Falin Crown-perla í ensku sveitinni

Senur úr Crown voru teknar upp í Ashridge í Hertfordskíri …
Senur úr Crown voru teknar upp í Ashridge í Hertfordskíri á Englandi. Ljósmynd/Ashridge House.

Frægðarsól Ashridge House í Hertfordskíri er rétt að byrja að skína ef marka má framtíðaráætlanir eigenda hússins. Húsið sást í fimmtu seríu Crown sem kom út í nóvember og í þáttunum Pennyworth. Nú geta aðdáendur gist í húsinu og fengið leiðsögn um það, en Hinrik 8. Englandskonungur átti eitt sinn heima þar. 

Í garðinum við húsið er svo eikartré sem er sagt hafa verið gróðursett af Elísabetu III. Bretadrottningu þegar hún var lítil prinsessa.

Húsið á sér ríka sögu, en saga þess hefur ekki verið mjög þekkt til þessa. Fyrir heimsfaraldurinn var það í einkaeigu og ekki til sýnis, nú er þar til húsa viðskiptaskóli og einnig ferðaþjónusta. 

BBC fjallar um húsið og ræddi við talsmann stofnunar þess. Núverandi eigendur ákváðu að ráðast í miklar framkvæmdir til að standa straum af viðhaldi hússins. Því opnuðu þeir kaffihús og veitingastað. 

„Við erum enn að finna okkar takt, en þetta eru spennandi tímar,“ sagði talsmaðurinn. Húsið er um 12.300 fermetrar að stærð og ná garðarnir yfir um 76 hektara.

Edmund jarl af Cornwall lét byggja húsið á 13. öld. Féll það í eigu konungdæmis Englands árið 1539 en áðurnefndur Hinrik konungur varð svo hrifinn af því að hann ákvað að búa þar í 11 ár. 

Síðan þá hefur það verið í einkaeigu að mestu og var endurbyggt algjörlega árið 1808. Í heimsfaraldrinum kom húsið svo að góðum notum því þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Það var því tilvalið til að halda viðburði þar sem viðhalda þurfti tveggja metra reglu og lofta vel út. 

Nú er Ashrigde House til útleigu fyrir ýmis tilefni, ekki bara kvikmyndatöku. Líka brúðkaup, stórar veislur, listsýningar og ráðstefnur svo fátt eitt sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert