Keyrðu frá Bandaríkjunum til Kanada

Berglind Hreiðarsdóttir og fjölskylda fóru í skemmtilega bílferð frá Bandaríkjunum …
Berglind Hreiðarsdóttir og fjölskylda fóru í skemmtilega bílferð frá Bandaríkjunum yfir til Kanada í sumar. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Berg­lind Hreiðars­dótt­ir, mat­ar- og æv­in­týra­blogg­ari á Gotte­rí og ger­sem­ar, fór í óvenjulegt fjölskyldufrí með vinafjölskyldu sem býr í Seattle. Frá Seattle í Bandaríkjunum ferðaðist hópurinn til Albertafylkis í Kanada. 

„Við bjuggum í Seattle í tvö ár með eldri dætur okkar á meðan maðurinn minn var í mastersnámi við University of Washington. Við kolféllum fyrir þessu svæði og í raun Washingtonríki eins og það leggur sig,“ segir Berglind um tenginguna við bandarísku borgina sem þau heimsækja reglulega. 

Hvernig datt ykkur í hug að fara frá Seattle yfir til Alberta í Kanada?

„Þegar við höfum heimsótt Seattle eftir að við fluttum heim hefur það venjulega verið í góðan tíma og við alltaf tekið eitthvað smá „roadtrip“ þaðan á meðan á dvöl stendur. Alberta hefur lengi verið á óskalistanum svo það var alls ekki svo galið að skipuleggja ferð þangað frá Seattle.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Er flókið að fara á milli landanna tveggja?

„Það er ekkert flóknara en svo að það þarf að fylla út ákveðna pappíra, bæði varðandi Covid og fleira. Þeir eru þó breytilegir svo það er mikilvægt að kynna sér slíkt vel áður en haldið er af stað. Síðan er komið að landamærahliði þar sem spjallað er við mann og pappírar skoðaðir.“

Fjölskyldan fór í öðruvísi ferðalag í sumar.
Fjölskyldan fór í öðruvísi ferðalag í sumar. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hvað stóð upp úr?

„Ef ég ætti að velja eitthvað eitt þá er það Moraine Lake. Það var bara eitthvað við að standa þarna uppi á „The Rockpile“ eftir að hafa séð ótal myndir á netinu og vera kominn þangað í alvörunni sjálfur! Annars er erfitt að gera upp á milli, Lake Louise er undurfallegt og líka Lake Minnewanka og Emerald Lake. Að keyra upp allan „Rocky Mountains“ fjallgarðinn og fara síðan í gegnum „The Canadian Rockies“ er auðvitað draumi líkast og erfitt að hafa augun á veginum.

Emerald Lake var einn af hápunktum ferðarinnar.
Emerald Lake var einn af hápunktum ferðarinnar. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Á Moraine Lake.
Á Moraine Lake. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Var eitthvað sem kom skemmtilega á óvart í ferðinni?

„Coeur d'Alene í Idaho kom skemmtilega á óvart. Virkilega fallegt svæði og með golfvöll á heimsmælikvarða sem pabbarnir prófuðu á meðan við hin nutum borgarinnar.“

Coeur d'Alene í Idaho.
Coeur d'Alene í Idaho. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hvar fékkstu besta matinn í ferðinni?

„Þegar maður ferðast mikið og flækist um með alla fjölskylduna verður allur matur góður því maður er alltaf orðinn svo svangur eftir daginn, og ansi oft endar hann í einhverjum skyndibita þegar þreytan nær yfirhöndinni. Stundum er samt tími fyrir kósíheit og ég verð að mæla með bæði Magpie & Stump í Banff sem er hipp og kúl mexíkóskur staður og síðan Truffle Pigs Bistro sem er lítill, fjölskyldurekinn veitingastaður nálægt Emerald Lake.“

Fjölskyldan borðaði girnilegan mat i ferðinni.
Fjölskyldan borðaði girnilegan mat i ferðinni. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Er öðruvísi að ferðast um Bandaríkin en Evrópu?

„Já og nei, það fer held ég mikið eftir því hvar í Bandaríkjunum þú ert að ferðast. Washingtonríki er frekar norrænt finnst mér en ætli það séu ekki helst breiðari vegir og rosalega mikið af trjám! Annars hef ég keyrt mun meira um í Bandaríkjunum en Evrópu svo ég er kannski ekki dómbær á þetta.“

Voru þið búin að skipuleggja alla gististaði eða tóku þið skyndiákvarðanir?

„Við vorum búin að skipuleggja alla gististaði þar sem Alberta er ansi vinsæll ferðamannastaður og erfitt að fá gistingu og jafnvel borð á veitingahúsum ef ekki er búið að bóka í tíma. Við vorum líka níu samtals að ferðast saman og þá er alltaf erfiðara að taka skyndiákvarðanir. Við tókum átta daga í þetta ferðalag en þeir hefðu klárlega mátt vera tíu þar sem stundum hefðum við verið til í að stoppa aðeins lengur. Einnig þurfti að vera búið að panta rútuferð að Moraine Lake og Lake Louise þar sem takmarkað er af bílastæðum á þessum stöðum og erfitt að komast að með öðrum hætti.“

Marble Canyon.
Marble Canyon. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Ferðalagið var ansi viðburðaríkt og staðirnir ótalmargir sem fjölskyldurnar skoðuðu. 

„Við keyrðum frá Seattle til Mullan í Idaho og gistum þar í skíðakofa sem við fundum á AirBnb. Síðan keyrðum við til Montana, skoðuðum Kerr Dam enda verkfræðingar á ferðinni og keyrðum meðfram Flathead Lake til Kalispell þar sem við gistum á hóteli eina nótt. Krakkarnir fengu að fara út í Yellow Bay við Flathead Lake til að synda og viðra sig og síðan var bara skyndibiti á hótelinu það kvöld enda allir þreyttir eftir langan dag. Næsta dag komum við okkur síðan til Kanada. Við byrjuðum á því að kíkja í Fort Steele-bæinn í Kootenay-þjóðgarðinum. Það var eins og að vera komin aftur til fortíðar og virkilega flott að skoða. Á leiðinni til Banff stoppuðum við síðan líka í Invermere sem er fallegur bær og fengum okkur hádegismat, gengum að Olive Lake sem er undurfallegt grænt vatn alveg við veginn og fórum síðan í fjölskylduvæna göngu upp Marble Canyon. Því næst tékkuðum við okkur inn á hótel í Banff og slökuðum á.

Við Lake Minnewanka.
Við Lake Minnewanka. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Daginn eftir skoðuðum við okkur um í Canmore sem er næsti bær við Banff, fórum að Lake Minnewanka, í Banff Gondólann sem var alveg geggjað og enduðum á því að fara út að borða og skoða okkur um í Banff Town en það er virkilega fallegur bær.

Gisting í Banff.
Gisting í Banff. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Næst lá leiðin til Golden en á leiðinni þangað skoðuðum við Moraine Lake, Lake Louise og Emerald Lake sem voru hápunktar ferðarinnar! Leigðum kanó við Moraine Lake og þessi dagur var ævintýri líkastur. Þegar við síðan vöknuðum í Golden fórum við í Golden Sky bridge sem er lengsta „suspension bridge“ í Kanada og krakkarnir fóru í zip-line yfir gilið!

Í kengúrugarði.
Í kengúrugarði. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Kelowna var næsti áfangastaður en þar kíktum við á ströndina og í æðislegan kengúrugarð áður en við héldum áfram næsta dag til Whistler. Whistler er eitt flottasta skíðasvæði heims og langar okkur að koma síðar þangað að vetri til. Það var hins vegar dásamlegt að vera þar um sumar og fórum við í skíðalyfturnar og gondólana til þess að ganga um og njóta útsýnisins. Við stoppuðum síðan í Vancouver og skoðuðum Stanley Park og fleira áður en leiðin lá aftur til Seattle.“

Langar ykkur að skoða meira í Norður-Ameríku?

„Við höfum nú oft grínast með það að ná öllum 50 fylkjunum á ævinni þó við séum líklega bara búin með tíu svo við eigum klárlega eftir að ferðast meira. Einnig langar okkur til Alaska og fleiri staða þarna enn norðar svo nú þarf bara að fara að skoða næstu ævintýri,“ segir Berglind og hlær. 

mbl.is