Útlandaferðir sem setja þig ekki á hausinn í haust

Hvert ætlar þú í helgarferð í haust?
Hvert ætlar þú í helgarferð í haust? Samsett mynd

Þegar næsti frídagur er ekki fyrr en um jólin þýðir ekki annað en að skella sér erlendis í stutta haustferð. Að taka beint flug út í heim í nokkra daga getur haft gríðarlega góð áhrif á geðheilsuna. Svo ferðin fari ekki illa með fjárhaginn er sniðugt að velja áfangastað sem fer vel með budduna. 

Gdansk

Hagstæð helgarferð? Gdansk í Póllandi er svarið. Gdansk er mikil menningarborg og er tilvalin fyrir alla sem hafa áhuga á fallegum borgum. Í borginni er líka hægt að versla og gleyma sér í skemmtilegum verslunum. Fyrir utan mat og drykk á hagstæðu verði í borginni er sniðugt að láta það eftir sér að fara í nudd eða annað dekur. Það er líka hægt að skreyta líkamann fyrir litla summu, húðflúr kostar ekki mikið og bótox kostar heldur ekki mikið. 

Ljósmynd/Unslpash.com/Vitaliy Gavrushchencko

Búdapest

Búdapest er gríðarlega falleg og þar er hægt ganga um og njóta fallegra bygginga í heila helgi. Ekki er hægt að sleppa því að fara til Búdapest að kíkja í heitu böðin þeirra. Þyrstir ferðalangar ættu auðveldlega að geta svalað þorstanum en áfengir drykkir eru sérstaklega ódýrir í borginni. Eftir smá drykkju og dans á næturklúbbi er hægt að taka leigubíl heim sem kostar ekki hálfan handleginn. Heimildir ferðavefs mbl.is herma að leigubílarnir í Búdapest séu svo ódýrir að fólk fái nánast borgað fyrir að ferðast með þeim. Blaðamaður selur þessa fullyrðingu þó ekki dýrari en hann keypti hana. 

Ljósmynd/Unslpash.com/Ervin Lukacs

Liverpool

Play er að hefja beint flug til Bítlaborgarinnar en þar er hægt að gera svo ótalmargt annað en að horfa á menn í stuttbuxum elta bolta. Borgin er stútfull af menningu. Hún er líka tilvalin fyrir alla þá sem elska Lundúnir en tíma ekki að skella sér þangað – svo eru ríkisfjármálin í Bretlandi í ekkert sérstaklega góðum málum þessa dagana sem kemur sér vel fyrir Íslendinga sem ætla kaupa jólagjafirnar snemma í ár í Primark. Best er auðvitað að byrja daginn á hefðbundnum breskum morgunmat með öllu tilheyrandi og skella sér svo á krá í hádeginu og svolgra í sig einum stórum og ódýrum bjór. 

Bítlaborgin Liverpool.
Bítlaborgin Liverpool. Ljósmynd/Unsplash.com/Conor Samuel

Napólí

Napólí á Ítalíu hefur verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga á undanförnu ári. Má þar vafalaust þakka lággjaldaflugfélaginu Wizz. Fargjaldið er svo ódýrt að það margborgar sig að fara í skreppitúr í borgina þar sem Maradonna er í guðatölu. Einhverjum kann að finnast heimaborg flatbökunnar skítug en það venst eins og annað. Það er óþarfi að bóka borð á fínum pizzastað þar sem pizzur á næsta götuhorni sem borðaðar eru úti á götu eru betri en fínasta nautasteik. Til þess að gera Napólí að enn fýsilegri kosti í haust er vert að taka það fram að hitastigið í október er nokkuð notalegt. 

Ljósmynd/Unsplash.com/Aliya Izumi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert