Hrifnust af löngum gönguferðum

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands er hrifnust af …
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands er hrifnust af löngum göngum um Ísland.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, elskar að ferðast um óbyggðir Íslands á tveimur jafnfljótum. Henni finnst best þegar öll fjölskyldan kemst með í ferðina og eru þau eiginmaður hennar dugleg að taka syni sína með í göngur.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af ?

„Ég er lang hrifnust af gönguferðum um óbyggðir Íslands t.d. um Fjallabak, Hornstrandir og norðanvert Hálendið t.d. Drengirnir okkar tveir hafa komið með í þessar ferðir og mér finnst mikil forréttindi að ganga um landið með börnunum mínum.

Ég naut svo þeirra forréttinda að fara í 5 daga skútusiglingu með Kvennasiglingunni 2021 frá Ísafirði til Akureyrar um Hornstrandir í fyrrasumar, og verð að viðurkenna að ferðalög á seglskútu heilla mig líka.“

Elín og sonur hennar Snorri á toppi Hvannadalshnjúks á hvítasunnudag …
Elín og sonur hennar Snorri á toppi Hvannadalshnjúks á hvítasunnudag 2021. Þarna er Snorri 15 og hálfs árs gamall.


Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?

„Þau eru mörg, en löngu göngurnar með fjölskyldunni minni standa óneitanlega upp úr, við komust ekki í slíka í ár þar sem einn er að jafna sig á alvarlegu fótbroti, en Hornstrandir í fyrra og Lónsöræfi árið áður eru ferðir sem ég rifja reglulega upp.“

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Við fjölskyldan eyddum næstum tveimur vikum í Lissabon nú í sumar og vorum mjög hrifin, en Ljubljana í Slóveníu ogLubeck í Þýskalandi koma fast á hæla hennar.“

Hornbjarg séð frá skútunni Esju í Kvennasiglingunni 2021.
Hornbjarg séð frá skútunni Esju í Kvennasiglingunni 2021.

Besti maturinn sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Ég rambaði inn á perúvískan veitingastað í London nýlega og allt sem ég fékk þar var betra en flest annað sem ég hef smakkað.“

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi?

„Ekki þannig að ég hafi verið í bráðri lífshættu en við mæðgin gengum á Hvannadalshnjúk í fyrravor og á leiðinni niður gerði mikinn skafrenning og hvassviðri. Við vorum í feikilega öruggum höndum leiðsögumanna Ferðafélags íslands og ég efaðist aldrei um að við kæmumst niður úr skafrenningnum, en ef við hefðum verið ein á báti hefðum við sennilega verið í talsverðum vandræðum.“

Elín við Grænahrygg.
Elín við Grænahrygg.


Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Landmannalaugar og Garðskagi“

Hefur þú náð að ferðast mikið í sumar?

„Já, við fjölskyldan fórum í langa ferð um Portúgal með stuttri viðkomu á Spáni, en innanlands höfum við lítið ferðast enn sem komið er.“

Á Löngufjörum á Snæfellsnesi.
Á Löngufjörum á Snæfellsnesi.


Eru einhver ferðalög á dagskrá hjá þér?

„Ekki að svo stöddu en ég vonast til að komast að minnsta kosti eina ferð í Landmannalaugar og helst í Þórsmörk líka áður en sumarið er liðið.“

Að lokum, hvernig veður er besta ferðaveðrið að þínu mati?

„Besta ferðaveðrið er að mínu mati milt og lygnt, það má gjarnan vera þurrt líka, en ég kvarta ekki þó það komi léttar skúrir með góðum uppstyttum.“

Á Hornströndum. Horft upp eftir Kálfatindum.
Á Hornströndum. Horft upp eftir Kálfatindum.
Úr göngu í Kerlingafjöllum síðasta sumar.
Úr göngu í Kerlingafjöllum síðasta sumar.
Við ónefndan foss í Jökulsá í Lóni.
Við ónefndan foss í Jökulsá í Lóni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert