Á hávaxið fólk að borga meira fyrir flugsæti?

Þegar stórt er spurt.
Þegar stórt er spurt. Ljósmynd/Pexels/Sourav Mishra

Karlmaður kveikti skoðanabál á Reddit nýlega þegar hann opnaði sig um þá skoðun sína að hávaxið fólk ætti að borga aukalega fyrir að fá flugsæti með meira rými fyrir fæturnar. 

Skoðunina setti hann inn í flokk sem heitir Er ég hálfvitinn? (e. Am I the A**hole). Þar sagði hann frá því hvernig honum hafi verið bannað að halla aftur sætinu sínu því ferðalangurinn fyrir aftan hann var of hávaxinn. „Er ég hálfviti fyrir að segja 2 metra risanum að kaupa sér betra sæti?“

„Ég (32 ára karlmaður), er 177 sm að hæð og innritaði mig í flugið kvöldið áður. Ég vildi sitja við gluggann og valdi það. Það kostaði ekki aukalega, en ég sá að það kostaði um 20 evrur að kaupa sæti með meira fótaplássi,“ skrifaði maðurinn. Hann bætti við að flugið var á milli tveggja Evrópuborga og um 90 mínútur að lengd. 

Hann ákvað að kaupa ekki meira pláss þar sem hann ætlaði að sofa á leiðinni og taldi sige kki þurfa meira pláss. Um borð hallaði maðurinn fyrir framan hann sætinu sínu, svo hann ákvað að gera það sama. Þá pikkaði maður fyrir aftan hann í hann því sætið rakst í fætur hans.

„Maðurinn í miðjunni var einstaklega stór, og sat í miðjunni, en hnén á honum náðu inn á sætin til beggja hliða,“ skrifaði maðurinn og sagðist hafa sleppt því að halla sætinu en ákvað að spyrja stóra manninn af hverju hann hafi ekki borgað fyrir meira fótapláss. 

Þá sagðist maðurinn yfirleitt fá slíkt frítt um leið og hann kæmi um borð og áhöfnin sæi hversu stór hann væri. 

Hálfviti eða ekki hálfviti?

„Ég sagði honum að það væri á hans ábyrgð, ekki áhafnarinnar, að hann fengi sæti sér við hæfi. Hann vissi vel að hann passaði ekki í miðju sætið og hefði getað valið sæti við ganginn, þar sem það koastaði ekki aukalega. Ég sá valmöguleikana kvöldið áður. Ég sagði honum líka að hann hefði getað greitt aukalega fyrir meira pláss,“ skrifaði maðurinn. Hann segir stóra manninn hafa kallað sig sjálfselskan. 

„Ég sagði honum: „Ég er ekki sjálfselskur, mér finnst allt í lagi að ég fái minna pláss svo þér líði betur, en ég er bara að benda þér á að þú ert sjálfelskur fyrst þú tekur frekar pláss af öðrum og treystir á flugliðana að fá betra sæti“,“ skrifaði hann að lokum. 

Umræðan var eldfim á þræðinum. Sumir voru algjörlega ósammála manninum, en fleiri voru þó sammála honum, stóri farþeginn hefði átt að greiða aukalega fyrir meira fótapláss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert