Travolta kom á einkaþotu til Íslands

John Travolta í einkaþotu sem lenti skömmu síðar á Íslandi.
John Travolta í einkaþotu sem lenti skömmu síðar á Íslandi. skjáskot/Instagram

Bandaríski leikarinn John Travolta og fjölskylda hans virðast vera meðal þeirra sem komu hingað til lands á einkaþotu í sumar ef marka má myndband sem Travolta setti á Instagram í gær.

„Sumarfrí með fjölskyldu og vinum, með smá vinnu líka,“ skrifar Travolta við myndbandið. Í myndbandinu má sjá hópinn fara saman í einkaþotu. Fyrsta stopp er Ísland þar sem sjá má Bláa lóninu bregða fyrir auk nokkurra stuttra myndbandsbrota frá Íslandi. 

Næsta stopp virðist vera Grikkland og því næst Dúbaí en Travolta birti mörg myndbrot innan úr einkaþotunni sinni. 

Mikill fjöldi einkaþota hefur lent á Reykjavíkurflugvelli í sumar. Þannig sagði Guðmundur Þengill Vilhelmsson í samtali við Morgunblaðið fyrr í júlí að um 200 einkaþotur lentu á flugvellinum í hverjum mánuði, sem gerir um sjö vélar á dag. 

Hvort Travolta hafi lent á Reykjavíkurflugvelli eða á Keflavíkurflugvelli kemur þó ekki fram í myndbandinu. 

mbl.is