Hefnir sín á þeim sem halla sætinu

Enn og aftur hafa skapast heitar umræður um hvort það …
Enn og aftur hafa skapast heitar umræður um hvort það sé í lagi að halla sætinu aftur í flugvél. Ljósmynd/Pexels/Sourav Mishra

Kona nokkur í Bretlandi hefur klofið netið eftir að hún sagði frá því hvernig hún hefnir sín á farþegum sem halla aftur sætinu fyrir framan hana í flugvél. Einhverjum þykir bragðið ansi sniðugt en aðrir eru ekki hrifnir. Daily Mail segir frá.

Í viðtali við Nova Radio sagðist konan alltaf kveikja á loftræstingunni fyrir ofan sig og beina henni á hæstu stillingu beint í andlitið á þeim sem hallaði sér aftur. Stjórnendur þáttarins klöppuðu fyrir ungu konunni og sögðu ráðið ansi gott.

Hlustendur útvarpsþáttarins skiptust hins vegar í tvær fylkingar. „Er það ókurteisi að halla sætinu sem ég borgaði fyrir að sitja í? Mér þykir það fréttnæmt,“ sagði ein kona. Karlmaður benti á að ef fólk vildi hafa það notalegt gæti það borgað hærra verð fyrir það og keypt sér miða á fyrsta farrými. 

„Ég halla aldrei sætinu mínu, enda er ég ekki sjálfselsk,“ sagði ein.

Svo var einn sem gaf annað ráð: „Haldið bara fast í sætið og þá heldur hinn farþeginn að það sé bilað og reynir ekki að halla því aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert