Keypti miða til Kúbu í hádeginu og lagði strax af stað

Sísí (t.h.) með Guðrúnu Mist Sigfúsdóttur, vinkonur á Oktoberfest í …
Sísí (t.h.) með Guðrúnu Mist Sigfúsdóttur, vinkonur á Oktoberfest í Bayern Þýskalandi. Ljósmynd/Aðsend

Sísí Ingólfsdóttir listakona er þekkt fyrir skemmtileg útsaumsverk sem slegið hafa í gegn. Færri vita að hún er hokin reynslu þegar kemur að ferðalögum. Hún á það til að vera hvatvís ferðalangur en eitt sinn bókaði hún ferð til Kúbu í hádeginu og var lögð af stað fyrir miðnætti sama dag.

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Hvatvís, vægast sagt. Eitt skipti keypti ég miða í hádeginu til Kúbu og var lögð af stað þangað um miðnætti. Ferðalagið endaði í sex vikna reisu um eyjuna með allskonar skemmtilegu fólki. En ástæða ferðalagsins var einfaldlega sú að vinkona mín var stödd í Havana, hún átti tvítugsafmæli og mér fannst kjörið að koma henni á óvart. Ég mundi eftir afmælispakkanum en gleymdi að pakka neðripörtum, það var ágætis ævintýri að redda slíkum þarna. Ég hoppa samt ekki lengur til fjarlægra landa í fleiri vikur ein og allslaus. Fer orðið sjaldan nokkuð án hóps af börnum og þá þarf nú að skipuleggja sig svona örlítið.“

Síðasta ferðalagið sem þú fórst í?

„Síðast skrapp ég þó barnlaus, ótrúlegt en satt, til San Francisco í byrjun desember. En Helgi bróðir minn býr þar með fjölskyldu sinni. Þar átti ég yndislega daga eftir langa vinnutörn og gat loksins knúsað litlu frænku mína (en hún er „covid-barn“ svo ég hef sorglega lítið séð af henni).“

Með Helga Ingólfi Ingólfssyni (miðju bróður) í San Francisco Kaliforníu.
Með Helga Ingólfi Ingólfssyni (miðju bróður) í San Francisco Kaliforníu. Ljósmynd/Aðsend

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Síðasta sumar sluppum við börnin út eins og beljur að vori. Við fylltum bílinn og ég keypti meira segja tengdamömmubox. Við keyrðum austur og tókum Norrænu til Jótlands þar sem við heimsóttum vini og ættingja, fórum í Legoland, Lalandia, dagsferðir til Þýskalands, ströndina, jarðaberjaakur o.fl. Við keyrðum líka um og fórum til Parísar og gistum víða á leiðinni. Í Frakklandi eyddum við svo þremur dögum í Disneylandi, sem var sturlun, eiginlega hálfgerð klikkun. En ferðalagið í heild var svo dásamlegt, algjört ævintýri! Elsta snúllan líka orðin 17 ára svo þetta var líklegast seinasti séns að ná þeim öllum. Minningar sem ég mun í það minnsta halda fast í það sem eftir er.“

Í Evrópureisu með börnunum fimm, Aðalfríður Mekkín (17), Theódór Vignir …
Í Evrópureisu með börnunum fimm, Aðalfríður Mekkín (17), Theódór Vignir (9), Ingólfur Gísli (13), Guðmundur Þór (6) og Helga Þorbjörg(6). Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér draumaferðalag?

„Mig dreymir svo margt. Ég ætti auðvitað frekar að vera atvinnu hugmyndarúnkari en myndlistarmaður. Ég fór einu sinni til Japans að heimsækja elsta bróður minn þegar hann var þar í skiptinámi (fyrir milljón árum síðan), við eyddum mestum tíma í Fukuoka en líka þó nokkrum í Tókýó. Mig dreymir um að komast þangað aftur, þetta var svo rosaleg upplifun! Mig dreymir um að fara þangað með mínu uppáhalds fólki og leyfa þeim að upplifa þetta undur. Annars eru margir staðir á óskalistanum, eflaust alltof margir en t.d. New Orleans, Bora Bora og Balí, Vestmanneyjar, Króatía, Havaí, Rio de Janeiro, Fiji, Færeyjar og Argentína svo eitthvað sé nefnt.“

Einhver góð ferðaráð?

„Ekki skipuleggja of þétta dagskrá, það er svo skemmtilegt að ramba á eitthvað nýtt og óvænt. Mér finnst besta leiðin til að kynnast nýjum stað að labba bara um og stinga nefinu inn þar sem eitthvað áhugavert virðist vera. Það er ekki þar með sagt að það megi ekki hafa einhverja dagskrá, bara ekki þannig að hún verði stressandi.“

Skemmtilegustu ferðafélagarnir?

„Mamma mín er klárlega með uppáhaldsferðafélögunum, kærastinn, börnin fimm, besta vinkonan og fleira skemmtilegt fólk. Við mamma fórum áður fyrr í eina borgarferð á ári (covid og önnur veikindi hafa aðeins sett strik í reikninginn) en það fer vonandi að breytast aftur. Þetta voru yndislegar ferðir, það komu reyndar stundum ungabörn með okkur svona þegar ég var mjólkurbú.“

„Mamma er svo ótrúlega klár og yfirveguð (tveir kostir sem mig skortir) og það er svo skemmtilegt að upplifa heiminn með henni. Hún hefur líka þann dásamlega eiginleika að finnast enn gaman að leika sér og það er snilld!“

„Guðrún Mist, vinkona mín, sálufélagi og umboðsmaður er líka mjög ofarlega á lista. Við höfum verið samlokur frá því að hún flutti til Íslands (eftir að hafa búið lengi í Bandaríkjunum), við tvær höfum farið út um allt. Ég fór reglulega að heimsækja hana og fjölskylduna hennar þegar hún bjó í Þýskalandi, enda ekki leiðinlegt á Októberfest. Nú síðast fórum við með yngsta afkvæmið hennar til Mílanó, stutt en yndisleg vorferð.“

„Ég og kærastinn minn eigum eftir að skoða bróðurpart jarðarinnar saman en fórum til Búdapest í byrjun sumars sem var verulega ánægjulega ferð. Við börnin höfum svo ferðast víða, ýmist við öll eða ég með hluta af þeim.“

Með kærri vinkonu Þóru Hjörleifsdóttur í London að fagna útgáfu …
Með kærri vinkonu Þóru Hjörleifsdóttur í London að fagna útgáfu bókar hennar Kviku (Magma) í Bretlandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig pakkar þú fyrir ferðalög?

„Það fer svolítið eftir því hverjir eru að fara með í ferðalagið og auðvitað hvert verið er að fara. Þegar á að pakka fyrir hóp af börnum og eina konu en plássið takmarkað þá þarf aðeins að skipuleggja sig, passa upp á að taka engan óþarfa með en samt hafa allt það helsta.“

„Ég get svo verið ansi kærulaus þegar ég er eingöngu að pakka fyrir mig sjálfa. En svo lengi sem þú ert með kredit kort, lyf og vegabréf þá er svo sem hægt að redda flest öllu öðru. Og núna þegar börnin eru farin að eldast er minna sem þarf að koma með, ekki lengur bleyjur og snuð, kerrur og aukaföt. En það þarf afþreyingu þegar ferðast er með börnum, hvort sem það er sími/ipad, litabækur, leikföng eða annað. Minnstu mín fá venjulega lítinn pakka í byrjun ferðar. Pakkarnir innihalda iðjulega eitthvað fyrirferðalítið leikfang, smá nammi, snakk, liti og nýja bók. Þetta hefur reynst hið fínasta fyrirkomulag til að halda þeim góðum í smá stund.“

Eru einhver ferðalög framundan?

„Planið er alltaf að ferðast sem allra mest en næst á dagskrá er löng helgi í Flórens með yngstu afkvæmunum (6 ára tvíburar) þar sem við fljúgum til Rómar og tökum svo lestina yfir að heimsækja góðan vin þeirra beggja, mamman fær eiginlega bara að fljóta með.“

„Rétt fyrir fermingarbrjálæði krónprinsins ætla að ég að skjótast í nokkra daga með ástmanninum til New York. Er einstaklega spennt fyrir þeirri ferð enda getur stórborgin verið sérlega rómantísk, það skemmir heldur ekki fyrir að maðurinn er að fara þangað í fyrsta skipti. Kona hefur aftur á móti farið þangað reglulega undan farinn tuttugu ár, stundum jafnvel nokkrum sinnum á ári. Að upplifa hluti í gegnum aðra getur verið svo ótrúlega skemmtilegt. Svo hef ég heldur ekki farið þangað í næstum 2 ár... Takk Covid!“

„En að öllu gríni slepptu þá eru komnir nokkrir nýir og áhugaverðir hlutir í Nýju Jórvíkinni eins og til dæmis The Vessel sem virðist af myndum að dæma vera mjög spennandi bygging með þvílíku útsýni yfir borgina og er ókeypis sem er nú tiltölulega óalgengt þarna og uppáhalds listasöfnin eru vissulega með breytilegar sýningar svo það er alltaf eitthvað nýtt.“

Eitt verka Sísí Ingólfsdóttur.
Eitt verka Sísí Ingólfsdóttur.
mbl.is