Einkaeyja föl fyrir 58 milljónir

Eyjan Pladda er til sölu.
Eyjan Pladda er til sölu. Ljósmynd/Knight Frank

Skoska eyjan Pladda er nú föl fyrir 350 þúsund sterlingspund eða um 58 milljónir íslenskra króna. Á eyjunni er viti og við hann stendur hús sem var áður vistarverur vitavarðar.

Við eyjuna er lítil bryggja og á henni er einnig þyrlupallur. Eyjan er rúmir ellefu hektarar að stærð og er úti fyrir vesturströnd Skotlands. 

Vitanum er nú fjarstýrt frá Edinborg og því þurfa tilvonandi kaupendur ekki að hafa áhyggjur af honum. 

Í vitavarðarhúsinu, sem hefur staðið tómt í nokkur ár og þarfnast ástar, eru fimm svefnherbergi, tvær stofur og stórt baðherbergi. Á eyjunni eru svo tvö hús sem nú eru notuð sem geymslurými.

Húsin eru tengd við vitann.
Húsin eru tengd við vitann. Ljósmynd/Knight Frank
mbl.is