meira útsýnisferð þar sem maður velur sér leið úr alfaraleið og nýtur umhverfisins. Í vetrarkeyrslunni reynir meira á ökuleikni og útbúnað hjólsins.

Fyrir okkur höfuðborgarbúa þarf ekki að fara langt til að njóta sín á fjórhjólinu því í kringum höfuðborgina eru margir slóðar sem leiða okkur á magnaða staði,“ segir Arnar og bendir á að þessar slóðir megi finna á kortum, á map.is eða jafnvel ja.is svo eitthvað sé nefnt.

Auðveldara að njóta náttúrunnar á fjórhjóli

Arnar er á því að við upplifum náttúruna á einstakan hátt á fjórhjóli.

„Við erum tengdari náttúrunni með veðrið beint í fangið. Þá upplifir maður svo sterkt hljóð og lykt náttúrunnar.

Svo er svo lítið mál að stoppa og koma sér út fyrir veg og slóða ef maður sér eitthvað spennandi sem þarf að skoða betur.

Þegar ökumaður ferðast um á bíl er hann oft búinn að mynda sér ferðaáætlun, sem hann telur sig þurfa að halda. Hann er upptekinn við að fylgjast með umferðinni í kringum sig og nýtur þá síður náttúrunnar,“ segir Arnar og bætir við að þegar hann ferðist með fólki í hópi sé reglulega stoppað og talað um allt milli himins og jarðar.

Það er ómögulegt að gera upp á milli landsvæða á Suðurlandi að hans mati.

„Því öll hafa þau sinn sjarma. Í vetrarkeyrslu er fátt skemmtilegra en að setjast upp á hjólið eftir vinnudag og skella sér á snævi þakta Hellisheiðina og reyna við þær aðstæður sem eru í boði hverju sinni þar, því þær eru svo síbreytilegar.

Svæðið norðan Þingvalla er mjög skemmtilegt, bæði í sumar- og vetrarkeyrslu. Hálendið austan Búrfellsins er endalaus paradís fyrir útivistarfólk, hvort sem það er gangandi eða á einhvers konar farartækjum. Þar er litadýrðin svo mögnuð og mismunandi eftir árstíðum. Á Reykjanesinu eru margar slóðir sem alltof fáir vita um og þar má finna marga fallega staði.“

Það er enginn sérfræðingur í fyrsta sinn

Arnar segir alla byrja sem leikmenn á fjórhjóli.

„Fjórhjól er hins vegar ökutæki sem þarf bílpróf á. Fjórhjólin kosta frá einni milljón upp í fjórar milljónir og fer það eftir aldri og útbúnaði þess.

Það fer enginn á fjórhjól nema í hlífðarfötum og með hjálm. Allt kostar þetta sitt svo það er líklega hamlandi þáttur í þessu sporti.“

Arnar er á því að mikilvægt sé að vera öruggur á ferðalagi.

„Það er auðvelt að finna sér skemmtilegar leiðir. Það er þó nauðsynlegt að kynna sér leiðina á korti og koma sér upp GPS-tæki, þótt það sé bara notað sem neyðartæki. Það eru allir orðið með GPS-tæki á sér með tilkomu snjallsíma og bara spurning um að ná sér í hentugt forrit. Það er alveg magnað hvað GSM-kerfið er orðið sterkt og það er sjaldan sem maður er utan þjónustusvæðis og GPS í símunum er óháð GSM-sambandi,“ segir hann.

„Á okkar síðu fá allir að njóta sín“

Nú sá ég að þú stýrir skemmtilegum hópi um fjórhjól á Facebook. Hvað getur þú sagt okkur um hann?

Fjórhjól í skemmtilegum aðstæðum á Íslandi er síða sem var stofnuð í nóvember árið 2020. Ég hef stýrt henni frá því í apríl á þessu ári.

Það sem heillaði mig við síðuna umfram aðrar er að hún er fordómalaus og fyrir alla áhugamenn um fjórhjól, óháð því hvað þeir keyra. Það eru til aðrar fjórhjólasíður sem eru merktar tegundum eftir framleiðendum fjórhjóla og þar eru menn rakkaðir niður ef þeir nefna aðrar tegundir innan síðunnar. Á okkar síðu fá allir að njóta sín til að segja frá ferðalögum í máli og myndum og fólk er duglegt að segja okkur frá ferðum sínum. Það er svo geggjað að fá að fylgjast með hvað fólk er að gera og veitir okkur innsýn í og fræðslu um skemmtilegar leiðir.

Við Bjartur, annar stofnandi síðunnar, og Gummi, bróðir minn, höfum í vetur boðið fólki að slást í för með okkur til að kynna fyrir því leiðir hér um höfuðborgarsvæðið og áhuginn hefur verið mikill. Mest fór fjöldinn í 30 hjól af öllum gerðum. Það sem stendur upp úr frá þessum ferðum er gleðin. Það eru allir svo glaðir eftir ferðirnar,“ segir hann.

Allur aldur á fjórhjólum

Arnar hefur kynnst mörgu flottu fólki í kringum fjórhjólasportið.

„Öll eigum við það sameiginlegt að vilja hjálpa hvert öðru.

Ég held að bíla- og tækjaáhugafólk sé fremst í flokki þeirra sem aðhyllast fjórhjólasportið og alls ekki allir sem prófa sem enda á því að falla fyrir því.

Ekki frekar en allir sem hafi einhvern tímann sparkað í fótbolta, elski fótbolta. Karlmenn eru í miklum meirihluta í þessu sporti en það eru nokkrar mjög öflugar konur í þessu líka.

Hafi fólk áhuga á að prófa fjórhjól eru víða um landið fjórhjólaleigur og óvitlaust að byrja á að leigja sér hjól til að athuga hvort þetta eigi við mann, áður en lengra er haldið.“

Enginn ákveðinn aldur virðist henta best til að prófa fjórhjólasportið, utan þess að fólk þarf að hafa náð bílprófsaldri.

„Besti aldurinn er núna!

Aldursbilið í þessu sporti spannar frá 17 til 84 ára. Í mörgum hjólaferðum, sem ég hef verið í, hefur fólk verið frá 25 ára til 72 ára. Auðvitað eru menn svo misöflugir og velja sér ferðir að sínum smekk og getustigi.“

Synd að við ferðumst fremur til útlanda en innanlands

Það sem heillar við Suðurlandið, að mati Arnars, er hversu margbrotið landsvæðið er.

„Má þar nefna Háafoss og Hjálparfoss við Búrfell.

Fjallabak syðra er magnaður staður að fara um, Dómadalur að Landmannalaugum er fullur af litadýrð, að Þórsmörk ógleymdri, með allan sinn skóg og magnaða umhverfi.

Ísland er svo heillandi staður. Mér finnst þó svolítið sorglegt að við Íslendingar upplifum landsgæðin okkar í gegnum upplifun útlendinga á landi og þjóð.

Það virðist sem við séum oftar en ekki tilbúnari í að ferðast um í útlöndum fremur en í okkar eigin landi.

Öll landsvæði hafa sinn sjarma og á þeim öllum er fjöldi slóða sem hægt er að fara um og njóta,“ segir Arnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »