Mörgum þykir kannski það skjóta skökku við að fara alla leið frá Íslandi til Kaliforníu í Bandaríkjunum til að upplifa danska menningu. Það er samt sem áður mjög vel hægt í danska bænum Sólvangi sem finna má í Santa Ynez dalnum í suðurhluta Kaliforníu.
Í bænum búa um sex þúsund manns og er þar hægt að fá danska upplifun beint í æð. Í bænum eru hús í skandinavískum stíl, dönsk bakarí og allt hvað eina. Í hjarta bæjarins er svo danska torgið.
Í bænum er líka að finna styttu af litlu hafmeyjunni, vindmyllur og fjölda safna, og þar á meðal eitt um H.C. Andersen.
Margir velta kannski fyrir sér af hverju það sé danskur bær í Kaliforníu. Sólvangur hefur ekki alltaf verið danskur bær. Upprunalega bjuggu menn af frumbyggjaættum Norður-Ameríku í Santa Ynez dalnum. Þeir voru hraktir í burt af spænskum trúboðum sem byggðu svo upp bæinn sem í dag kallast Sólvangur.
Á milli 1850 til 1930 voru miklir fólksflutningar frá Danmörku. Flestir sem fluttu frá Danmörku fluttu sig yfir til Bandaríkjanna og settust að í Utah, Wisconsin, Illinois, Minnesota, Iowa, Nebraska og Suður Dakota. Seinna meir fluttu þessir sömu innflytjendur og afkomendur þeirra í sólina í Kaliforníu.
Framtakið átti danski kennarinn og presturinn Benedict Nordentoft, Jens M. Gregersen og Peder P. Hornsyld. Þeir sáu fyrir sér að stofna danska nýlendu við vesturströnd Bandaríkjanna og stofna þar lúterska kirkju og skóla. Þeir stofnuðu Danska-Ameríska nýlendufélagið í San Francisco árið 1910 og keyptu landskika í Santa Ynez dalnum þar sem sveitarfélagið Sólvangur var stofnað.