Listin að ferðast með lítinn farangur

Ef á að ferðast létt skiptir miklu máli velja rétta …
Ef á að ferðast létt skiptir miklu máli velja rétta fatnaðinn og töskurnar. Samsett mynd

Nú berast fréttir af ófremdarástandi á flugvöllum víða um heim og virðist innritaður farangur skila sér seint og illa í hendur farþega. Hefur aldrei verið brýnna að læra þá list að ferðast einvörðungu með handfarangur og skemmir ekki fyrir að það er afskaplega þægilegt að hafa ekki þunga tösku í eftirdragi á ferðalagi erlendis. Að láta handfarangurinn duga þýðir líka að ekki þarf að borga fyrir að innrita stóra tösku. Hægt er að strunsa beint út af flugvellinum eftir lendingu og enginn vandi að nota lest eða strætó til að komast á áfangastað. Í lok ferðarinnar þarf heldur ekki að geyma töskur á hótelinu til að sækja seinna um daginn, heldur er hægt að halda beint af stað með allt meðferðis og nýta tímann til fullnustu til að lifa og njóta.

Hverju má sleppa?

Að ferðast létt er í senn einfalt og flókið: það þarf að velja og hafna, finna fatnað sem hæfir áfangastað, veðurspá og iðju, og forðast þá gildru að ætla að vera við öllu búinn.

Það má t.d. yfirleitt sleppa því að pakka lítilli regnhlíf, nema spáin segi að von sé á mikilli vætu. Jafnvel nettustu regnhlífar eru þungar og taka pláss. Ef rignir er yfirleitt enginn vandi að finna ódýra plastregnhlíf til sölu í næsta söluturni. Sömuleiðis er óþarfi að pakka sólarvörninni: ef sólin skín má kaupa brúsa í næsta apóteki.

Þá ætti að reyna að sleppa því að pakka yfirhöfn, ef veðurspáin leyfir, og forðast að taka með aukapar af skóm, því skór eru bæði þungir og plássfrekir. Óhætt er að skilja jakkafötin og fínu skóna eftir, nema það standi til að fara út að borða á mjög fínum veitingastað eða heimsækja óperuna.

Gott er ef hægt er að skilja fartölvuna eftir (fartölva með hleðslutæki vegur um 2 kg) og ætti að mega sleppa myndavélinni líka. Góður farsími er allt sem þarf til að halda góðu sambandi, svara tölvupóstum og taka fínar myndir.

Brýnt er að að pakka aðeins lágmarksmagni af snyrtivörum. Japanska verslanakeðjan Muji selur ódýra litla brúsa og túbur sem hægt er að fylla með smáskömmtum af kremum, hársápu og ilmvatni fyrir stutta ferð. Snyrtivörurnar þarf að setja í vatnsþéttan vasa og er hægt að mæla með RunOff vösunum frá NiteIze sem eru sterkbyggðir, nettir og ættu ekki að leka.

Hver eru mörkin?

Öll flugfélög leyfa farþegum að taka lítinn bakpoka eða tösku um borð án endurgjalds. Viðmiðið er að taskan sé nógu smá til að passa undir flugvélarsæti en stærðar- og þyngdarviðmiðin eru ögn breytileg á milli flugfélaga. Þannig leyfir EasyJet töskur allt að 45 x 36 x 20 cm að stærð og 15 kg að þyngd en Icelandair leyfir 40 x 30 x 15 cm tösku og tilgreinir ekki hámarksþyngd.

Í dag rukka flest flugfélög aukalega fyrir viðbótarhandfarangur. Viðbótartaskan má vera stærri og oftast þyngri líka. T.d. er 56 x 45 x 25 cm og 15 kg hámarkið hjá EasyJet en Icelandair miðar við 55 x 40 x 20 cm og 10 kg.

Má benda lesendum á handfarangurstösku á borð við við Rimowa Essential Sleeve S sem er 3,5 kg að þyngd og nógu nett til að næstum öll flugfélög samþykki hana sem viðbótarhandfarangur. Taskan er úr plastskel en með mjúkan vasa að framan sem rúmar t.d. litla fartölvu, vegabréf og lesefni. Það munar um að hafa tösku á hjólum, því það getur verið lýjandi að bera allt að 10 kg farangur á milli flugstöðvarbygginga og borgarhluta.

Annar áhugaverður valkostur er bakpoki frá AER sem sérhannaður var fyrir fólk sem ferðast létt. Travel Pack 3 X-Pac frá AER fellur nákvæmlega að stærðarviðmiðum flugfélaganna og þar sem bakpokinn er mjúkur, má þjappa honum saman ef hann þarf að passa ofan í mæligrindurnar, sem sum flugfélög hafa við innritunarborð sín. Bakpokinn rúmar 35 lítra af farangri, er 1,8 kg að þyngd og með vasa, ólar og festingar á öllum réttu stöðunum.

Fjölhæfur fatnaður

Með því að velja réttu fötin þarf ekki að pakka mörgum bolum og buxum til skiptanna. Oft eru dökkar gallabuxur heppilegasti kosturinn enda fjölhæf flík sem hentar í öllum veðrum og þolir að óhreinkast. Ef áfangastaðurinn kallar á stuttbuxur má t.d. skoða úrvalið hjá breska merkinu Orlebar Brown sem gerir einstaklega vel sniðnar stuttbuxur sem má líka nota ef svamlað er í sjó eða sundlaug.

Merínó-ull er besta leynivopn þeirra sem ferðast létt og fer þeim fjölgandi sem selja stuttermaboli, pólóboli, peysur, sokka og skyrtur úr merínóull eða merínóullarblöndu. Þetta náttúrulega efni hefur þann eiginleika að vera nánst sjálfhreinsandi og safna ekki í sig líkamslykt. Því má nota sama bolinn dag eftir dag. Þá er hægur vandi að handþvo merínófatnað og ef flíkin er hengd til þerris að kvöldi ætti hún að vera orðin þurr næsta morgun.

Til að einfalda lesendum leitina að merínófatnaði má benda á Son of a Tailor sem framleiðir létta, sterka og þægilega stuttermaboli úr merínóull sem saumaðir eru eftir máli, og Airport-sokkana frá þýska framleiðandanum Falke. Þá verður að mæla alveg sérstaklega með merínó-skyrtunum frá Wool & Prince. Um er að ræða einstaklega vel heppnaðar hnepptar skyrtur sem líta út eins og nýpressaðar eftir margra daga notkun og henta bæði í heitu og köldu loftslagi. Létt og þunn ullarpeysa í dökkum lit kemur líka að góðum notum á svæðum þar sem kvöldin eru köld.

Vanda ætti valið á skóm. Þægilegir, stílhreinir, svartir strigaskór úr leðri eru einkar fjölhæfur valkostur, hvort sem ætlunin er að þræða bari eða söfn, rölta eftir ströndinni eða spranga um holt og hæðir. Má t.d. benda á Belératt strigaskóna frá ítalska framleiðandanum Velasca sem ættu að passa við hér um bil hvaða ferðafatnað sem er.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »