Borgarstjórinn gagnrýnir verðhækkanir

Joanne Anderson borgarstjóri gagnrýnir þær verðhækkanir sem orðið hafa á …
Joanne Anderson borgarstjóri gagnrýnir þær verðhækkanir sem orðið hafa á hótelum í Liverpool. Ljósmynd/Unsplash.com/Conor Samuel

Joanne Anderson, borgarstjóri Liverpool-borgar, hefur gagnrýnt þær verðhækkanir sem orðið hafa á hótelherbergjum og Airbnb eignum eftir að tilkynnt var um að Eurovision-söngvakeppnin myndi fara fram í borginni á næsta ári.

„Ég held við ættum ekki að gera þetta. Ég vil koma hótelum á framfæri sem skrá sig og heita því að gera þetta ekki. Þetta er ekki ásættanlegt,“ sagði Anderson í viðtali við PA news. 

Mikil spurn var eftir hótelherbergjum í borginni um leið og tilkynnt var að Liverpool yrði fyrir valinu. Greinir Independent frá því að hótel hafi auglýst herbergi á allt að 5.500 pund, eða tæpar 900 þúsun krónur, fyrir nóttina vikuna sem Eurovision fer fram. 

„Eurovision er frábært fyrir borgina okkar, og við viljum ekki nota fólk,“ sagði borgarstjórinn í viðtali. Hún staðfesti einnig að samgöngur yrðu bættar til borgarinnar til að auðvelda áhorfendum og keppendum að komast til borgarinnar. Vinnan við höllina væri þegar hafin. 

Greint var frá því hinn 7. október síðastliðinn að Liverpool myndi halda keppnina á næsta ári. Bretland heldur keppnina fyrir hönd Úkraínu sem vann keppnina í ár, en getur ekki haldið hana vegna innrás Rússa. 

Anderson lofaði því sömuleiðis að þó keppnin yrði í Liverpool þá yrði hún með úkraínsku ívafi. 

Eurovision-söngvakeppnin verður haldin í M&S Bank Arena í Liverpool.
Eurovision-söngvakeppnin verður haldin í M&S Bank Arena í Liverpool. mbl.is/Sonja Sif
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert