Ásta keypti hús á Ítalíu

Ásta Sigurðardóttir keypti hús á Ítalíu á þessu ári og …
Ásta Sigurðardóttir keypti hús á Ítalíu á þessu ári og er að gera það upp.

Ásta Sigurðardóttir, innanhússhönnuður og jógakennari, keypti fyrr á þessu ári hús í bænum Salemi á Sikiley. Ásta hafði um nokkurt skeið verið að leita sér að húsi á Ítalíu eftir að hún las grein fyrir átta árum um hús til sölu á eina evru. 

Hún endaði þó á að kaupa hús á frjálsum markaði sem kostaði aðeins meira en eina evru, en hún segir húsin sem kosta eina evru vera mörg hver í slæmu ástandi og þarfnast þau mikillar ástar til að verða íbúðarhæf. 

„Mér var hjálpað í gegnum allt ferlið“

Líkt og fjallað hefur verið um á ferðavef mbl.is þá hafa yfirvöld í bæjum víða á Ítalíu brugðist við fólksfækkun með því að bjóða ódýrt húsnæði til sölu. Þegar fólk kaupir slík hús er það oft háð ýmsum skilyrðum, eins og til dæmis að þurfa að gera þau upp innan ákveðins tímaramma.

„Ég er ekki svo þolinmóð að nenna að standa í framkvæmdum í mörg ár. Ferlið var mjög einfalt og gekk ótrúlega vel en allir pappírar varðandi húsið voru klárir,“ segir Ásta í viðtali við mbl.is. Hún bætir við að margir hafi lent í vandræðum með skriffinnskuna á Ítalíu, en hún slapp alveg við það. 

„Mér var hjálpað í gegnum allt ferlið og ef ég …
„Mér var hjálpað í gegnum allt ferlið og ef ég hef spurningar eða vantar upplýsingar hef ég aðgang að heimamanni sem er boðinn og búinn til að aðstoða,“ segir Ásta.

Ásta segir að í Salemi sé líka góður stuðningur við útlendinga sem vilja kaupa fasteignir í bænum. „Mér var hjálpað í gegnum allt ferlið og ef ég hef spurningar eða vantar upplýsingar hef ég aðgang að heimamanni sem er boðinn og búinn til að aðstoða,“ segir Ásta.

Salemi er um 10 þúsund manna bær á vesturhluta Sikileyjar. „Ég gaf mér góðan tíma tíma til að finna rétta húsið og ekki síst staðsetninguna. Margir af þessum bæjum eru afskekktir en ég valdi bæ sem er stutt frá alþjóða flugvelli, er alveg við hraðbrautina og einnig stutt keyrsla á magar strendur bæði norður vestur og suður. Einnig er Palermo höfuðborgin einungir 50 mínútum frá,“ segir Ásta.

Stórkostlegt útsýni af þaksvölunum

Helst munar þó um að húsið hennar er stutt frá byggingavöruverslun því þó húsið hafi verið í ágætu ástandi þurfti mikið að gera fyrir það. 

„Húsið sem eg keypti er i gamla bænum í Salemi og stendur á gömlum grunni. Kjallarinn er frá 1700 en húsið sjálft var endurbyggt fyrir um 60 árum en hefur ekki verið viðhaldið, svo nú er ég í framkvæmdum. Húsið er á þremur hæðum og á fyrstu hæðinni verð ég með „bed and breakfast“ með svefnpláss fyrir 6-8 manns. Á annarri hæð er svo íbúðin mín sem þarfnaðist nokkurs viðhalds. Til dæmis var baðherbergið gjörsamlega ónýtt og leki í þakinu. En það flottasta við húsið er samt þak svalirnar sem eru yfir öllu húsinu með stórkostlegt útsýni,“ segir Ásta.

Helst munar þó um að húsið hennar er stutt frá …
Helst munar þó um að húsið hennar er stutt frá byggingavöruverslun því þó húsið hafi verið í ágætu ástandi þurfti mikið að gera fyrir það.

Framkvæmdirnar ganga þó alveg rosalega hægt að mati Ástu. Hún segir Ítalina ekkert vera að flýta sér, en hún hafi kannski bara gott af því að læra að slaka aðeins á. 

„Hér ríkir pínu karlaveldi og ég verð nú að gefa þeim kredit fyrir þolinmæðina. Þeir eru jú að díla við útlending, konu sem talar ekki einu sinni almennilega ítölsku. Ég þarf samt að vera hér öllum stundum bara til að passa að allt sé gert rétt,“ segir Ásta og lýsir því hvernig iðnaðarmennirnir steyptu of háan vegg á baðherberginu. 

Allt lokað milli eitt og hálf fimm

Það er krefjandi að standa í framkvæmdum í öðru landi. „Í fyrsta lagi þarf maður að finna út rétt efni, þau eru alls ekki eins og á Íslandi og vinnuaðferðir ólíkar. En þetta hefst allt. Maður þarf bara að læra þolinmæði og gefa sér tíma í hlutina. Hér loka allar búðir á milli 13 og 16: 30 svo ef það vantar eitthvað þá þarf bara að bíða,“ segir Ásta. 

Hún er með iðnaðarmenn í öllum stóru verkefnunum í húsinu en sjálf vinnur hún smáverk og málningarvinnu. Þá hefur hún líka fengið fólk í vinnu sem kemur frá samtökunum Workaway, sem kemur of vinnur gegn því að fá mat og húsnæði. „Ég mæli með þessu við alla sem eru að bardúsa eitthvað sjálfir. Þetta er líka frábær leið til að kynnast fólki allstaðar að úr heiminum,“ segir Ásta. 

Tengslanetið er mikilvægt þegar kemur að iðnaðarmönnum.
Tengslanetið er mikilvægt þegar kemur að iðnaðarmönnum.

Spurð hvort það hafi verið eitthvað sem kom henni sérstaklega á óvart við að gera upp hús segir Ásta að það hafi vakið athygli hennar hversu mikilvæg tengslanet séu. „Nú kem ég hér sem útlendingur og þekki engan en um leið og ég fékk einn iðnaðarmann það var hinum reddað í gegnum tengslanet. Maður þekkir mann og á frænda sem er líka iðnaðarmaður og svo framvegis,“ segir Ásta. 

Ódýrara en heima

Á Ítalíu er talsvert ódýrara að standa í framkvæmdum en á Íslandi að mati Ástu. Hefur hún gert upp nokkrar íbúðir á Íslandi og segir hún þetta ekki vera sambærilegt. Vinnuafl og aðföng séu mun ódýrari ytra. 

Ásta ætlar að búa í Salemi mestan hluta árs en hún vonast til að framkvæmdum verði lokið í apríl svo hún verði tilbúin að taka á móti ferðamönnum í vor.

„Ég verð svo með allskonar skemmtilegar ferðir fyrir Íslendinga. Gisting í húsinu og dagsferðir um vestur Sikiley sem er full af náttúruperlum, menningarsögu og hægt að fara í vínsmökkun í bakgarðinum,“ segir Ásta.

Kjallarinn var byggður um árið 1700.
Kjallarinn var byggður um árið 1700.

Hún sér fyrir sér að leigja út herbergin yfir sumarið og auk ferðanna ætlar hún að kenna jóga. Svo er hún einnig að fara af stað með verkefni ásamt heimamanninum ráðagóða sem hjálpaði henni með pappírana. „Við erum að koma upp teymi sem aðstoðar útlendinga og er eg nú hluti að því þar sem eg hef deili minni reynslu. Við erum með heimasíðu í vinnslu sem verður komin í loftið á næstu dögum, 1 Euro Home,“ segir Ásta.

„Ég hlakka mikið til að bjóða íslendingum í heimsókn. Iðka jóga á þaksvölunum með eitt fallegasta útsýni á Sikiley og borða hádegisverð á vínakri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert