Skipta um nafn á vinsælum ferðamannastað

Havasupai Gardens er í Miklagljúfri í Arizona.
Havasupai Gardens er í Miklagljúfri í Arizona. Ljósmynd/Pexels/adanvdo

Vinsæll áfangastaður ferðamanna í Miklagljúfri í Arizona í Bandaríkjunum hefur fengið nýtt nafn. Það sem áður hét Indian Garden heitir nú Havasupai Gardens. CNN greinir frá.

Áfangastaðurinn er á Bright Angel leiðinni en nafn hans hafði verið gagnrýnt fyrir að vísa til indjána, eða frumbyggja Norður-Ameríku. Margar kynslóðir Havasupai ættbálksins hafði búið á svæðinu áður en þeim var bolað út af lögreglunni fyrir tæplega hundrað árum síðan. 

Havasupai ættbálkurinn kallaði áningarstaðinn Ha'a Gyoh áður en hann fékk nafnið Indian Garden. 

„Miklagljúfurs-þjóðgarðurinn er stoltur af því að hafa unnið með ættbálksráði Havasupai við að endurnefna þennan mikilvæga stað,“ sagði framkvæmdastjóri þjóðgarðsins í tilkynningu. 

mbl.is