Flugfélagið týndi gervifætinum

Taskan komst ekki í leitirnar fyrr en tólf dögum seinna.
Taskan komst ekki í leitirnar fyrr en tólf dögum seinna. Ljósmynd/Pexels

Emily Tuite, 26 ára kona í Bandaríkjunum, þurfti að vera án vatnshelds gervifótar í rúmlega vikufríi í Kaliforníu. Ástæðan var sú að taskan, sem vatnsheldi gervifóturinn var í, týndist á leiðinni til Kaliforníu frá Texas. 

Tuite notar fótinn þegar hún fer á ströndina og þegar hún fer í sturtu, en notast annars við annan fót, meðal annars á ferðalögum. 

Tuite flaug með Allegiant Air frá Austin í Texas hinn 1. september og lenti í San Diego sama dag. Þegar hún ætlaði að sækja töskuna sína kom í ljós að flugfélagið hafði týnt töskunni. 

Endaði hún á því að eyða öllum átta dögunum í að hafa áhyggjur af töskunni og var í daglegum samskiptum við flugfélagið. Það var ekki fyrr en hún var komin heim til Austin hinn 12. september að hún endurheimti töskuna með fætinum í. „Ég trúi ekki að það hafi tekið 12 daga að fá stoðtækið mitt aftur,“ sagði Tuite í viðtali Austin KXAN. 

Hún segir samskiptin við Allegiant ekki hafa verið góð og að loforð um símtöl hafi verið brotin. Einnig hafi hún almennt átt erfitt með að ná í gegn í þjónustuverið. 

Taskan fannst í Provo í Utah-ríki og að sögn flugfélagsins var merking annars farþega á henni fyrir mistök. „Þannig þau höfðu hringt í þennan farþega og sagst vera með töskuna hans, en hann sagðist ekkert eiga hana,“ sagði Tuite. Hún segist nú íhuga að ferðast heldur með stoðtækin sín í handfarangri til að tryggja að slíkt gerist aftur ekki, eða merkja töskuna með AirTag svo hún geti rakið ferðir töskunnar sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert