Gaman að kíkja í Reykjadalinn og dýfa sér í heita lækinn

Valgarð Sörensen og Brynjólfur J. Baldursson, stofnendur Gróðurhússins í Hveragerði.
Valgarð Sörensen og Brynjólfur J. Baldursson, stofnendur Gróðurhússins í Hveragerði. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Það halda margir með þeim Brynjólfi Baldurssyni og Valgarði Sörensen sem opnuðu núverið Gróðurhúsið í Hveragerði. Það er ekki skrítið því þeir eru skemmtilegir menn með hjartað á réttum stað. 

Það er gaman að tala við Brynjólf Baldursson og Valgarð Sörensen, stofnendur Gróðurhússins, um áhugaverða staði í Hveragerði. Gróðurhúsið er einmitt nýr áfangastaður fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn sem var opnaður í desember í fyrra og virðist ekkert lát á vinsældum hans.

„Við leggjum mikla áherslu á upplifun og vildum bjóða upp á fjölbreytt úrval fyrir gesti okkar. Því er í byggingunni að finna hótel, verslanir, mathöll, kaffihús, bar og ísbúð,“ segja þeir og bæta við að útivist sé þeim einnig mikilvæg.

„Við viljum kynna gestum okkar útivist og afþreyingu en það er gríðarlega mikið hægt að gera á svæðinu. Í Bakgarðinum höfum við hinn fallega Reykjadal en mjög vinsælt er að fara í gönguferð upp dalinn og baða sig í heita læknum. Við höfum einnig verið að vinna í frekari stígagerð á svæðinu fyrir göngu- og hjólafólk og tengja við Hengilinn sem opnar frekari útivistarleiðir. Á svæðinu er einnig hægt að fara á hestbak, að veiða og spila golf. Í nágrenni Hveragerðis er síðan einnig fullt af skemmtilegri afþreyingu svo sem fjórhjól, kajak, hellaskoðun og svo mætti lengi áfram telja,“ segja þeir.

Í Gróðurhúsinu í Hveragerði má finna hótel, veslanir, mathöll, kaffihús …
Í Gróðurhúsinu í Hveragerði má finna hótel, veslanir, mathöll, kaffihús og ísbúð. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Það sem er áhugavert við rekstur þeirra Brynjólfs og Valgarðs er áhersla þeirra á sjálfbærni.

„Við erum í svokölluðu BREEAM-vottunarferli með bygginguna. Einnig nálgumst við rekstrarhliðina á sama hátt og notum nýjar nálganir eins og sem dæmi að sleppa plastlyklum á hótelinu en gefum gestum tölukóða til að komast inn í herbergin og fleira þeim dúr.“

Stundum er nóg að komast aðeins í burtu frá heimilinu …
Stundum er nóg að komast aðeins í burtu frá heimilinu til að ná djúpri slökun. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Báðir með góða reynslu úr fyrri störfum

Hvernig getið þið hvatt gesti ykkar í útivist um svæðið?

„Við nýtum Reykjadalinn mikið. Við rætur dalsins rekum við Skálann sem er kaffihús, þjónustmiðstöð og verslun en þar er mjög vinsælt fyrir gesti að koma við fyrir eða eftir sína útivist og slaka á í fallegu umhverfi. Við erum síðan að vinna að frekari uppbyggingu á svæðinu og er áætlað að opna nýja og spennandi afþreyingu síðsumars sem kallast Mega Zipline Iceland. Um er að ræða tvær sviflínur sem eru í kringum einn km að lengd og liggja frá toppi Kambanna og alla leið niður að kaffihúsinu okkar. Margt annað er einnig í pípunum sem gaman verður að segja frá fljótlega,“ segja þeir.

Hálfdán Pedersen hannaði hótelið og þykir hönnun hans smart en …
Hálfdán Pedersen hannaði hótelið og þykir hönnun hans smart en ekki síður þægileg. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Eigið þið sjálfir tengingu við Hveragerði persónulega?

„Ég held að margir Íslendingar eigi sterka tengingu við Hveragerði í gegnum góðar minningar yfir árin. Ég á ekki beina fjölskyldutengingu þangað en ólst upp við sunnudagsbíltúra í Hveragerði og heimsókn í Eden eins og svo margir. Ég man einnig að amma mín heitin, Guðrún V. Gísladóttir, var mjög hrifin af bænum en hún dvaldi oft á Heilsuhælinu og hélt málverkasýningar í Eden. Ég hef því sterkar taugar til bæjarins,“ segir Brynjólfur og Valgarð tekur við:

„Ég er reyndar uppalinn í næsta nágrenni á Selfossi en eiginkona mín er uppalin í Hveragerði. Ég tek undir með Brynjólfi að maður hefur sterkar taugar til bæjarins og á ég margar góðar minningar bæði frá Eden og einnig úr ferðum í tívolíið sem var mikil upplifun. Afi minn heitinn, Leo Árnason, sem oft var nefndur Ljón norðursins, bjó um tíma í Hveragerði og svo fæddist móðir mín í bænum.“

Brynjólfur starfaði áður í fjármálageiranum en hefur í gegnum árin verið að færa sig meira yfir í fasteignaþróun og uppbyggingarverkefni. Hann segir skemmtilegt að vera kominn á fullt í ferðaþjónustuna. Valgarð starfaði síðustu ár í veitingageiranum og hefur sett upp og rekið fjölda veitingastaða.

Það er ákveðin fegurð inn á hótelinu þar sem gamlir …
Það er ákveðin fegurð inn á hótelinu þar sem gamlir hlutir fá nýtt líf í bland við náttúrulega liti og blóm svo eitthvað sé nefnt. mbl.is/Gróðurhúsið

„Síðasta verkefnið fyrir Gróðurhúsið var uppbygging á Hamborgarabúllunni í London sem var mjög skemmtilegt en ég tek undir með Brynjólfi að ferðaþjónustan er lifandi og skemmtileg.

Það má segja að okkar reynsla blandist ágætlega saman í þessu verkefni okkar í dag,“ segir Valgarð.

Hægt er að panta fjölskylduherbergi þar sem allt að fjórir …
Hægt er að panta fjölskylduherbergi þar sem allt að fjórir geta deilt herbergi. Vinsælt er að fjölskyldur mæta, hjón með tvö börn. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Allir ættu að finna eitthvað fyrir sinn smekk í Mathöllinni

Hvernig er að vera í Gróðurhúsinu?

„Það er upplifun. Við leggjum áherslu á hönnun og þægilegt andrúmsloft, þar sem gestir geta notið sín,“ segja þeir og það má heyra á öllu að fjölbreytni skiptir þá miklu máli.

„Í Mathöllinni okkar er hægt að velja um fimm veitingastaði:

Yuzu býður upp á geggjaða borgara. Hipstur leggur áherslu á mat sem innblásinn er víða að úr heiminum.

Þeir sem gista í Gróðurhúsinu eyða stórum hluta dagsins í …
Þeir sem gista í Gróðurhúsinu eyða stórum hluta dagsins í opnu rými hótelsins þar sem aðstaðan er góð. Ljósmynd/Gróðurhúsið

PFC (Pünk Fried Chicken) leggur áherslu á ljúffenga kjúklingarétti.

Tacovagninn býður upp á alvöru tacoveislu. Wok On sérhæfir sig í asískri matargerð.

Einnig er í Gróðurhúsinu frábært kaffihús sem býður upp á girnilegan morgunverð, léttar veitingar og gott kaffi. Þar er líka að finna ísbúðina Bongo sem leggur áherslu á skemmtilega og notalega ísupplifun. Síðast en ekki síst ber að nefna Nýlendubarinn en þar geta gestir notið sín í suðrænni stemningu og skálað í svalandi drykk undir pálmatré. Barinn nær einnig til setustofu annarrar hæðar og þaksvala með útsýni til suðurs að sjálfsögðu,“ segja þeir.

Á Nýlendubarnum má gæða sér að drykk undir pálmatrjám. Þar …
Á Nýlendubarnum má gæða sér að drykk undir pálmatrjám. Þar má gjarnan finna lifandi tónlist og gómsætur Hemingway Daiquiri. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Hvað þykir ykkur vænst um í uppbyggingu fyrirtækisins?

„Í raun að hafa náð að klára þetta heildræna „concept“ eins og við sáum það fyrir okkur í upphafi með öllu því frábæra fólki sem hefur komið að verkefninu. Það er síðan einstaklega ánægjulegt að fá þessi góðu viðbrögð frá gestum okkar sem gefur okkur mikla hvatningu til að halda áfram.“

Kaffihúsið býður upp á góðgæti á borð við samlokur, te …
Kaffihúsið býður upp á góðgæti á borð við samlokur, te og kaffi. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Ef þeir dveldu tvo heila daga í Gróðurhúsinu þá myndu þeir skipuleggja tíma sinn með áherslu á útivist.

„Við elskum Reykjadalinn, þannig að fyrri daginn myndum við örugglega reyna að kíkja í göngutúr upp að heita læknum. Það væri síðan pottþétt farið í rafhjólatúr um Hveragerði og jafnvel hjólað til Selfoss og kíkt á miðbæinn. Um kvöldið væri ekki leiðinlegt að ná að spila 9 holur á golfvellinum. Daginn eftir væri gaman að taka daginn snemma og fara í fjórhjólaferð á svörtu fjörunni í Þorlákshöfn og kíkja svo á Raufarhólshelli sem er í næsta nágrenni. Það væri síðan gaman að enda á Stokkseyri í kajakferð sem við erum báðir búnir að vera á leiðinni að prófa lengi,“ segja þeir og það má greinilega heyra á orðfæri þeirra að Suðurlandið er í miklu uppáhaldi.

Þeir sem vilja versla á sig fallegan fatnað geta komið …
Þeir sem vilja versla á sig fallegan fatnað geta komið við í verslununum þeim sem finna má í Gróðurhúsinu. Þar er Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar, Epal, Me og Mu, Verslun Gróðurhússins og Álafoss svo eitthvað sé nefnt. Ljósmynd/Gróðurhúsið

„Við elskum að ferðast um Suðurlandið með fjölskyldum okkar. Það er alltaf gaman að heimsækja helstu náttúruperlurnar en svo er maður líka alltaf að uppgötva nýja staði. Við erum auðvitað líka mjög hrifnir af öðrum svæðum á landinu en þar sem við erum búsettir á höfuðborgarsvæðinu er frekar auðvelt að fara í stutta túra á Suðurlandinu og finna eitthvað skemmtilegt að gera.“

Er gaman að fara í sund eða náttúrulaugar í nágrenni við staðinn?

„Já heldur betur. Sundlaugin Laugaskarði er frábær sundlaug norðan Varmár í fallegri náttúru. Laugin er svokölluð gegnumrennslislaug og hituð upp með jarðgufu. Það er síðan einnig mjög gaman að kíkja í Reykjadalinn og dýfa sér í heita lækinn sem er alveg einstök upplifun,“ segja þeir.

Forvitnilegar vörur eru seldar í Gróðurhúsinu.
Forvitnilegar vörur eru seldar í Gróðurhúsinu. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Skemmtilegasta ferðalagið að koma Gróðurhúsinu á koppinn

Báðir eru þeir Brynjólfur og Valgarð alltaf flottir til fara og ná að besta þá blöndu að klæðast fallegum fatnaði úr vönduðum efnum í náttúrulegum litum.

„Við erum auðvitað með frábærar verslanir í Gróðurhúsinu en þar eru gamalgróin vörumerki eins og Epal, Kormákur og Skjöldur og Álafoss ásamt skemmtilegri sælkeraverslun sem heitir Me&Mu þar sem áherslan er á smáframleiðendur og vörur beint úr héraði. Síðan er verslunarflóran, bæði í Hveragerði og í miðbæ Selfoss, alltaf að breikka,“ segja þeir.

Þeir mæla með því fyrir alla sem vilja fara í dagsferð að heimsækja þá úr Reykjavík að hefja daginn snemma.

„Það er flott að byrja hjá okkur í hádeginu í Mathöllinni og fá sér eitthvað gott að borða. Svo væri hægt að kíkja í smá göngutúr um bæinn og jafnvel upp í Skálann okkar í Reykjadal. Ég mæli svo alltaf með stoppi í einni af flottu garðyrkjustöðvunum í bænum. Það væri síðan hægt að enda aftur í Gróðurhúsinu í smá slökun og fá sér ís og einn rjúkandi kaffibolla áður en haldið er heim,“ segir Brynjólfur.

Fallegur fatnaður og smart fylgihlutir fást í Gróðurhúsinu.
Fallegur fatnaður og smart fylgihlutir fást í Gróðurhúsinu. Ljósmynd/Gróðurhúsið

Íslendingar hafa verið duglegir að sækja Gróðurhúsið heim og hefur hótelið verið fullt hverja einustu helgi.

„Hótelið hefur verið mjög vinsælt hjá vinahópum sem sækja í upplifun í mat og drykk og vilja skemmtilega afþreyingu og útivist. Einnig fáum við mörg pörum sem vilja gera sér glaðan dag svo og fjölskyldur í leit að skemmtilegri samveru. Síðustu vikur finnum við síðan fyrir mikilli fjölgun erlendra ferðamanna, sem er skemmtileg blanda með Íslendingunum,“ segja þeir.

Skemmtilegasta ferðalagið sem báðir hafa farið í er án efa að koma Gróðurhúsinu á koppinn. Það er nokkuð sem gestir og gangandi upplifa á eigin skinni í heimsókn á staðinn.

Litirnir inn á staðnum eru mjúkir og andrúmsloftið afslappað.
Litirnir inn á staðnum eru mjúkir og andrúmsloftið afslappað. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Hver einasti hlutur inn á hótelinu er valinn af kostgæfni.
Hver einasti hlutur inn á hótelinu er valinn af kostgæfni. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Tréverkið er fallega unnið og litirnir náttúrulegir.
Tréverkið er fallega unnið og litirnir náttúrulegir. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Listaverkin inn á hótelinu eru frá hinum ýmsu tímabilum.
Listaverkin inn á hótelinu eru frá hinum ýmsu tímabilum. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Valgarð og Brynjólfur eru reynslumiklir, hvor á sínu sviði. Þeir …
Valgarð og Brynjólfur eru reynslumiklir, hvor á sínu sviði. Þeir þykja gott teymi og miklir hugsjónamenn þegar kemur að nýsköpun í ferðamálum. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Þessi mynd var tekin að næturlagi í Gróðurhúsinu á meðan …
Þessi mynd var tekin að næturlagi í Gróðurhúsinu á meðan það var dimmt úti. Nú horfir aðeins öðruvísi við en er einstaklega fallegt líka. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Það er eitthvað við neon-liti á barnum og fersk blóm …
Það er eitthvað við neon-liti á barnum og fersk blóm sem heillar. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Gróðurhúsið er búið til í náttúrulegum litum og þannig að …
Gróðurhúsið er búið til í náttúrulegum litum og þannig að húsið fellur fallega inn í umhverfið. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Pör eru dugleg að heimsæka staðinn.
Pör eru dugleg að heimsæka staðinn. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Í Bakgarðinum má finna hinn fallega Reykjadal. Það er mjög …
Í Bakgarðinum má finna hinn fallega Reykjadal. Það er mjög vinsælt að fara í gönguferð upp dalinn og baða sig í heita læknum. Ljósmynd/Gróðurhúsið
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »