Delta bætir við áfangastað í Bandaríkjunum

Delta Airlines hefur áætlunarflug til Detroit í Bandaríkjunum í maí …
Delta Airlines hefur áætlunarflug til Detroit í Bandaríkjunum í maí á næsta ári. Ljósmynd/Delta Air Lines

Detroit bætist við sem nýr áfangastaður Delta Airlines frá Íslandi 15. maí næstkomandi. Flogið verður fjórum sinnum í viku með Boeing 757 þotum fram í miðjan október.

Detroit verður þriðji áfangastaður Delta á næsta ári. Áfram verður flogið daglega frá því í byrjun apríl til New York og Minneapolis/St. Paul.

Hin auknu umsvif Delta endurspegla vinsældir Íslands sem áfangastaðar í Bandaríkjunum. Það sem af er þessu ári hafa bandarískir ferðamenn verið þriðjungur erlendra ferðamanna hér á landi samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu. Alls verða 6.248 sæti í boði í 36 ferðum í hverri viku hjá Delta í ferðum milli Íslands og Bandaríkjanna næsta sumar.

Delta flaug fyrst til Íslands sumarið 2011 frá New York. Síðar bættust við ferðir frá Minneapolis/St. Paul.

Delta verður ekki eina félagið sem flýgur beint til Detroit frá Íslandi á næsta ári. Icelandair tilkynnti í lok nóvember Detroit sem nýjan áfangastað félagsins. Flug Icelandair hefst þremur dögum seinna, eða hinn 18. maí og flogið verður út október.

mbl.is