Takmarka flugumferð yfir Lundúnum

Kista drottningarinnar verður flutt frá Buckinghamhöll til Westminster Hall í …
Kista drottningarinnar verður flutt frá Buckinghamhöll til Westminster Hall í dag. Flugumferð yfir borginni verður takmörkuð á meðan. AFP

Flugumferð verður takmörkuð yfir Lundúnum í Bretlandi í dag, miðvikudag, á meðan kista Elísabetar II Bretadrottningar verður borin frá Buckinghamhöll til Westminster Hall þar sem hún mun hvíla næstu fjóra daga. 

Talsmenn Heathrow-flugvallar staðfesta þetta við AFP. Er þetta gert til að tryggja þögn á meðan kistan verður borin á milli. British Airways hefur aflýst átta flugferðum til annarra Evrópulanda í dag af þessum sökum.

Umferð um Heathrow-flugvöll er gríðarlega mikil en stjórnendur gera ráð fyrir að flugumferð verði einnig takmörkuð yfir borginni á mánudag, þegar útförin verður gerð frá Westminster Abbey.

„Við biðjumst afsökunar á þessum truflunum, en við vinnum að því að takmarka áhrifin næstu daga,“ segir í tilkynningu frá flugvellinum. 

mbl.is