Ferðast um heiminn áður en börnin verða blind

Þau Sébastian Pelletier og Edith Lemay með börnum sínum Evu, …
Þau Sébastian Pelletier og Edith Lemay með börnum sínum Evu, Leo, Colin og Laurent. Skjáskot/Instagram

Þegar þrjú af fjórum börnum Edith Lemay og Sébastian Pelletier greindust með sjaldgæfan arfgengan augnsjúkdóm, sem veldur því að þau verða blind síðar á lífsleiðinni, ákváðu þau að ferðast um heiminn.

Sérfræðingar ráðlögðu þeim að styrkja sjónrænt minni barna sinna með því að skoða bækur en Edith segir í viðtali við BBC að hún vildi frekar sýna börnum sínum heiminn og sýna þeim raunverulega fíla og gíraffa.

Fjölskyldan ákvað því að fara í árslanga reisu um heiminn til þess að fylla á sjónrænt minni barna sinna áður en það verður um seinan.

Sjúkdómurinn sem börnin glíma við heitir hinu latneska nafni retinitis pigmentosa en hann veldur því að sjónhimna augans hrörnar og þar með hrakar sjóninni smám saman. Elsta dóttir þeirra, Eva, greindist fyrst með sjúkdóminn og svo synir þeirra, þeir Colin og Laurent. Leo, sem er níu ára, er ekki með sjúkdóminn. 

Þau eru búin að fara til sex landa í þremur heimsálfum hingað til en þau lögðu í hann í lok mars frá Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert