Allt að 300% verðhækkun

Röðin að Westminster Hall mældist 6,4 kílómetrar á hádegi.
Röðin að Westminster Hall mældist 6,4 kílómetrar á hádegi. AFP

Verð á hótelherbergjum í Lundúnum næstu nætur hefur rokið upp. Ljóst er að gríðarlega kostnaðarsamt verður að dvelja í höfuðborginni á næstu dögum vegna útfarar Elísabetar II. Bretadrottningar sem gerð verður frá Westminster Abbey á mánudag. 

Tugir þúsunda manna hafa nú þegar lagt leið sína til borgarinnar til þess að kveðja drottninguna í hinsta sinn, en kista hennar hvílir nú í Westminster Hall sem opin er fyrir almenningi. 

GB News greinir frá því að verð á hótelherbergjum hafi hækkað um allt að 300% í borginni, bæði á lúxushótelum og á hótelum með færri stjörnum. Einnig er uppbókað á mörgum hótelum í grennd við miðborgina á aðfaranótt mánudags.

Aðfaranótt mánudags á fimm stjörnu hótelinu The Goring í Belgravia, í grennd við Buckinghamhöll, kostar nú 1.550 sterlingspund eða tæpar 250 þúsund krónur. Sama nótt á Morriott County Hall, í grennd við Westminster, kostar 1.036 pund eða 165 þúsund krónur.

Um 30 klukkustunda bið

Röð fyrir utan Westminster Hall byrjaði að myndast strax á mánudag og höfðu sumir því beðið í tvo sólarhringa eftir því að komast inn þegar dyrnar voru opnaðar fyrir almenningi síðdegis í gær. 

Stöðugur straumur af fólki hefur verið í gegnum Westminster síðan í gær og er búist við því að þannig verði það fram á mánudagsmorgun þegar kistan verður færð yfir í Westminster Abbey. 

Á hádegi í dag var röðin um 6,4 meðfram bökkum Thames-árinnar. Skipuleggjendur hafa tekið frá 16 kílómetra fyrir röðina. 

Aðdáendur konungsfjölskyldunnar þurfa þó ekki að láta sér leiðast í röðinni. Eins og bent hefur verið á á Twitter er hægt að byrja að horfa The Crown á Netflix, sem fjallar einmitt um valdatíð drottningarinnar, þegar maður kemur í röðina. Taka sér klukkutíma í hádegismat og vera einmitt búinn að horfa á allar fjórar þáttaraðirnar þegar komið er að kistunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert