Bjórinn margfalt ódýrari á Tenerife

Sólað sig á Tenerife á Spáni.
Sólað sig á Tenerife á Spáni. AFP

Íslendingar hafa tekið ástfóstri við eyjunni Tenerife og flykkjast þangað sem aldrei fyrr. Mikill verðmunur er á ýmsum vörum þar og hér heima. Vefurinn tenerife.is bar saman verðlag á Tenerife og Íslandi.

Vel er hægt að lifa góðu lífi á Tenerife sé maður á launaskrá á Íslandi, en meðaltekjur eru tvöfalt hærri á Íslandi en á Tenerife. 

Mánaðarleiga á þriggja herbergja íbúð sem er staðsett miðsvæðis er 162.530 krónur á Tenerife en 298.214 krónur á Íslandi. Leiksskólagjöld eru hins vegar um sjö þúsund krónum hærri á Tenerife en hér heima. 

Matarkarfan er töluvert ódýrari á Tenerife en þar má nefna að 500 gramma brauð kostar um 300 krónum meira hér heima. Eitt kíló af kjúklingabringum er á 759 krónur á Tenerife en 2.319 krónur á Íslandi. Epli eru talsvert ódýrari á Tenerife en þar munar 170 krónur. Vínflaska af meðalvíni kostar 662 krónur á Tenerife en 2.800 krónur hér heima. 

Það er ódýrara að fara út að borða á sólareyjunni en þar kostar máltíð á ódýrum veitingastað 1.323 krónur en á sambærilegum stað á Íslandi myndi sú máltíð kosta 2.500 krónur. Kranabjórinn á veitingastað er á 279 krónur á Tenerife en a Íslandi kostar hann 1.200 krónur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert