Pissaði í flugsæti á leið til Tenerife

Atvikið átti sér stað um borð í vél Ryanair.
Atvikið átti sér stað um borð í vél Ryanair. AFP/Pau Barrena

Flugvél Ryanair á leið frá Manchester til Tenerife þurfti að nauðlenda á portúgölsku eyjunni Porto Santo til að vísa nokkrum farþegum frá borði. Farþegarnir höfðu látið illa á leiðinni og er einn sagður hafa kastað af sér þvagi í flugsæti.

Liverpool Echo greinir frá og segir einn farþega hafa verið mjög drukkinn og að heiftarlegt rifrildi milli farþega hafi blossað upp. Sjónarvottur sagði í samtali við fjölmiðilinn að sá sem pissaði í sætið hafi litið mjög drukkinn út, og að flugþjónninn hafi reglulega ítrekað við hann að setjast niður.

„Hann var mjög drukkinn og var alltaf að standa upp og var ítrekað sagt að setjast niður. Að lokum vildi hann fara á klósettið en var neitað um það, þannig hann stóð upp og pissaði í laust sæti sem var við hlið hans,“ sagði hinn ónafngreindi farþegi. 

Starfsfólkið hafi staðið sig vel

Aðrir farþegar fóru að skipta sér af manninum og segja honum að haga sér. Þá hafði flugstjórinn ítrekað varað farþegann við í kallkerfinu að vélin þyrfti að nauðlenda ef hann hagaði sér ekki. 

Í Porto Santo var manninum, auk þeirra sem höfðu blandað sér í málið, vísað frá borði áður en vélin hélt áfram suður til Tenerife. 

„Starfsfólk Ryanair tók mjög vel á málinu, því það var alls ekki auðvelt að takast á við þetta, en þau stóðu sig ótrúlega vel,“ sagði heimildamaðurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert