„Hver árstíð hefur sinn sjarma“

Leiðsögukonan, Perla Magnúsdóttir, hefur alla tíð haft ástríðu fyrir útivist og ferðalögum. Fyrir rúmu ári síðan lét hún gamlan draum rætast og stofnaði sitt eigið leiðsögufyrirtæki, NáttúruPerla ehf. Í fyrstu þótti það áhættusamt í hennar huga að róa á ný mið en það átti eftir að verða henni mikið gæfuspor.

„Ég er búin að vera með árstríðu fyrir landinu okkar í 15 ár og ég er samt ekki búin að sjá allt og gera allt. Mér finnst það svo gaman að fá þá tilfinningu bara; Vá! Það er svo margt spennandi í boði,“ segir Perla sem var gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum. 

„Ísland er þannig land að þú getur alltaf fundið eitthvað nýtt. Það er alveg magnað,“ segir Perla. 

Haustin frábær tími til að ferðast

Perla hef­ur ekki setið auðum hönd­um frá því hún setti Nátt­úruPerlu á lagg­irn­ar og hef­ur hún séð um ráðgjöf, fararstjórn og leiðsögn fyrir alls konar skemmtilega hópa, stóra sem smáa, og haft ómælda ánægju af.

„Það kemur alltaf eitthvað nýtt og ferskt með hverri árstíð. Það er svolítið okkar að opna augun fyrir því og leyfa okkur að njóta þess svolítið,“ segir Perla og mælir eindregið með ferðalögum og gönguferðum í september. 

„Haustlitirnir eru að detta í gang um miðjan september og alveg fram í lok október, að fara í haustlitaferð er bara yndislegt.“

Perla segir vel hægt að ferðast um Ísland allt árið um kring. Ferðirnar þurfi ekki að vera með flóknu sniði heldur sé lykilatriðið að njóta hverrar árstíðar, líka þegar sumrinu lýkur.

„Maður verður svolítið að leyfa sér að muna að hver árstíð hefur sinn sjarma,“ segir Perla með áherslu.

Viðtalið við Perlu Magnúsdóttur í Dagmálsþætti dagsins má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert