Hvert er ódýrast að fara í aðventuferð?

Ferðavefurinn tók saman verðið á nokkrum ferðum til borga í …
Ferðavefurinn tók saman verðið á nokkrum ferðum til borga í Evrópu fyrstu helgina í desember. Ljósmynd/Unsplash

Oft er betra að skipuleggja ferðalög með góðum fyrirvara, sérstaklega þegar um er að ræða ferðalög yfir hátíðirnar eða rétt fyrir þær. Það er þó ekki of seint í rassinn gripið að skipuleggja aðventuferð. Ferðavefurinn tók saman flug og gistingu í fimm borgum í Evrópu sem vinsælt er að heimsækja fyrir jólin.

Ferðavefurinn bar saman verð á flugi, fram og til baka án millilendingar fyrir tvo fullorðna, og verð á þremur nóttum á hóteli fyrstu helgina í desember, 1. til 4. desember. Notast var við leitarvél Google Flights og Booking.com.

Berlín

Berlín er einstaklega heillandi borg, þá sérstaklega fyrir jólin. Í Þýskalandi er að finna marga af flottustu jólamörkuðum Evrópu og í Berlín er að finna nokkra þeirra. Sá stærsti þeirra er Spandau, en fjöldi minni jólamarkaða er finna í borginni.

Ódýrasta flugið án millilendingar þessa helgina var með Play og kostar 159 þúsund krónur fyrir tvo fram og til baka. Inni í verðinu er ekki gjald fyrir tösku og sæti. Hótel í grennd við miðborgina, Hotel Berlin Berlin, kostar 74.749 krónur. Þrjár nætur og  fyrir tvo fullorðna, en um er að ræða tilboð í tilefni af svörtum föstudegi.

Samtals fyrir tvo: 233.749 krónur

London

London er mikil jólaborg og mikið að sjá og gera fyrir jólin í borginni. Hyde Park verður til dæmis kominn í jólabúninginn 2. desember. Fyrir Harry Potter-aðdáendur er svo ómissandi að sjá Hogwarts í vetrarbúningi í Warner Bros. Studios. 

Ódýrasta flugið til London fyrir tvo til London þessa helgi var með Easy Jet og kostar 45 þúsund krónur, án tösku. Þrjár nætur á þriggja stjörnu hóteli í grennd við miðborgina, Heeton Concept Hotel, kostar 119.844 krónur.

Samtals fyrir tvo: 164.844 krónur

Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn er einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga á aðventunni. Það er ekki að ástæðulausu, enda mikil jólastemning í borginni. Jólin eru komin í tívolíinu og almennur jólabragur yfir Dananum.

Ódýrasta flugið til Kaupmannahafnar var með Play og kostar það 157 þúsund krónur, án tösku. Þrjár nætur á þriggja stjörnu hóteli í miðborginni, Hotel Christian IV, kostar 87.486 krónur. 

Samtals: 244.486 krónur

Helsinki 

Helsinki er algjör paradís á veturnar. Jólamarkaðurinn, Tuomaan Markkinat, opnar einmitt 1. desember. Til að vega upp á móti kuldanum er sannarlega notalegt að skella sér svo í sánuna, en þær eru ekki af skornum skammti í Finnlandi.

Ódýrasta flugið til Helsinki án millilendingar var með Icelandair og kostar 181 þúsund krónur, án tösku. Þrjár nætur á þriggja stjörnu hóteli í miðborginni, Omena Hotel Lönnrotinkatu, kostar 44.496 krónur. 

Samtals: 225.496 krónur

Gdansk

Það er ódýrt að versla jólagjafirnar á einu bretti í Gdansk, en þar er að finna allar helstu verslanirnar. Í borginni er einstaklega fallegur jólamarkaður, á Targ Węglowy, sem vert er að kíkja á.

Ekki er hægt að fljúga beint til Gdansk á þessum tíma. Hins vegar kostar flug með millilendingu í Kaupmannahöfn, fyrir tvo, án tösku, 184.910 krónur, með Icelandair og SAS. Þrjár nætur á þriggja stjörnu hóteli í gamla bænum í Gdansk, Black Swan House, kostar 27.840 krónur.

Samtals: 212.750 krónur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert