Taskan fannst í Hamborg

Ferðataskan fannst að lokum í Hamborg.
Ferðataskan fannst að lokum í Hamborg. Ljósmynd/Unsplash

Hjónin Michelle og Christopher May lentu í því undarlega atviki á dögunum að ein af fjórum töskum þeirra, sem þau ætluðu að fljúga með frá Bretlandi til Bandaríkjanna, fannst í Hamborg í Þýskalandi. 

Hjónin ætluðu að fljúga frá London til Edinborgar, þaðan til New York og loks frá New York til Charlotte í Norður-Karólínu. Fyrstu tveir flugleggirnir voru með British Airways og hinir síðari með American Airlines, sem flýgur ekki til Hamborgar. 

Daginn fyrir áætlaðan brottfarardag fengu þau að vita að British Airways hefði aflýst flugi þeirra frá Edinborg til New York. Þau ákváðu því að breyta fluginu sínu og fljúga beint á viðskiptafarrými með American Airlines, London til Charlotte. 

Á brottfarardegi tékkuðu þau töskurnar sínar fjórar inn í forgangi hjá American Airlines. Þegar þau lentu í Bandaríkjunum vantaði eina tösku. 

Hjónin létu vita en American Airlines sagðist ekkert vita um töskuna. Þremur vikum seinna fengu þau afsökunarbeiðni frá flugfélaginu vegna þess hve langan tíma það tók félagið að svara kvörtun þeirra.

Sex vikna leit

Sex vikum seinna lét starfsmaður félagsins þau vita að leitin að töskunni stæði enn yfir. Þremur vikum seinna fékk maðurinn símtal frá ókunnugri manneskju sem sagðist hafa fundið töskuna á flugvellinum í Hamborg þegar hún var að leita að töskunni sinni. 

Manneskjan sendi svo mynd af merkinu, og á því var merki British Airways. Hafa þau fengið þær skýringar að AA og BA hafi deilt flugkóða á flugferðinni frá London til Charlotte og því hefði þessi ruglingur orðið.

American Airlines gat hins vegar ekki hjálpað þeim með töskuna því félagið er ekki með starfsemi í Hamborg. Í viðtali við Independent sögðust May-hjónin vonast til þess að vinir þeirra í Þýskalandi gætu farið og sótt töskuna fyrir þau og sent hana með flugi yfir hafið til Charlotte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert