Hótel Rangá valið besta hótel Íslands

Hótel Rangá er besta hótelið á Íslandi að mati Travel+Leisure.
Hótel Rangá er besta hótelið á Íslandi að mati Travel+Leisure. Ljósmynd/Hótel Rangá

Hótel Rangá er besta hótelið á Íslandi að mati bandaríska ferðatímaritsins Travel + Leisure. Blue Lagoon Retreat er í öðru sæti en Fosshótel við Jökulsárlón er í því þriðja.

Travel + Leisure er eitt virtasta ferðatímarit heims og yfir 9,2 milljónir lesa vef þeirra í hverjum mánuði. 

„Það er mikil viðurkenning að hljóta þessi verðlaun. Sérstaklega vegna þess að það eru lesendurnir sem kjósa bestu hótelin,“ segir Friðrik Pálsson eigandi Hótels Rangár. „Við leggjum áherslu á góða og persónulega þjónustu. Það tel ég að sé að skila sér.“

Lesendur hældu hótelinu fyrir að vera mjög vel staðsett til að njóta norðurljósanna og stjörnuskoðunar í sérhönnuðu stjörnuskoðunarhúsi hótelsins. Þá voru þeir einnig hrifnir af umhverfisstefnu hótelsins, en á hótelinu er rík áhersla lögð á að leita umhverfisvænna lausna og hafa frumkvæði að grænum úrbótum í ferðaþjónustu.

Þetta sýnir sig í nýjasta framtaki hótelsins, en Hótel Rangá er eitt af fjórum stærstu styrktaraðilum fyrstu rafmagnsflugvélar Íslands sem síðustu helgi tók á loft við Hellu.

„Með innflutningi flugvélarinnar stígum við mikilvægt skref í orkuskiptum í flugi með það að markmiði að kynna þessa byltingu fyrir landsmönnum,“ segir Friðrik Pálsson, eigandi Hótels Rangár. 

Ljósmynd/Hótel Rangá
Hótel Rangá er einn af fjórum stærstu styrktaraðilum fyrstu rafmagnsflugvélar …
Hótel Rangá er einn af fjórum stærstu styrktaraðilum fyrstu rafmagnsflugvélar Íslands. Ljósmynd/Hótel Rangá
mbl.is