Hótelopnun með Beyoncé gerir allt brjálað

Beyoncé kom fram í Dúbaí.
Beyoncé kom fram í Dúbaí. AFP

Tónlistarkonan Beyoncé kom fram á tónleikum fyrsta skipti í fjögur ár á opnunarkvöldi lúxushótelsins Atlantis The Royal í Dúbaí á laugardaginn. Allt var lagt í sölurnar en hótelið opnar formlega í febrúar. 

Tónleikarnir voru eins og sannkölluð flugeldasýning og ekki bara vegna þess að flugeldar komu við sögu eins og greint er frá á vef E!. Beyoncé kom fram ásamt hljómsveit sem var aðeins skipuð konum, kvendansarar frá Líbanon dönsuðu með henni og 11 ára gömul dóttir hennar Beyoncé söng með henni á tónleikunum. Hún klæddist að sjálfsögðu mörgum sérsaumuðum fötum á viðburðinum. 

Talið er að söngkonan hafi fengið 24 milljónir bandaríkjadala fyrir klukkutíma langa tónleika sem voru aðeins fyrir boðsgesti að því fram kemur á vef TMZ.

Þrátt fyrir að margir aðdáendur söngkonunnar hafi fyllst gleði yfir að sjá að hún væri loksins með langa tónleika eftir fjarveru þá voru margir ósáttir. Hin forríka tónlistarkona hefur verið gagnrýnd fyrir að koma fram fyrir himinháa upphæð í ríki þar sem mannréttindabrot eru tíð. Söngkonan er meðal annars í uppáhaldi hjá hinsegin fólki og því hefur það ekki fallið í kramið að sjá hana koma fram þar sem réttindi hinsegin fólks eru ekki virt. 

Hótelið vakti að minnsta kosti athygli og er eitt umtalaðasta í heimi þessa dagana. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert