Kveikti sér í sígarettu á flugsalerni

Atvikið átti sér stað um borð í vél El Al …
Atvikið átti sér stað um borð í vél El Al á leið frá Tel Aviv í Ísrael til Bangkok í Taílandi. AFP

Uppi varð fótur og fit í flugi frá Tel Aviv til Bangkok í síðustu viku þegar óheppinn og ekki svo lævís farþegi kveikti óvart í salerni um borð, eftir að hann stalst til þess að reykja sígarettu þar inni. 

Atvikið átti sér stað um borð í vél El Al á föstudag, en eftir að farþeginn kveikti sér í inni á salerni fór reykskynjarinn af stað. Farþeganum brá svo við lætin að hann reyndi að henda hinni forboðnu sígarettu í ruslið, sem var full af pappír. Þar sem hann náði ekki að slökkva almennilega í sígarettunni kviknaði í ruslatunnunni.

Í tilkynningu frá El Al segir að flugliðar hafi snarlega náð að opna hurð salernisins og slökkt í ruslinu með slökkvitæki. Því næst hafi vélin haldið áfram til Taílands án frekari truflana, en flugið frá Tel Aviv til Bangkok tekur um ellefu klukkustundir.

Hinn ekki svo lævísi reykingamaður slapp með skrekkinn því áhöfnin tilkynnti hann ekki til lögreglu við komuna til Tailands. Fékk hann aðeins áminningu og er málið til skoðunar hjá lögfræðingum flugfélagsins. 

Reykingar hafa verið bannaðar um borð í flugvélum um allan heim frá árinu 2000.

mbl.is