Borin á sjúkrabörum úr flotgalla og árum

Ingibjörg Gréta er þakklát fyrir að eiga góða að.
Ingibjörg Gréta er þakklát fyrir að eiga góða að.

Ingibjörg Gréta elskar fjallgöngur og útivist og hennar nýja uppáhaldsparadís eru Hornstrandir, en hún hafði áætlað að fara í þrjár af fjórum gögnum sínum þar í sumar. Þau plön fóru því miður í vaskinn þegar hún ökklabraut sig á sleipum steini.

„Fjölskylda vinkonu minnar á hús í Hlöðuvík á Hornströndum og hef ég verið svo lánsöm að njóta þess með henni og öðrum góðum konum síðustu sumur. Svo kom upp sú hugmynd að ganga í framhaldi af Hlöðuvíkurdvöl í Reykjarfjörð en svo breyttum við því og sigldum þangað,“ segir Ingibjörg Gréta um tilurð ferðarinnar til Reykjafjarðar.

Hún segir þær vinkonurnar vera orðnar orðnar lúxusdömur, þær væru ekki til í að ganga með allt á bakinu. Þær fóru 18 saman í Reykjarfjörðinn, sumar þekktust aðrar ekkert en allar nutu samverunnar, dvalarinnar við Drangajökul og útivistarinnar. Á öðrum degi göngunnar hrasaði Ingibjörg Gréta og ökklabrotnaði.

„Brotin eða aumingi“

„Við gengum fram að jökli og vorum á heimleið þegar við fórum yfir grjótborgir sem voru blautar því það hafði rignt örlítið. Ég hugsaði með mér að ég skyldi passa mig svo ég brotnaði nú ekki. Það var við konuna mælt að ég rann og horfði á fótinn snúast í 90 gráður og svo bara öskraði ég. Það fer einhver frumkraftur í gang við svona aðstæður og allt einhvern veginn gengur upp á undarlegan máta. Tvær úr hópnum voru með verkjalyf og álteppi, hjúkrunarfræðingurinn í hópnum gat staðfest brot svo þyrlan lagði af stað og kom hún jafnframt með þessa snilldarsetningu að annað hvort væri ég brotin eða aumingi. Ég get með hreinni samvisku sagt að ég er brotin og því enginn aumingi,” segir Ingibjörg Gréta og hlær.

„En að öllu gamni slepptu þá eru aðalsöguhetjurnar í mínum huga íbúar Reykjarfjarðar sem útbjuggu sjúkrabörur úr því sem til var og komu mér af grjótinu og í skjól.“

Sigurjón Davíðsson heldur á árinni, Sigurður Þ. Stefánsson og Sigríður …
Sigurjón Davíðsson heldur á árinni, Sigurður Þ. Stefánsson og Sigríður Sía Jónsdóttir halda á gallanum Ásgímur Smári Þorsteinsson stendur nær Sigurjóni og Ingi Þór Tómasson. Ljósmynd/BjarneyLúðvíksdóttir

Mjög erfiðar aðstæður

Í myndabandi sem tekið var á slysstað sést hvernig heimamenn útbjuggu sjúkrabörur úr flotgalla og árum, festu fótinn á Ingibjörgu Grétu við aðra árina og svo var henni lyft upp og hún borin á fjórhjól sem keyrði hana heim að húsi.

„Ég hugsaði nú ekki mikið á þessum tímapunkti annað en að halda fætinum kyrrum en þegar ég sé myndbandið sem heimildamyndagerðarkonan hún Bjarney Lúðvíksdóttir tók þá fyllist ég aðdáun og miklu þakklæti yfir því hvernig mér var komið til bjargar við þessar mjög svo erfiðu aðstæður.“

Hún segir biðina eftir þyrlunni hafa liðið hratt því hópurinn var með hvert skemmtiatriðið á fætur öðru, sungu og dönsuðu og gerðu að gamni sínu.

„Ég fékk meira segja Óskalög sjúklinga í beinni og gera aðrir betur,“ segir hún og brosir.

Söfnuðu fyrir sjúkrabörum

Hópurinn ákvað að setja af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og vænum sjúkrakassa fyrir heimamenn í Reykjarfirði því þetta er hvorki fyrsta né síðasta slysið sem göngufólk verður fyrir á þessu svæði.

„Við fylltumst allar vammætti í þessari stöðu og ákváðum því að leggja eitthvað að mörkum til að auðvelda heimamönnum verkið við næsta óhapp. Söfnunin tókst með eindæmum vel en það tók ekki nema tvo daga að safna upphæðinni og rúmlega það,“ segir Ingibjörg Gréta.

Beðið eftir þyrlunni. Ingibjörg Gréta og Erla Jóhannesdóttir ábúandi í …
Beðið eftir þyrlunni. Ingibjörg Gréta og Erla Jóhannesdóttir ábúandi í Reykjarfirð Ljósmynd/BjarneyLúðvíksdóttir

Áföll eru tækifæri

Ingibjörg Gréta segir að áföll séu tækifæri og að það sé margt sem hún sé að vinna úr í þessu ferli.

„Það að brjóta sig og stoppa sig svona algjörlega af, vera öðrum háður um allt sem manni þykir svo sjálfsagt dags daglega er mögnuð reynsla. Jafnvægið á heimilinu breytist, kroppurinn tekst á við ótrúlegustu hluti og svo er það allur kærleikurinn og vinaþelið sem maður upplifir. Ég hef verið nánast verkjalaus eftir aðgerðina, en ökklinn var negldur og sett plata við. Ég hef stundað föstur til að hreinsa líkamann, nært mig af heilbrigðum mat og svo hef ég lært að biðja um hjálp og fengið hana svo um munar. Síðast en ekki síst fer maður í gegnum andlegar hæðir og lægðir sem er lærdómsríkt.“

Hétu á Ástríði

Hún segir næstu vikur fara í æfingar og þjálfun hvers konar því Hornstrandir verði heimsóttar aftur að ári.

„Við hétum á hana Ástríði þarna í miðjum klíðum, að færi allt vel myndum við syngja fyrir hana og segja sögu hennar en hún var vinnukona í Reykjarfirði fyrr á öldum sem varð ólétt og drekkti sér af skömm og var því jörðuð í óvígðri mold þarna í firðinum. Stelpurnar sungu fyrir hana Augun mín og augun þín þegar ég var flogin burt og nú er ég að segja frá henni. Takk Ástríður,“ segir Ingibjörg Gréta að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert