Starfsfólk Herjólfs komið í gírinn

Það verður rífandi stemning um borð í Herjólfi næstu daga.
Það verður rífandi stemning um borð í Herjólfi næstu daga. Samsett mynd

Alma Ingólfsdóttir verkefnastjóri hjá Herjólfi segir mikla gleði ríkja hjá starfsfólkinu fyrir þessa annasömustu helgi ársins um borð. Í kringum verslunarmannahelgina flytur Herjólfur mörg þúsund hressa Þjóðhátíðargesti til Vestmannaeyja.

„Það er búið að vera mikið að gera hjá starfsfólki Herjólfs að græja fyrir helgina. Sala í allar ferðir er góð og búist við miklum fjölda næstu daga. Fleiri ferðir verða á föstudaginn en báturinn fer í flestar ferðir á mánudeginum til að koma fólki heim, þá fer fyrsta ferð klukkan tvö um nóttina,“ segir Alma. 

Stafsfólk Herjólfs sem vinnur um borð hefur verið í undirbúningi og útbúið sér sérstakan fatnað í tilefni af Þjóðhátíð. Þar að auki eru þrír starfsmenn í hljómsveitinni MEMM, sem spilar á Tjarnarsviðinu um helgina. 

Þóra Sif Kristinsdóttir vinnur í Herjólfi og er mikil stemningskona. „Berglind Kristjánsdóttir á allt til að merkja og er búin að vera græja þetta á fullu. Ég hef ekkert fengið að hjálpa henni. Það er allskonar skemmtilegt á bolunum. Þjóðhátíðarlög fá svo að óma um allt skip og gömul þjóðhátíðarmyndbönd verða á einhverjum sjónvörpum,“ segir Þóra Sif.

Starfsfólkið er spennt að taka á móti ykkur öllum og hlakka til helgarinnar. Það mætti segja að til hlökkunin fyrir Þjóðhátíð hafi aldrei verið meiri en hátíðin hefur ekki verið haldin síðan 2019 og því mikil uppsöfnuð spenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert