„Viltu koma með mér í heimsreisu?“

Björn Gabríel Björnsson og Adíb Már Loftsson eru á leið …
Björn Gabríel Björnsson og Adíb Már Loftsson eru á leið í heimsreisu.

Hinir 21 árs gömul Björn Gabríel Björnsson og Adíb Már Loftsson eru nú í óða önn að skipuleggja heimsreisu. Strákarnir hafa verið góðir vinir í um fimm ár og þegar Björn spurði Adíb: „viltu koma með mér í heimsreisu?“ stóð ekki á svörum hjá Adíb sem svaraði hiklaust já. 

Heimsreisuna eru þeir að skipuleggja með ferðaskrifstofunni Kilroy og verður hún fullkomin blanda af skipulagi og óvissu.

„Þetta er náttúrlega heilmikið skipulag og pælingar sem koma upp þegar ferð sem þessi er skipulögð og þar af leiðandi erum við búnir að velta mörgum steinum en þetta small allt saman að lokum og hefðum við aldrei getað gert þetta án hennar Evu okkar hjá Kilroy ferðaskrifstofu,“ segir Björn. Strákarnir stefna á að leggja í hann í upphafi árs 2023 og koma heim þremur mánuðum seinna.

Fyrst fljúga þeir félagar til Lundúna og verða þar í eina nótt áður en þeir fara til Jórdaníu. Adíb er ættaður frá Jórdaníu og ætla þeir að kynnast landinu aðeins betur. „Þar á eftir förum við til Víetnam, Kambódíu, Taílands, Singapúr, Suður-Afríku, Simbabve, Dúbaí, Brasilíu, Perú og Mexíkó. Síðast heimsækjum við New York í Bandaríkjunum áður en við fljúgum heim,“ segir Björn. 

Í reisunni ætla þeir í fjölda skoðanaferða en einnig í fallhlífarstökk, á köfunarnámskeið og brimbretti. 

Tvær milljónir fyrir utan uppihald

Strákarnir eru báðir algjörir náttúrupésar og segir Björn því alltaf hafi legið við að þeir myndu gera eitthvað svona, en að hann hafi kannski ekki búist við að þeir færu í svona ferð saman.

Björn hefur unnið í afleysingum hjá lögreglunni á Suðurlandi og hafa þeir báðir verið að leggja fyrir í langan tíma, þó það hafi ekki alltaf staðið til að eyða peningnum í heimsreisu. 

Hann segir kostnaðinn við svona verð vera um kringum tvær milljónir króna og þá sé eitthvað uppihald eftir. Spurður um gott sparnaðarráð fyrir ungt fólk sem langar í heimsreisu segir hann: „Þetta snýst fyrst og fremst um vinnusemi og svo leggja alltaf til hliðar eins og maður getur hverju sinni, hvort sem það er stór eða smá summa, þetta tikkar allt saman.“

Björn segir þá félaga vera mikla náttúrupésa.
Björn segir þá félaga vera mikla náttúrupésa.
mbl.is